Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 64/2003.

Þriðjudaginn, 14. september 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 19. september 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 28. ágúst 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 24. júlí 2003 um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég var með þrálátar blæðingar og hótandi fyrirburafæðingu frá 12. mars 2003. Ég var tvívegis lögð inn á HIV v/þessa. Ég var lögð inn á meðgöngudeild Lsp 29. apríl og var þar í viku. Þar uppgötvast sykursýki. Undir eftirliti í Rvík viku lengur. Ég var lögð inn á meðgöngudeild Lsp 1. júlí og fæðing sett af stað 2. júlí v/gruns um þroskastöðvun. Lengd & þyngd. Barnið fæddist heilbrigt, en lítið. B læknir á HIV, læknal. F lét mig hætta að vinna 12. mars og var ég meira og minna rúmliggjandi til 2. júlí, var með klósettleyfi. Ég vinn á 2 stöðum, á öðrum staðnum hélt ég fullum launum, en á hinum staðnum átti ég ekki rétt á lengra veikindaleyfi og fékk því ekki laun þar eftir 1. maí 2003. Fer fram á framlengingu v/vinnulaunataps hjá D í 2 mánuði.“

 

Með bréfi, dags. 14. apríl 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 28. apríl 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Með umsókn, dags. 2. júní 2003, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og lengingu vegna veikinda á meðgöngu vegna áætlaðrar fæðingar barns 7. júlí 2003. Sótti kærandi um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu frá 1. maí 2003 vegna launa frá D.

Af gögnum þeim sem bárust lífeyristryggingasviði frá kæranda verður ráðið að hún hafi verið í 40% starfi hjá D og 75% starfi hjá E. Launagreiðslur til hennar frá D féllu niður um mánaðamót apríl/maí 2003, en launagreiðslur til hennar héldu hins vegar áfram frá E á grundvelli áunnins veikindaréttar.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Í 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið nánar á um þann rétt sem 4. mgr. 17. gr. ffl. veitir.

Lífeyristryggingasvið hefur litið svo á að til þess að hægt sé að fallast á lengingu fæðingarorlofsgreiðslna skv. 4. mgr. 17. gr. ffl. verði þunguð kona af heilsufarsástæðum að hafa lagt niður öll launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. M.ö.o. hafi þungaðri konu verið nauðsynlegt að leggja niður launuð störf af heilsufarsástæðum þá sé hún óvinnufær með öllu.

Lífeyristryggingasvið telur þungaða konu ekki hafa lagt niður störf nema launagreiðslur til hennar hafi jafnframt fallið niður. Á þessari túlkun er byggt í lokamálslið 3. mgr. 7. gr. áðurnefndrar reglugerðar, en þar segir að fylgja þurfi staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur féllu niður.

Rétt þykir að vekja athygli á að byggt er á sama sjónarmiði í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar sem gerir það að skilyrði fyrir greiðslu sjúkradagpeninga að viðkomandi verði algjörlega óvinnufær, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður sé um þær að ræða.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar um að hafa lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar og telur þar af leiðandi að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.“

   

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Úrskurðarnefnd óskaði eftir upplýsingum um skattgreiðslur kæranda á viðmiðunartímabilinu, svo og mat yfirtryggingalæknis varðandi framlenginguna.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna þess að beðið var eftir upplýsingum frá kæranda, svo og vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, en þó aldrei lengur en tvo mánuði, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 kemur fram að með heilsufarsástæðum í 4. mgr. sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna og langvarandi, sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni.

Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.- 4. mgr. 17. gr. ffl. með vottorði læknis sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Með umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 4. mgr. 17. gr. ffl. skal fylgja staðfesting vinnuveitanda og í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður sbr. 6. mgr. 17. gr. ffl. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Í læknisvottorði, dags. 21. júlí 2003 kemur fram að kærandi hafi þjáðst af meðgöngusykursýki og hafi hún vegna þess hætt störfum 12. mars 2003. Í vottorðinu er greint frá því að sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart 12. mars 2003. Þar kemur einnig fram að meðgöngusykursýki hafi verið staðfest 30. apríl 2003 eftir sykurþolspróf og að hún hafi verið lögð inn á meðgöngudeild LSH vegna hótandi fyrirburafæðingar.

Kærandi ól barn 2. júlí 2003. Samkvæmt gögnum málsins hefur hún verið í föstu starfi hjá tveimur vinnuveitendum annars vegar hjá E í 75% starfi og hins vegar hjá D í 40% starfi. Vegna starfa sinna hjá E fékk kærandi greidd veikindalaun frá þeim tíma er hún lagði niður starf sitt og fram að fæðingu barnsins. Hins vegar fékk hún ekki greidd laun allan þann tíma vegna niðurlagningar starfs hjá D. Í yfirlýsingu gjaldkera D dags. 23. maí 2003 er vottað að kærandi hafi verið frá vinnu frá 12. mars 2003 vegna veikinda á meðgöngu. Þar kemur einnig fram að kærandi hafi haldið launum sínum til 30. apríl 2003 samkvæmt veikindarétti, en verið launalaus síðan 1. maí 2003.

Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. ffl. sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er það gert að skilyrði að viðkomandi hafi lagt niður launað starf af heilsufarsástæðum. Með hliðsjón af því sem fram kemur í læknisvottorði er uppfyllt skilyrði um að kærandi hafi lagt niður bæði störfin af heilsufarsástæðum. Hún lagði niður launað starf hjá D þann 30. apríl 2003 í skilningi ákvæðis 4. mgr. 17. gr. þar sem þá féllu niður launagreiðslur til hennar. Hún fékk hinsvegar greidd laun vegna starfs hjá E fram að fæðingu barnsins og telst því ekki hafa lagt niður launað starf þar.

Með vísan til framanritaðs telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi eigi rétt til framlengingar fæðingarorlofs í tvo mánuði vegna niðurlagningar launaðs starfs hjá D. Grundvöllur útreiknings þeirrar greiðslu skal með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl. vera 80% af meðaltali heildarlauna frá D.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi er hafnað. Framlengja skal greiðslur í fæðingaorlofi um tvo mánuði vegna niðurlagningar launaðs starfs hjá D. Grundvöllur útreiknings þeirrar greiðslu skal með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl. vera 80% af meðaltali heildarlauna frá D.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta