Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 38/2007

Fimmtudaginn, 11. febrúar 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. september 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 14. júní 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Samkvæmt bréfi frá Fæðingarorlofssjóði, dagsett 14 júní 2007 er mér synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim forsendum að ég uppfylli ekki skilyrði um fullt nám. Ég vil kæra þann úrskurð á grundvelli eftirtalinna atriða.

Ég stundaði háskólanám til diplómagráðu í B-landi frá 1. september 2004 til 31. janúar 2007. Námið skiptist í tvo hluta, annars vegar bóklegt nám sem er lánshæft hjá LÍN og hins vegar verklegt nám þar sem krafist er 37 stunda vinnuviku og er launað með svokölluðum „praktik“ launum. Báðum hlutum verður að ljúka til að uppfylla kröfur háskólagráðunnar.

Fæðingarorlofssjóður vill ekki taka tillit til verklega námshlutans vegna þess að hann fór ekki fram á Íslandi en það tel ég algjöra mismunun þar sem verklegi hluti námsins míns er nauðsynlegur til að ljúka annars lánshæfu námi hjá LÍN. Fæðingarorlofssjóður hefur engar forsendur til þess að meta það að starfsnám erlendis veiti ekki rétt til fæðingarstyrks.

Í 3. mgr. 18. gr. reglugerðar nr.1056/2004 segir: „Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla.“

Þar sem verknám erlendis telst sambærilegt íslensku námi er því raunhæft að ætla að réttindi íslenskra námsmanna séu þau sömu, þar sem ekki er greint á um annað. Ef synja á nemendum, sem kosið hafa að taka nám sitt erlendis (og starfsnám), um fæðingarstyrk námsmanna þá þarf að minnsta kosti að taka það skýrt fram í reglugerðinni að þeir eigi ekki rétt á slíku. Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er tekið fram að heimilt sé að meta nám í öðrum ríkjum sem sé sambærilegt íslensku námi, og er því tvískinnungur hér á ferð, ef aðeins á að meta bóklega hluta námsins en ekki þann verklega. Að lokum vil ég koma á framfæri skoðun minni að það sé algjör tímaskekkja að mismuna íslenskum ríkisborgurum eftir því hvar þeir kjósa að nema. Öllu námi á að vera gert hátt undir höfði, hvort sem það er bóknám eða verknám, tekið á Íslandi eða erlendis.

Eftirfarandi orðrétta greinargerð (og gögn) lét ég fylgja með umsókn minni um fæðingarstyrk námsmanna:„

Þar sem að ég er að sækja um fæðingarstyrk sem námsmaður vegna náms í B-landi, sem ekki er skipulagt eins og hefðbundið háskólanám hérlendis læt ég eftirfarandi upplýsingar fylgja umsókninni. Allar frekari upplýsingar um námið er að finna á vefsíðu skólans. Um er að ræða háskólanám til diplómagráðu, metið til 120 ECTS eininga auk starfsnáms. Skólahluti námsins tekur 1/2 ár og er lánshæfur hjá LÍN. Verklegi hluti námsins tekur 1 ár (var áður 1/2 ár) og er aðeins að hluta metinn til ECTS eininga. Starfsnámið er því ekki lánshæft hjá LÍN en telst engu að síður 100 % nám með 37 stunda vinnuviku og er launað með svokölluðum „praktik“ launum.

7 mánuði af 12 fyrir fæðingu barns var ég í starfsnámi. Í nóvember 2006 ver ég lokaverkefni sem unnið er á starfsnámsstað metið til 10 ECTS eininga (einu einingarnar sem fást fyrir starfsnámið, sjá meðfylgjandi ljósrit af einkunnum (4th term) og lauk síðan starfsnámi þann 31 janúar 2007 (sjá meðfylgjandi vottorð frá skóla) og flyt þá 7 dögum síðar til Íslands. Vottorð E104 var lagt fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins og ég þáði atvinnuleysisbætur á tímabilinu 8 feb. '07- 19 feb. '07 (sjá meðfylgjandi ljósrit) og hef svo störf þann 20 feb. '07 og mun vinna fram til 1 júlí 2007 er ég hef töku á fæðingarstyrk (sjá meðfylgjandi ljósrit af tveimur síðustu launaseðlum og tilkynningu um fæðingarorlof til launagreiðanda.).“

 

Með bréfi, dagsettu 18. október 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 19. nóvember 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. júní 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. Í 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar kemur fram að verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skuli meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla.

Barn kæranda fæddist þann 14. júlí 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 14. júlí 2006 fram að fæðingardegi barnsins. Þann 19. nóvember sl. var kæranda skrifaður tölvupóstur og hún beðin um að gera betur grein fyrir annaskiptingu í því námi sem hún var í við D-skóla. Svar barst frá kæranda 20. nóvember 2007.

 

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá D-skóla, ódagsett, bréfi frá kæranda, dags. 24. maí 2007 og tölvupósti frá kæranda, dags. 20. nóvember 2007, stundaði kærandi nám við skólann á 1st term (sept 2004 – jan 2005), 2nd term (feb 2005 – jún 2005), 3rd term (ágú 2005 – jan 2006) og 4th term (feb 2006 – feb 2007). Samkvæmt framangreindu lendir 4th term á 12 mánaða tímabilinu fyrir fæðingardag barns en aðrar annir eru utan þess tíma. Á 4th term var kærandi skráður í 10 ECTS (5 einingar) og lauk þeim öllum. Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 30 ECTS á önn vera 100% nám og því teljast 22,5 – 30 ECTS vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns.

Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og 16. gr., sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 19. gr. reglugerðarinnar.

Í gögnum frá kæranda kemur fram að hún varði lokaverkefni sitt í nóvember 2006 og fyrir það fékk hún 10 ECTS. Ekki verður séð að 20. gr. reglugerðarinnar eigi við í tilviki kæranda þar sem upphaf 12 mánaða tímabils fyrir fæðingardag barns kæranda er 14. júlí 2006 og lokaverkefnið var varið í nóvember 2006 og nær hún því ekki 6 mánaða samfelldu námi. Eftir vörnina var hún í verklegu námi þar til námi lauk. Ekki verður heldur séð að 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar eigi við í tilviki kæranda þar sem hún stundaði verklega námið erlendis en ákvæðið gerir þá kröfu að námið sé stundað á Íslandi. Að auki var verknám kæranda launað en meginreglan er sú að verklegt nám teljist ekki með veiti það rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla.

Í 9. mgr. 19. gr. ffl. segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 14. júní 2007. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. nóvember 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla sbr. 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi ól barn 14. júlí 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. júlí 2006 fram að fæðingu barns. Kærandi var við nám í D-skóla frá 30. ágúst 2004 til 31. janúar 2007. Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi lokaverkefni sínu í nóvember 2006, sem var metið á 10 ECTS og lauk hún síðan starfsnámi 31. janúar 2007.

Við framangreindan háskóla teljast 30 ECTS á önn vera 100% nám. Fullt nám í skilningi ffl. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 telst því vera 22,5–30 ECTS. Á lokaönn námsins lauk kærandi samkvæmt framangreindu 10 ECTS og lauk jafnframt verklegu námi.

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. ffl. skal meta verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvæðið á ekki við í tilviki kæranda þar sem hún stundaði launað verknám í B-landi.

Samkvæmt 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er heimilt á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Skal foreldri þá jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og 16. gr. sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 19. gr. reglugerðarinnar. Þar sem kærandi lauk lokaverkefni sínu í nóvember 2006 og ekki ber að taka tillit til starfsnáms hennar uppfyllir hún ekki skilyrði 19. gr. ffl. um sex mánaða nám á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Af því leiðir að ekki eru uppfyllt skilyrði um undanþágu skv. 20. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, né undanþáguákvæði ffl. eða reglugerðar nr. 1056/2004 frá þeim skilyrðum. Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks námsmanns er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta