Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 50/2007

Fimmtudaginn, 31. janúar 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. október 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 31. ágúst 2007 um að ákvarða kæranda lágmarksgreiðslu vegna 25-49% starfs úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Þannig er mál með vexti að ég réði mig til starfa hjá B. í 50% hlutastarf á meðgöngu minni. Eftir að hafa haft samband við verkalýðsfélag hér í bæ stóð ég í þeirri meiningu að ég gæti samið um mín laun óháð kjarasamningum þar sem ég gerði mér fulla grein fyrir öllu varðandi þau laun sem ég samdi um. Ég samdi um að fá X kr. á mánuði fyrir störf mín sem fela í sér að svara í síma fyrir viðkomandi fyrirtæki ásamt samskiptum við þeirra viðskiptavini og birgja. Einnig voru tilfallandi verkefni sem komu aukalega á þetta. Ástæða þess að ég samdi um þessa tölu er sú að ég var ólétt tiltölulega snemma eftir fæðingu fyrra barns, sem er 14 mánaða þegar ég ræð mig í þessa vinnu, og er þar af leiðandi með frekar slæma grindarverki og á erfitt með hreyfingar og einnig þá er dóttir mín ekki kominn inn í leikskóla og fæ ég það tækifæri að vera með hana með mér í vinnunni. Einnig kannaði ég á reiknivél fæðingarorlofs þar sem hægt er að slá inn allar upplýsingar varðandi laun og vinnu og kom ekki fram athugasemd varðandi launaupphæð og vinnuhlutfall. Ég stunda 50% starf þ.e. 20 tímana á viku. Svo þegar ég sæki um fæðingarorlof er mér tilkynnt að ég hafi verið dæmd niður í 26%-49% flokk vegna launaupphæðar sem þýðir lægri greiðslur á mánuði. Þegar ég tala við stéttarfélag núna þá er mér og vinnuveitanda tjáð það að það sé ekki löglegt að semja undir kjarasamningum og þar af leiðandi ætlar vinnuveitandi að leiðrétta þetta og gera uppgjör á þessum mismun og verður ráðningarsamningur gerður með þetta í huga. Þá hafði ég samband við mann hjá Fæðingarorlofssjóði sem talar við lögfræðing innan stofnunar varðandi þann möguleika að hækka mig aftur upp í 50% hlutfall og fá greiðslur samkvæmt því. Fæ ég þau svör að lögfræðingur stofnunarinnar telur að verið sé að svindla með því að hækka launin til að fá hærri greiðslur og álít ég það móðgun þar sem ég hef aldrei lagst svo lágt að svindla. Mér var oft bent á það að vegna verkja í grindinni þá hefði ég getað fengið sjúkradagpeninga og guð má vita hvað fleira en þar sem ég er ekki þess þenkjandi kaus ég að fara að vinna í staðinn. Einnig finnst mér hart að geta sagt að vinnuveitandi mundi hreinlega bara hækka launin til að koma starfsmanninum inn í einhvern flokk en þetta er nú bara gert til að fylgja kjarasamningum og ætlaði ég þá persónulega að kanna málin varðandi greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Í byrjun fæ ég rangar upplýsingar frá verkalýðsfélagi þar sem mér er tjáð af fulltrúa þess að sem einstaklingur ætti ég að geta samið um laun sjálfur óháð kjarasamningum. Í öðru lagi þá vil ég benda á að reiknivél vefsíðu fæðingarorlofssjóðs gefur ekki upp neinar athugasemdir við ákveðnar tekjutölur miðað við starfshlutfall sem getur leitt til misskilnings eins og í mínu tilfelli en þar sem ég fékk engar athugasemdir bjóst ég ekki við að þetta mundi verða til þess að réttur minn yrði skertur. Þrátt fyrir allt þá hef ég unnið 50% starf og finnst mér að það ætti að horfa í starfshlutfall frekar en laun, sérstaklega þar sem búið er að leiðrétta þennan misskilning af vinnuveitanda sem vill hafa allt sitt á hreinu, þar sem erfitt er fyrir ólétta konu að fá vinnu sérstaklega vitandi það að hún kemur til með að fara í fæðingarorlof eftir 6-7 mánuði.“

 

Með bréfi, dagsettu 1. nóvember 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 20. nóvember 2007. Í greinargerðinni segir:

„Þann 20. ágúst 2007 var kæranda ritað bréf þar sem m.a. var beðið um staðfestingu frá B um starfshlutfall hjá vinnuveitanda. Svar barst frá vinnuveitanda 24. ágúst 2007 þar sem kom fram að kærandi væri í 50% starfshlutfalli með 50.000 kr. á mánuði í laun. Í kjölfarið var kæranda sent bréf, dags. 27. ágúst 2007 þar sem beðið var um ráðningarsamning hennar við B. Svar barst símleiðis um að kærandi starfaði í fyrirtæki föður síns og að ráðningarsamningur væri ekki til staðar auk þess sem kærandi teldi sig geta samið um sín laun óháð kjarasamningum.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 31. ágúst 2007, var henni tilkynnt að hún hafi verið ákvörðuð með lágmarksgreiðslur fyrir 25 – 49% starfshlutfall.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl. segir að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns skv. 6. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Þegar kona hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr., og 4. mgr. 17. gr. laganna, skuli þó miða við þann dag er hún hefur fæðingarorlof af því er hana varðar. Foreldri sem hefur unnið 86 – 172 vinnustundir á mánuði telst vera í 50 – 100% starfi en foreldri sem hefur unnið 43 – 85 stundir á mánuði telst vera í 25 – 49% starfi. Þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljast fullt starf samkvæmt kjarasamningi.

Í 2. mgr. 8. gr. ffl. segir að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns. Þó er móður heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 30. ágúst 2007 og óskaði kærandi eftir að hefja töku fæðingarorlofs einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag skv. 2. mgr. 8. gr. ffl., sbr. tilkynningu frá kæranda um fæðingarorlof, dags. 1. júlí 2007. Sex mánaða viðmiðunartímabil er, samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, 1. febrúar 2007 til 30. júlí.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2005 – 2007 og telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar árin 2005 og 2006 en á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs á árinu 2007.

Af framangreindu leiðir að ákvarða þurfti kæranda með lágmarksgreiðslu miðað við starfshlutfall skv. 4. og 6. mgr. 13. gr. ffl. og var þá stuðst við 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar til að finna út starfshlutfall hennar. Samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA frá 1. janúar 2004 – 31. desember 2007 skulu lágmarkslaun á árinu 2007 vera X kr. á mánuði. Miðað við X kr. laun telst kærandi því vera í 46% starfshlutfalli. Samkvæmt kjarasamningi VR og SA sem gildir frá 16. apríl 2004 – 31. desember 2007 skulu lágmarkslaun á mánuði á árinu 2007 vera X kr. Miðað við þann samning hefur kærandi verið í 40% starfshlutfalli.

Laun kæranda fyrir febrúar – júlí 2007 eru enn óbreytt í staðgreiðsluskrá RSK, sbr. meðfylgjandi útprentun, dags. 21. nóvember 2007. Vart verður því annað ráðið en kærandi tilheyri 25 – 49% starfaflokki.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið ákvörðuð með lágmarksgreiðslur miðað við 25 – 49% starf.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. nóvember 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 12. desember 2007, þar segir meðal annars:

„Í 4 málsgrein á bls. 2 í greinargerð vinnumálastofnunar kemur fram að skv. upplýsingum frá Ríkisskattstjóra kom fram að ég hafi verið í a.m.k. 25% starfi árið 2007. Ég hélt að einu upplýsingarnar frá Ríkisskattstjóra væru launaupplýsingar en ekki starfshlutfall. Ef menn myndu athuga stöðuna hjá Ríkisskattstjóra aðeins lengra fram í tímann myndu þeir væntanlega sjá að í ágústmánuði var svo sannarlega gert uppgjör v/launamismun til að leiðrétta þetta.

Vissulega má færa rök fyrir því sem segir í 5 málsgrein á bls. 2 í greinargerð Vinnumálastofnunar að þetta var metið eftir launum en þar sem ég lét vita að launamálin hefðu breyst þ.e. búið væri að gera uppgjör á þessum launamismun fékk ég þau svör að lögfræðingur vinnumálastofnunar teldi að um svindl væri að ræða sem mér finnst mjög skrítin svör og vægast sagt ansi djarfar ásakanir í garð míns og vinnuveitanda. Varðandi það að ekki hafi breyst staðan hjá Ríkisskattstjóra um staðgreiðslu fyrir febrúar til júlí þá tjáði vinnuveitandi mér að ekki væri hægt að breyta staðgreiðsluupplýsingum eftir á fyrir mánuðina febrúar-júlí og var því gert séruppgjör í ágúst.

Einnig segja þeir að stuðst sé við 1. mgr. 5. greinar reglugerðarinnar og skv. mínum skilningi á þessari reglugerð þá á að meta vinnustundir en ekki laun og vinnuveitandi kvittaði svo sannarlega fyrir 50% starfshlutfalli.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóðs að ákvarða kæranda lágmarksgreiðslu vegna 25-49% starfs úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), með síðari breytingum öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða tvö tekjuár á undan fæðingarári barns, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Í 6. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um lágmark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar til foreldris í 25-49% starfi og hins vegar foreldris í 50-100% starfi, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 13. gr. ffl. kemur fjárhæð lágmarksgreiðslna til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Kærandi ól barn 18. ágúst 2007. Kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði sex mánuði fyrir upphaf fæðingarorlofs. Á þeim tíma starfaði hún hjá B sem er einkahlutafélag föður hennar. Samkvæmt staðgreiðsluskrá námu mánaðarlaun hennar þessa mánuði X kr.

Kærandi hafði ekki verið á vinnumarkaði á viðmiðunartímabili meðaltals heildarlauna skv. 2. mgr. 13. gr. þ.e. tekjuárin 2005 og 2006. Í 4. mgr. 13. gr. ffl. segir að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans.

Lágmarksfjárhæðir úr Fæðingarorlofssjóði námu við fæðingu barns X kr. til foreldris í 50-100% starfi og X kr. til foreldris í 25-49% starfi. Ágreiningur er um við hvaða starfshlutfall skuli miða ákvörðun greiðslunnar. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns skv. 6. mgr. 13. gr. ffl. með síðari breytingum, skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Foreldri sem hafi unnið 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem hafi unnið 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi. Þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljist fullt starf samkvæmt kjarasamningi.

Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar skal farið eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt er kveðið á um endurgjald fyrir vinnu manns skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sem skal eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja. Fjármálaráðherra setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skal höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Samkvæmt 3. mgr. 58. gr. skulu ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Eins og fram er komið var vinnuveitandi kæranda B sem er einkahlutafélag föður hennar og námu mánaðarlaun kæranda samtals X kr. á mánuði. Samkvæmt útgefnum viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald ársins 2007 féll undir flokk H maður sem starfar við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi maka síns eða starfar hjá félagi sem maki hans eða nákomnir venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnaraðildar. Samkvæmt lið H (3) var lágmark reiknaðs endurgjalds vegna ófaglærðs starfsfólks X kr. á mánuði. Eins og mál þetta er vaxið þykir framtalin greiðsla fyrir störf kæranda í formi launa ekki koma í veg fyrir að litið sé til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra við ákvörðun um starfshlutfall kæranda.

Með hliðsjón af því sem fram kemur um tengsl kæranda og vinnuveitanda, fjárhæðar greiddra mánaðarlauna, mánuðina febrúar til júlí 2007, fjárhæða lágmarksgreiðslna samkvæmt ffl. og ákvarðana ríkisskattstjóra um lágmarksfjárhæðir reiknaðs endurgjalds ársins 2007 verður ekki fallist á að kærandi eigi rétt til lágmarksgreiðslu vegna 50-100% starfs á sex mánaða tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til A, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta