Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 18/2004

Þriðjudaginn, 5. október 2004

   

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

     

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. maí 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. apríl 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. apríl 2004, varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi.

 

Í kærubréfi kemur fram að ágreiningur varði túlkun á 13. gr. fæðingarorlofslaga. Í bréfinu segir:

„Mér og konu minni fæddist sonur þann 16. janúar 2003. Upphaflegar áætlanir okkar varðandi tilhögun fæðingarorlofs voru þær að ég hafði gert ráð fyrir að taka einn mánuð í orlof strax eftir fæðingu drengsins og hina tvo mánuðina ætlaði ég að taka síðar. Aðstæður í vinnu ollu því hins vegar að sú áætlun stóðst ekki, og ég frestaði þar af leiðandi töku fæðingarorlofs. Nú er svo komið að ég ætla að nýta mér rétt minn til töku fæðingarorlofs. Hugmyndin er að taka tvo mánuði í orlof; maí og júní 2004.“

 

Síðan segir:

„Í bréfi dagsettu þann 20. apríl 2004, greinir Tryggingastofnun mér frá því hvernig greiðslum til mín verði háttað þessa umræddu tvo mánuði. Þar kemur fram að miðað er við tekjur sem ég hafði, skv. upplýsingum Tryggingastofnunar, er að hér er 12 mánaða samfelld launatímabil fyrir fæðingu barns.

Samkvæmt 13. grein Fæðingarorlofslaga (2000, nr. 95) segir að viðmiðunartímabilið sem ákvarðar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eigi að vera tólf mánaða samfellt tímabil frá töku fæðingarorlofs (að undanskildum fyrstu tveimur mánuðunum). Í 13. grein laganna segir orðrétt:

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Eins og sjá má er hvergi vísað til þess í lögunum að miða skuli við fæðingu barns, heldur eru tekin af öll tvímæli um að miða eigi við upphafsdag fæðingarorlofs. Með vísan í þessa grein laganna er ljóst að viðmiðunartímabilið sem greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eiga að ná yfir eiga að vera frá febrúar 2003 til febrúar 2004, en ekki nóvember, 2001 til nóvember, 2002.“

 

Frekari upplýsingar og rökstuðningur barst frá kæranda með bréfi dags. 13. maí 2004. Í bréfinu er gerð nánari grein fyrir aðstæðum og jafnframt sjónarmiðum hans varðandi skýringu á 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Auk skírskotunar til efnis 13. gr. en m.a. vísað til þess að tilgangur og markmið ákvæðisins sé og hafi verið sá að veita báðum foreldrum tækifæri til að njóta samvista við börn sín án þess að fjárhagslegu öryggi þeirra sé stefnt í voða. Þetta hafi meðal annars verið rökin fyrir því að miða við 80% af tekjum foreldra, en ekki fasta krónutölu. Það sé mat kæranda að túlkun Tryggingastofnunar ríkisins á 13. gr. laganna gangi í berhögg við þetta meginmarkmið enda sé alls ekki verið að miða við 80% af tekjum á þeim forsendum sem Tryggingastofnun gefi sér í tilviki kæranda.

 

Með bréfi, dags. 24. maí 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 7. júní 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og óskar kærandi eftir því að viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans verði annað en litið var til við afgreiðslu umsóknar hans.

Með umsókn, dags. 20. nóvember 2002, sem móttekin var 2. desember 2002, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði. Umsóknin varðar barn sem fætt er 16. janúar 2003.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði.

Við afgreiðslu lífeyristryggingasviðs á umsókn kæranda var miðað við 80% meðaltekna hans á tímabilinu frá 1. nóvember 2001 til og með október 2002, en barn hans fæddist í janúar 2003, eins og að framan greinir.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Er þar miðað við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skal útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við það tímamark, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs síðar.

Lífeyristryggingasvið telur að ágreiningsefni í máli þessu sé sambærilegt því sem um ræddi í máli nr. 42/2001 og vísar af þeim sökum til niðurstöðu þess máls og rökstuðnings fyrir þeirri niðurstöðu.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. júní 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

      

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 16. janúar 2003.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna til kæranda í fæðingarorlofi er samkvæmt því frá nóvember 2001 til og með október 2002.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

     

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur til A í fæðingarorlofi er staðfest.

    

     

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta