Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 70/2003

Þriðjudaginn, 5. október 2004

  

A

gegn

Prentsmiðjunni Odda hf.

    

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett sama dag.

Kæra varðar uppsögn kæranda úr starfi hjá Prentsmiðjunni Odda við endurkomu hans úr fæðingarorlofi.

 

Í kæru segir meðal annars:

„Undanfarin 5 ár hef ég verið starfandi hjá Prentsmiðjunni Odda, Höfðabakka 3-5; frá 1998 sem nemi í B en frá 2001 sem B í undirbúningsdeildinni, á starfskjörum sem samningur við D segir til um.

Þann 27. mars 2003 eignaðist ég dóttur og þann l. apríl fór ég í 6 mánaða fæðingarorlof. Þegar ég sneri aftur til starfa þann 1. október 2003 beið mín uppsagnarbréf þar sem mér var sagt upp störfum vegna hagræðis- og skipulagsbreytinga. Ég fór fram nánari rökstuðning á uppsögninni en þá var mér tjáð að Prentsmiðjunni bæri engin skylda til að rökstyðja ákvörðunina neitt umfram það sem stendur í uppsagnarbréfinu.

Nú hafði hinsvegar annar B, [ ], verið ráðin í stöðu mína um leið og ég hóf fæðingarorlofið og tel ég því að það hafi staðið til frá upphafi að segja mér upp störfum. Ég er fyrsti starfsmaðurinn sem tek svona langt fæðingarorlof og vakti það mikla athygli á vinnustaðnum, en þar vinna yfir 270 manns. Ég tel því að hér sé verið að koma þeim skilaboðum til starfsmanna að þeim verði refsað með uppsögn ef þeir nýta sér lögboðinn rétt sinn til að taka fæðingar- og foreldraorlof.

Samkvæmt lögum nr. 95/2000 skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Ég tel að með uppsögn minni hafi Prentsmiðjan Oddi brotið gegn ákvæðum þessara laga og fer því fram á skaðabætur samkvæmt almennum reglum.“

 

Með bréfi, dags. 27. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð frá Prentsmiðjunni Odda hf.

 

Greinargerð Prentsmiðjunnar Odda hf., er dagsett 18. nóvember 2003. Í greinargerðinni segir:

[ ] var í starfi hjá prentsmiðjunni Odda þegar hann hóf töku fæðingarorlofs í apríl 2003. Hann tilkynnti um 6 mánaða samfellt fæðingarorlof frá og með 1. apríl til 30. september. Af hálfu fyrirtækisins var þessari ákvörðun hans vel tekið enda það litið góðum augum þegar starfsmenn vilja nýta sér réttindi sín að vera með börnum sínum á fyrstu mánuðum þeirra.

Í síbreytilegum heimi fyrirtækja hér á landi geta þó alltaf komið upp aðstæður sem leiða til nauðsynlegra skipulagsbreytinga, og um það var að ræða í þessu tilfelli. Tveimur starfsmönnum í deild A var sagt upp, og var hann annar þeirra. Sú ákvörðun tengdist að engu leyti þeirri ákvörðun hans um að nýta sér þann rétt sinn að taka fæðingarorlofs.

Í 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir: „Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.“ Skv. greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof þá er tilgangur ákvæðisins að vernda starfsmenn sem lagt hafa fram skriflega tilkynningu um að þeir ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða eru í fæðingar- eða foreldraorlofi gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Hvergi kemur fram að 30. gr. laganna gildi varðandi starfsmenn sem hafa lokið töku fæðingarorlofs. Af þeim sökum ganga þeir því aftur að starfsumhverfi fyrirtækja án aukinnar verndar fyrir uppsögnum eftir lok fæðingarorlofsins. Það er þó tilefni til að ítreka að uppsögnin tengist ekki á nokkurn hátt fæðingarorlofi hans.

Varðandi rétt A til að hverfa aftur að starfi sínu eða sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi skv. 29. gr. laganna, þá hefur hann þann rétt. Gert var ráð fyrir að hann ynni þann uppsagnarfrest sem hann hefur áunnið sér skv. kjarasamningi, nema þá hann óskaði sjálfur eftir að hætta störfum fyrr.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 18. nóvember 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 1. desember 2003.

Í bréfinu kveðst kærandi benda aftur á það, að um leið og hann hóf fæðingarorlof í apríl 2003 hafi nýr starfsmaður með sömu menntun og starfsreynslu verið ráðinn í hans stað til að sinna þeim störfum sem hann hafi unnið fram að þeim tíma (þ.e. E í undirbúningsdeild). Það sé því erfitt að sjá um hvers konar skipulagsbreytingu sé hér að ræða.

Í bréfi sínu vitnar kærandi enn fremur til þess að sagt sé að tveimur starfsmönnum í deild hans hafi verið sagt upp vegna skipulagsbreytinga og að sú ákvörðun tengist að engu leyti þeirri ákvörðun hans að nýta sér rétt til töku fæðingarorlofs. Í bréfinu segir síðan að hinn starfsmaðurinn sem hlotið hafi uppsögn á svipuðum tíma hefi einnig verið á leið í fæðingarorlof. Hafi sá starfsmaður gert ráð fyrir því að hefja fæðingarorlofið í nóvember 2003 en hann hafi ekki haft tækifæri til að leggja inn formlega tilkynningu um töku fæðingarorlofs þegar honum var sagt upp 1. september 2003 eftir 7 ára starf hjá Prentsmiðjunni Odda. Hann hafi hins vegar margoft talað um að hann hygðist nýta rétt sinn til að taka fæðingaorlof og bæði yfirmenn og verkstjóri deildarinnar hafi vitað af þessari ætlun hans.

Það megi því vera ljóst að báðar uppsagnirnar í deildinni séu í beinum tengslum við töku fæðingarorlof.

 

Svar kæranda við greinargerðinni var send Prentsmiðjunni Odda hf., til kynningar með bréfi, dags. 3. desember 2003, og fyrirtækinu gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá Prentsmiðjunni Odda hf með bréfi dags. 16. desember 2003, þar segir meðal annars:

„Í svari [ ] frá 1. desember sl. dregur hann mál tveggja annarra starfsmanna inn málflutning sinn. Prentsmiðjan telur ekki ástæðu til að ræða stöðu þeirra starfsmanna hjá fyrirtækinu á þessum vettvangi, enda eru mál þeirra ekki til skoðunar hér.

Prentsmiðjan telur þó tilefni til að benda á nokkur atriði máli sínu til stuðnings.

Í dag eru 239 manns starfandi hjá fyrirtækinu. Á árinu 2003 hafa 12 karlmenn nýtt sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs og starfa þeir í ýmsum deildum fyrirtækisins. Á sama tíma hafa 4 konur nýtt sér sama rétt. Auk þess hafa 4 karlmenn og ein kona tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Hér er um að ræða 21 starfsmann á tiltölulega stuttu tímabili. Meirihluti þessara starfsmanna eru ennþá í starfi hjá Prentsmiðjunni Odda og hefur fyrirtækið því ekki „notað uppsagnir sem tæki til að hindra starfsfólk sitt að eiga samvistir við börn sín á fyrstu ævimánuðum”, eins og fullyrt er í bréfi A.

Það verður hins vegar að líta til þess að starfsmenn sem hafa þegar nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs hafa ekki meiri uppsagnarvernd en þeir sem ekki eru í aðstöðu að nýta sér slíkan rétt, enda væri slík mismunum óeðlileg.

30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er undantekning frá meginreglunni sem gildir á almenna vinnumarkaðnum um frjálsan uppsagnarrétt. Verndin tekur til afmarkaðs tímabils, þ.e. frá tilkynningu um töku fæðingarorlofs fram til þess að orlofi er lokið.“

    

Með bréfi dags. 17. mars 2004 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir því að nánari skýringum á því hvað hafi falist í umræddri skipulagsbreytingu, einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvort breytingar hafi orðið á starfinu við ráðningu nýs starfsmanns í stað kæranda, svo og um annað sem fyrirtækið teldi til upplýsinga fyrir málið í heild.

 

Með bréfi, dags. 6. apríl 2004 bárust eftirfarandi upplýsingar með bréfi frá Prentsmiðjunni Odda hf.

„1. Þær skipulagsbreytingar sem fyrirtækið vísar til í bréfi frá 18. nóvember urðu nauðsynlegar vegna minnkandi verkefnastöðu fyrirtækisins. Haustið 2003 hafði verkefnastaðan versnað frá vorinu og í kjölfar þess sáum við fram á að þurfa að gera breytingar á mönnun í deildinni sem leiddu af sér að segja þurfti upp tveimur starfsmönnum. Hluti vandans er sá að mun algengara er orðið að verk komi svo til fullunnin til vinnslu hjá okkur og því minni þörf fyrir þá undirbúningsvinnu sem áður var innt af hendi í deildinni.

2. Sá starfsmaður sem vísað er til í bréfi úrskurðarnefndarinnar 17. mars var ekki ráðinn inn til að gegna stöðu A á meðan hann var í fæðingarorlofi. Það virðist vera misskilningur sem hefur orðið til vegna þess að hún hóf störf á svipuðum tíma og [ ] hóf sitt fæðingarorlof. Hún var fyrst og fremst ráðin inn til að styrkja deildina faglega og við töldum okkur heppin að fá hana til okkar aftur, en hún hafði á sínum tíma verið öflugust nema í fjögurra nema hópi hjá Odda. Hún hóf störf 2. maí 2003. Þegar [ ] hóf fæðingarorlof sitt 1. apríl 2003 voru ekki fyrirhugaðar uppsagnir í deildinni hjá honum, enda skapaðist það ástand ekki fyrr en um haustið, þegar [ ] hafði lokið töku fæðingarorlofs.

3. Þegar sú niðurstaða lá fyrir haustið 2003 að nauðsynlegt þótti að segja upp tveimur starfsmönnum vegna minnkandi verkefnastöðu var við þá ákvörðun litið til þess að deildin yrði faglega sem sterkust og hefði sem besta möguleika á að veita góða þjónustu, þrátt fyrir fækkun starfsfólks. Við teljum okkur hafa gert það, en með því urðum við að meta einstaklingana sjálfstætt með tilliti til frammistöðu þeirra. Eftir þá skoðun var ákveðið hvaða einstaklingum yrði sagt upp.“

 

Með bréfi dags. 29. júní 2004 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreindar upplýsingar frá fyrirtækinu.

 

Með bréfi dags. 10. júlí 2004 gerir kærandi grein fyrir afstöðu sinni, en þar segir meðal annars:

„Sú þróun, að verk komi tilbúin til prentunnar, hefur verið jöfn og stöðug á undanförnum árum eftir að umbrots- og myndvinnsluforrit urðu almenn eign. Allir starfsmenn deildarinnar, þar á meðal ég, höfðum mikla þjálfun og reynslu í því að taka við slíkum tilbúnum verkefnum. Hér er því alls ekki um neinar nýjungar að ræða. Auk þess eru þessar breytingar harla léttvægar miðað við þau miklu umskipti sem urðu í öllum upplýsingaiðnaðinum á þeim tíma sem ég var nemi og fastur starfmaður.

Ég hafna alfarið þeirri skýringu Prentsmiðjunnar Odda að hér hafi verið um raunverulegar skipulagsbreytingar í deildinni að ræða, enda skýrir hún ekki af hverju aðeins þeim starfsmönnum, sem annaðhvort voru í fæðingarorlofi eða á leiðinni í fæðingarorlof, var sagt upp störfum.

Önnur ástæða, sem gefin er fyrir uppsögnunum, er minnkandi verkefnastaða fyrirtækisins haustið 2003. Nú er það hinsvegar þannig að þegar nýr starfsmaður var ráðinn vorið 2003 hafði verkefnastaðan, (og fjöldi starfsmanna í deildinni) verið jöfn um alllangt skeið. Það getur því ekki hafa vakað fyrir fyrirtækinu að bæta starfsmanni við þann fjölda sem fyrir var, heldur tel ég víst að ætlunin hafi verið frá upphafi að skipta út starfsmönnum. Þar sem þessi starfsmannaskipti urðu á sama tíma og ég fer í fæðingarorlof tel ég víst að það sé ástæðan fyrir því að mér var sagt upp störfum.

Fæðingarorlof feðra og mæðra er mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaðinum. Þeir starfsmenn sem nýta sér þennan rétt, verða að geta gengið út frá því sem vissu, að starfsöryggi þeirra sé ekki ógnað, enda tel ég að 29. gr. og 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof eigi að tryggja þetta öryggi.“

 

Með bréfi dags. 7. september 2004 voru athugasemdir kæranda sendar Prentsmiðjunni Odda hf. og fyrirtækinu veitt tækifæri til að koma að frekari athugasemdum og gögnum áður en málið var tekið til úrskurðar. Með bréfi dagsettu 15. september sama ár bárust frá fyrirtækinu frekari gögn varðandi rekstur fyrirtækisins.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Ágreiningur í máli þessu varðar hvort uppsögn kæranda úr starfi hjá Prentsmiðjunni Odda hf. hafi brotið gegn ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Barn kæranda er fætt 27. mars 2003. Hann hóf sex mánaða fæðingarorlof þann 1. apríl 2003. Þegar hann kom aftur til starfa 1. október sama ár fékk hann afhent uppsagnarbréf dagsett sama dag. Kærandi telur að með uppsögninni hafi Prentsmiðjan Oddi hf. brotið gegn ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. ffl. helst ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda óbreytt í fæðingarorlofi. Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingaorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning, sbr. 2. mgr. 29. gr. ffl.

Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segir:

„Einnig eru tekin af öll tvímæli um rétt starfsmanns til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Í því felst þó ekki takmörkun á réttindum fyrirtækis eða stofnunar til að gera almennar rekstrarlegar breytingar sem kunna að hafa áhrif á stöðu starfsmanns á svipaðan hátt og þær hafa áhrif á störf annarra starfsmanna.“

Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála er álitaefnið í máli þessu, þegar litið er til efnis 29. gr. ffl. og athugasemda í greinargerð, hvort uppsögn kæranda eftir töku fæðingarorlofs hafi verið liður í almennum rekstrarlegum breytingum Prentsmiðjunnar Odda hf. Telja verður að á fyrirtækinu hvíli sönnunarbyrði hvað það varðar.

Prentsmiðjan Oddi hf. vísar til þess að ástæða uppsagnarinnar hafi verið hagræðis- og skipulagsbreytingar, sbr. uppsagnarbréf dags. 1. október 2003. Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar varðandi skipulagsbreytingarnar segir að þær hafi orðið nauðsynlegar vegna minnkandi verkefnastöðu fyrirtækisins. Haustið 2003 hafi verkefnastaðan versnað frá vorinu og í kjölfar þess hafi verið séð fram á að breytingar hafi þurft að gera á mönnun í deildinni sem leiddu af sér að segja þurfti upp tveimur starfsmönnum. Hluti vandans sé að mun algengara sé orðið að verk komi svo til fullunnin til vinnslu hjá prentsmiðjunni og því minni þörf fyrir þá undirbúningsvinnu sem áður var innt af hendi í deild kæranda.

Af hálfu kæranda er það véfengt að ástæða uppsagnarinnar hafi verið skipulagsbreytingar. Þegar hann hafi hafið fæðingarorlof í apríl 2003 hafi nýr starfsmaður með sömu menntun og starfsreynslu verið ráðinn í hans stað til að sinna þeim störfum sem hann hafi unnið fram að þeim tíma. Þá hafi hinn starfsmaðurinn sem sagt var upp verið á leið í fæðingarorlof.

Af hálfu Prentsmiðjunar Odda hf. er því mótmælt að annar starfsmaður hafi verið ráðinn til að gegna starfi kæranda. Svo virðist sem sá misskilningur hafi orðið til vegna þess að hann hafi hafið störf á svipuðum tíma og kærandi hóf sitt fæðingarorlof. Starfsmaðurinn hafi fyrst og fremst verið ráðinn til að styrkja deildina faglega. Einstaklingarnir hafi síðan verið metnir sjálfstætt með tilliti til frammistöðu þeirra. Eftir þá skoðun hafi verið ákveðið hvaða einstaklingum yrði sagt upp.

Varðandi ástæður skipulagsbreytinga sem sagðar eru hafa leitt til uppsagnar kæranda og annars starfsmanns sem starfaði í sömu deild fyrirtækisins, hefur Prentsmiðjan Oddi hf. vísað til versnandi verkefnastöðu deildarinnar frá vori til hausts 2003 og lagt fram gögn því til staðfestingar. Með hliðsjón af því og þar sem raunveruleg fækkun starfsmanna varð í deildinni árið 2003 telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála nægjanlega fram komið að uppsögn kæranda úr starfi hafi verið liður í rekstrarlegum breytingum fyrirtækisins. Samkvæmt því verður ekki talið að Prentsmiðjan Oddi hf. hafi með uppsögn kæranda úr starfi brotið gegn ákvæði 29. gr. laga nr. 95/2000.

    

ÚRSKURÐARORÐ:

Prentsmiðjan Oddi hf. braut ekki gegn ákvæði 29. gr. laga nr. 95/2000, við uppsögn A úr starfi eftir töku fæðingarorlofs.

    

   

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta