Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 9/2011

Fimmtudaginn 19. maí 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. mars 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 29. mars 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. mars 2011, um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni í fullu námi.

Með bréfi, dags. 30. mars 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 2. maí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. maí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið að hefja aftur nám í kjölfar atvinnuleysis, eftir langt hlé frá námi. Vegna þessa hafi kærandi verið í fræðsluneti [...] í grunnmenntun í undirbúningi fyrir áframhaldandi nám vorið 2010. Kærandi kveðst í kjölfarið hafa fengið inngöngu í fullan dagskóla í B-fjölbrautaskóla haustið 2010. Kærandi greinir frá því að honum hafi verið úthlutaðar 11 einingar sem hafi þó verið 30 klukkustunda skólavika og skólinn hafi metið námið sem 79% nám. Á hinn bóginn meti Fæðingarorlofssjóður 13 einingar sem 75% nám. Kærandi kveðst ekki skilja misræmið sem virðist vera þarna á milli. Vorið 2011 kveðst kærandi vera í 23 einingum en samkvæmt Fæðingarorlofssjóði þurfi einungis 18 einingar til þess að teljast í 100% námi. Kærandi greinir frá því að hann sé augljóslega námsmaður og því velti hann fyrir sér þessu misræmi.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 10. febrúar 2011, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 14. apríl 2011.

Með umsókn kæranda hafi fylgt skýrsla vegna náms og þjálfunar í almennum bóklegum greinum fyrir vorönn 2010, staðfesting á skólavist frá B-fjölbrautarskóla, dags. 10. febrúar 2011, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 14. apríl 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands.

Kæranda hafi með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. mars 2011, verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi þar sem hann teldist ekki hafa uppfyllt skilyrði um fullt nám á haustönn 2010.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda hafi fæðst Y. apríl 2011 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. apríl 2010 fram að fæðingardegi barnsins.

Á staðfestingu á skólavist frá B-fjölbrautarskóla, dags. 10. febrúar 2011, komi fram að kærandi hafi verið skráður í 11 einingar á haustönn 2010 og staðist þær. Kærandi sé svo skráður í 23 einingar á vorönn 2011.

Með kæru hafi fylgt ný staðfesting á skólavist frá B-fjölbrautarskóla, dags. 28. mars 2011, þar sem fram komi að kærandi hafi stundað nám við B-fjölbrautarskóla á haustönn 2010. Hann hafi stundað nám í 30 kennslustundum á viku en fullt nám teljist vera 38 kennslustundir á viku. Nám hans reiknist því u.þ.b. 79% af fullu námi.

Eftir að kæra var lögð fram hafi verið ákveðið að afla frekari upplýsinga frá áfangastjóra B-fjölbrautarskóla um fyrirkomulag náms kæranda, sbr. tölvupósta frá 7.–12. apríl 2011. Einnig hafi verið aflað upplýsinga af heimasíðu B-fjölbrautarskóla um fyrirkomulag námsins.

Kærandi hafi verið skráður í 11 einingar á haustönn 2010 og staðist þær. Á heimasíðu skólans komi fram að [...]-braut ([...]) sé 175 eininga nám sem skiptist þannig að 103 einingar séu í skóla og 72 einingar í starfsþjálfun. Meðalnámstími sé 8 annir, þar af séu 5 annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun í fyrirtæki. Miðað við að námið sé tekið á 5 önnum séu 20,6 einingar á önn teknar að meðaltali. Þar fyrir utan sé starfsþjálfunin sem sé 72 einingar.

Í tölvupósti frá áfangastjóra B-fjölbrautarskóla, dags. 11. apríl 2011, komi fram að kærandi hafi á haustönn 2010 verið í hægferðum sem þýði að hann hafi þurft að sitja fleiri kennslustundir fyrir hverja einingu en sá sem fer hraðar í gegnum námsefnið. Í tölvupósti frá áfangastjóranum, dags. 12. apríl 2011, komi fram að kærandi hafi farið í gegnum raunfærnimat. Í framhaldi af því hafi hann komið í skólann á haustönn 2010 og farið í þær almennu greinar sem tilheyra brautinni og miðuðust við stöðu hans í náminu. Síðar í sama tölvupósti segi að erfitt sé að staðsetja nemendur sem fara í gegnum raunfærnimat nákvæmlega eftir brautarlýsingu. Þannig hafi kærandi fengið sérgreinaáfanga metna á einni önn en ekki lokið slíkum áföngum á annarri önn. Ef áætlun standist sé gert ráð fyrir að kærandi klári [...]-námið á fjórum önnum.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt framangreindu sé ljóst að kærandi fylgi ekki hefðbundinni uppsetningu á náminu enda komi hann inn í námið eftir raunfærnimat og fái því ákveðna áfanga metna sem hann þarf ekki að taka. Einnig sé ljóst að á haustönn 2010 hafi hann einungis verið skráður í 11 einingar en þar sem þær einingar hafi verið teknar í hægferð fóru fleiri kennslustundir í námið en hjá þeim sem fara hraðar í gegnum það.

Fæðingarorlofssjóður bendir enn fremur á að þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla sé meginreglan sú að 18 einingar á önn teljist vera 100% nám og því teljist 13–18 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um fyrirkomulag náms kæranda og námsframvindu líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 8. mars 2011.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 8. mars 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Barn kæranda fæddist Y. apríl 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, er því frá Y. apríl 2010 fram að fæðingu barnsins.

Kærandi stundaði nám í B-fjölbrautarskóla. Samkvæmt staðfestingu frá skólanum, dags. 10. febrúar 2011, er kærandi skráður í 23 eininga nám á vorönn 2011 en hins vegar var hann einungis skráður í 11 einingar á haustönn 2010 og lauk hann þeim einingum.

Almennt svarar hver námseining í framhaldsskóla til tveggja 40 mínútna kennslustunda á viku í eina önn, þ.e. 14,5 vikur. Fullt nám er u.þ.b. 36 kennslustundir á viku eða 18 einingar á önn. Fullt nám í framhaldsskóla hefur þannig í úrskurðum nefndarinnar talist vera 18 einingar á önn og 75–100% nám því 13–18 einingar á hvorri önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Af gögnum málsins má ráða að kærandi var í svokallaðri hægferð á haustönn 2010 þannig að fleiri kennslustundir lágu að baki hverri einingu hjá honum en venja er. Þá eru kenndar sex stundir á viku en nemandinn fær aðeins tvær einingar, í stað þriggja með venjulegri yfirferð, þar sem farið er yfir minna námsefni. Kærandi var í fjórum hægferðaráföngum á haustönn 2010 og einum þriggja eininga meðalferðaráfanga. Hann stundaði því nám í 30 vikustundir eða um 83% af fullum kennslustundafjölda. Vegna hægferðanna urðu einingarnar hins vegar aðeins 11 (um 61%) í stað 15 (um 83%) ef hann hefði verið í meðalferð í öllum áföngum.

Í ffl. er einungis tekið fram að fullt nám sé 75–100% nám en umræddar hlutfallstölur eru hvorki í lögunum, lögskýringargögnum eða reglugerð nr. 1218/2008 yfirfærðar á einingafjölda. Hins vegar er til þess að líta að mati nefndarinnar að skilyrði réttar til fæðingarstyrks skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eru tvíþætt. Annars vegar þarf foreldri að hafa verið í fullu námi á umræddu tímabili og hins vegar þarf foreldri að hafa sýnt viðunandi námsárangur. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. er einungis heimilt að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Varðandi aðrar annir er gerð krafa um viðunandi námsárangur. Með vísan til framangreinds lítur nefndin svo á að við túlkun á hugtakinu viðunandi námsárangur þurfi að líta til skilgreiningar laganna á fullu námi þannig að átt sé við 75–100% námsárangur hvað varðar loknar einingar.

Þar sem kærandi lauk einungis 11 einingum á haustönn 2010 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám og viðunandi námsárangur í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta