Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 37/2007

Fimmtudaginn, 13. desember 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. ágúst 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. ágúst 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 9. ágúst 2007 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Samkvæmt nýjum reglum um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eiga fyrri fæðingarorlof ekki að skerða greiðslu í síðari fæðingarorlofum. Þessa reglu tel ég að hafi verið brotin við útreikning á greiðslum í mínu fæðingarorlofi. Aðeins 1 mánuður er dreginn frá áður en útreikningurinn er gerður en ætti að vera 3 mánuðir, þar sem ég tók 3 mánuði í fæðingarorlof síðast. Ég gat ekki verið lengur alveg frá vinnu minni en 8 vikur og varð ég að dreifa þessu orlofi á lengri tíma samhliða vinnu í skertu starfshlutfalli. Ég tel að réttur minn eigi að vera sá sami og hjá þeim sem dreifðu fæðingarorlofinu sínu á lengri tíma en þurftu ekki að vinna með. Útreikningurinn er mér mjög í óhag og þessar breyttu reglur sem eiga ekki að bitna á þeim sem eiga fleiri börn á styttri tíma skerða tekjur mínar í fæðingarorlofi verulega. Ég tel þetta vera stórt brot á mínum kjörum. Það að reikna ekki heldur með greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofi sem voru sannanlega hluti af mínum tekjum á þeim tíma með þeim tekjum sem ég hafði fyrir vinnu mína er á alla staði óréttlátt. “

Með bréfi, dagsettu 30. ágúst 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 9. ágúst 2007, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hennar yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í kjölfar reglugerðarbreytingar nr. 123/2007 er breytti reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, var hætt að taka mið af greiðslum Fæðingarorlofssjóðs með eldra barni við útreikning á meðaltali launa hjá yngra barni.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 10. júlí 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar fyrir þá mánuði á árunum 2005 og 2006 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 sbr. og úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 33/2005, 7/2007 og 15/2007.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2005 og 2006. Í september 2005 var kærandi utan vinnumarkaðar og skal því undanskilja þann mánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í ágúst 2005 og október 2005 – febrúar 2006 var kærandi í fæðingarorlofi á móti lækkuðu starfshlutfalli, sbr. greiðsluáætlun dags. 22. ágúst 2005. Þar sem hún var í a.m.k. 25% starfshlutfalli í þeim mánuðum skal hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Aðra mánuði á árunum 2005 – 2006 var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og skal því einnig hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar skv. 2. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga 90/2004

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf til kæranda, dags. 9. ágúst 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 5. október 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar dagsettu 27. nóvember var sérstaklega óskað eftir nánari upplýsingum frá kæranda um það hvernig töku fyrra fæðingarorlofs hafi verið háttað. Athugasemdir og frekari upplýsingar bárust frá kæranda með bréfi dags. 3. desember 2007, þar segir meðal annars: „Var að vinna til og með 17. ágúst 2005. Fæðing hófst 18. ágúst og lauk 19. ágúst. Fæðingarorlofssjóður skrifaði mig í fæðingarorlof frá og með 19. ágúst 2005. Ég hafði sótt um 50% fæðingarorlof frá 1. september 2005 til 28. febrúar 2006. Áætlaður fæðingardagur var 5. september. Fæðingarorlofssjóður skipti því fæðingarorlofinu á milli 19. ágúst 2005 til 28. febrúar 2006. Var að vinna til og með 17. ágúst 2005 fór þá í fæðingarorlof. Vann ekkert fyrr en 13. október en þá fór ég í 50% vinnu með fæðingarorlofi til 1. mars 2006 en frá 1. mars 2006 var ég í 100% vinnu.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns, þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. skal kona vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 10. júlí 2007. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2005 og 2006, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Samkvæmt greiðsluáætlun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dags. 9. ágúst 2007 var meðaltal heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabilinu til grundvallar útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði X kr. Miðaðist útreikningur meðaltals heildarlauna við alla mánuði viðmiðunartímabilsins nema september 2005 en þá var kærandi í fæðingarorlofi vegna barns sem fæddist þann 19. ágúst 2005.

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl. er það mat úrskurðarnefndarinnar að við útreikning meðaltals heildarlauna skuli ekki reiknaðar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem þær greiðslur mynda ekki stofn til tryggingagjalds og ekki þeir mánuðir sem foreldri er ekki samfellt að störfum í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Samkvæmt gögnum málsins er staðfest að kærandi lagði niður launuð störf og var í fæðingarorlofi frá 17. ágúst 2005 en var síðan í 50% starfi í október sama ár. Ekki liggur fyrir staðfesting á því að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli í öðrum mánuðum viðmiðunartímabilsins. Með hliðsjón af því og með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 skal við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda ekki reiknað með mánuðunum ágúst og september 2005. Hvorki í ffl. né í reglugerð nr. 1056/2004 er að finna ákvæði sem heimila að við útreikning meðaltals heildarlauna sé sleppt mánuðum sem foreldri tekur fæðingarorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi er hafnað. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal ekki reiknað með mánuðunum ágúst og september 2005.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta