Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 44/2007

Fimmtudaginn, 29. nóvember 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. september 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 24. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. júní 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í kæru segir meðal annars:

„Umsókn minni um fæðingarstyrk var synjað í bréfi dagsett 28.júní 2007.

Þar segir: „Samkvæmt 2. mgr 19.gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, er að jafnaði skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna að foreldri eigi lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“

„Af skráningu í þjóðskrá verður ráðið að þú uppfyllir ekki skilyrði um að hafa lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan. Þá verður samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum ekki heldur ráðið að framangreind undanþáguheimild um flutning vegna náms eigi við um þig. Umsókn þinni um fæðingarstyrk námsmanna er því hér með synjað. Og þeir bæta við: „Til að þú hafir getað átt rétt hefðir þú þurft að vera með lögheimili á Íslandi þar sem þú ert í skóla á Íslandi.“

Ég lauk stúdentsprófi vorið 1999 og hóf vinnu stuttu eftir það, fyrst í versluninni B og síðar í D. Á þessum tíma, 1999 til 2004 greiddi ég skatta til íslenska ríkisins.

Ég hóf nám í E-háskóla í september 2004 og lauk fyrsta ári í geislafræði. Því næst sótti ég um sambærilegt nám í F-skóla í G-landi sökum háskólanáms verðandi eiginmanns míns þar. Ég hóf nám í F-skóla í september 2005 en eftir eins vetrar skólavist ákvað ég að flytja nám mitt aftur til Íslands þar sem námið í G-landi reyndist ekki sambærilegt því íslenska. Ég hélt því áfram námi við H-fræði í I-háskóla haustið 2006 og stundaði það sem fjarnám. Ég hef, síðan ég fluttist til G-lands, haft skattalega heimilisfesti á Íslandi. Auk þess hefur ég fengið greidd námslán LÍN.

Rökstuðningur:

1. Staðfesting á því að upprunalegur flutningur til G-lands hafi verið vegna náms, í formi afrits af samningi milli F-skóla og mín, fylgdi umsókn minni um fæðingarstyrk sem send var Fæðingarorlofssjóði. Fæðingarorlofssjóður lítur svo á að umtöluð undanþága eigi ekki við um mig, þar sem ég ákvað síðar, eftir að hafa

hafið nám í F-skóla, að færa mig aftur yfir í I-háskóla og nema þar í fjarnámi.

2. Skv. upplýsingum frá Þjóðskrá, er ekki hægt að flytjast til G-lands, eða nokkurs annars Norðurlandanna, án þess að flytja lögheimili sitt þangað! Ég hafði því ekkert val um það að halda lögheimili mínu á Íslandi þrátt fyrir að vera búsett í G-landi. Skv. starfsmanni Þjóðskrár er þetta hægt ef maður flyst m.a. til Bretlands, þá getur maður viðhaft flutning á aðsetri sínu en samt sem áður haldið lögheimili sínu á Íslandi.

Í 17.gr. V. kafla reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er fjallað um undanþágur frá lögheimilisskilyrði. Þar kemur fram að heimilt sé að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms, enda hafi foreldri átt lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Þar segir ennfremur að skilyrði fyrir ákvæði þessu sé að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki. Ekki verður annað séð en aðstæður mínar falli undir ofangreind undanþáguákvæði í 17.gr. sbr. meðfylgjandi gögn, sem send höfðu verið með umsókn minni um fæðingarstyrk.

3. Staðfesting frá J-sveitarfélagi, þess efnis að ég uppfylli ekki skilyrði fyrir fæðingarorlofssjóðsgreiðslum í G-landi, fylgdi umsókn minni um fæðingarstyrk til Fæðingarorlofssjóðs. Þetta hefur greinilega ekki áhrif á úrskurð Fæðingarorlofssjóðs. Þannig að ég er greinilega týnd í kerfinu, allt vegna þess að ég bý í G-landi með eiginmanni mínum sem er þar vegna náms. Það að ég er í námi við I-háskóla fái námslán frá LÍN, sé með skattalega heimilisfesti á Íslandi og hafi greitt skatta til íslenska ríkisins í mörg ár, víkur allt fyrir lögheimilisstimplinum í G-landi sem vel á minnst er ekki valfrjáls heldur nauðsynlegur, vilji maður dvelja í landinu í meira en 3 mánuði.

4. Í 18.gr. V. kafla reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er fjallað um fullnægjandi skilyrði fulls náms teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun (...) á Íslandi í a.m.k.6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns o.s.frv. Ennfremur segir leggja verði fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um skráningu í 75-100% nám og viðunandi námsárangur. Gögn er varða þennan lið voru send með umsókn minni um fæðingarstyrk til Fæðingarorlofsjóðs.

5. Fordæmi eru fyrir greiðslu úr fæðingarorlofssjóði til mæðra í samskonar aðstæðum og ég er í. Meðfylgjandi þessari kæru er úrskurður Fæðingarorlofssjóðs við umsókn K frá febrúar 2005 (sendur með hennar leyfi). K var búsett í G-landi þegar hún eignaðist barn sitt. Hún bjó þar með kærasta sínum sem stundaði nám. Sjálf var hún í 100% fjarnámi við L-háskóla. Hún, sem ég, hafði engan rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í G-landi. K fékk úthlutað úr fæðingarorlofssjóði. Ekki fæst séð að lögum um fæðingarorlofssjóð hafi breyst síðan 2005. Hverju sætir þessi ólíka meðferð tveggja nær eins mála? “

 

Með bréfi, dagsettu 2. október 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 17. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 29. apríl 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna barnsfæðingar, 5. júní 2007.

Með umsókn kæranda fylgdi fæðingarvottorð, dags. 21. júní 2007. Yfirlýsing frá LÍN, dags. 4. maí 2007. Bréf frá kæranda, dags. 17. og 22. júní 2007. Námsferill kæranda frá I-háskóla, dags. 19. júní 2007. Bréf frá F-skóla, dags. 30. ágúst 2005. Hjónavígsluvottorð, dags. 29. júlí 2006 og bréf frá J-sveitarfélagi, dags. 13. júní 2007. Auk þess lágu fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. júní 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004 (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 19. gr. ffl. kemur fram það skilyrði að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt sé þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðaákvæðum er það meginregla að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns til að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Eina undanþágan frá því í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og í reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum er þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með lögheimili í G-landi við fæðingu barns síns en stundaði fjarnám frá Íslandi, sbr. bréf dags. 17. júní 2007 og upplýsingar frá þjóðskrá. Ekki verður séð að undanþáguákvæði 1. mgr. 17. gr. rgl. nr. 1056/2004 né nein önnur ákvæði reglugerðarinnar og ffl. taki yfir þau tilvik er foreldri hefur lögheimili erlendis en stundar svo nám hér á landi. Verður vart annað ráðið af lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð að um nám hér á landi gildi sú meginregla að foreldrið verði jafnframt að hafa lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins og síðustu 12 mánuði þar á undan. Hefur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður ekki skoðað sérstaklega hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám að öðru leyti.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og greiðslu fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar hafi réttilega verið synjað.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 24. október 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004 eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. ffl. skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Kærandi ól barn 5. júní 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá 5. júní 2006 fram að fæðingu barns. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til G-lands vegna náms haustið 2005. Hafði hún þá lokið fyrsta ári í H-fræði við E-háskóla. Kærandi stundaði nám við F-skóla skólaárið 2005-2006. Haustið 2006 hélt hún námi sínu áfram við H-fræði í I-háskóla og stundaði það sem fjarnám. Fullt nám við I-háskóla telst vera 15 einingar á misseri. Fullt nám skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því 11-15 einingar á misseri. Samkvæmt námsyfirliti frá I-háskóla dagsettu 19. júní 2007 lauk kærandi 15 einingum á haustmisseri 2006 og 8 einingum á vormisseri 2007. Kærandi var því í fullu námi á haustmisseri 2006 en stundaði ekki fullt nám á vormisseri 2007. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta