Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 46/2007

Fimmtudaginn, 6. desember 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5. október 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með tölvupósti dagsettum 20. ágúst 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Umsókn um fæðingarstyrk námsmanna var synjað á þeim forsendum að ekki væri hægt að sýna fram á rétt til sjúkradagpeninga í janúar mánuði 2007.

Umsækjandi flutti til B-lands 29. ágúst 2006 til að hefja nám við D-háskóla 1. september 2006. Vegna meðgöngutengdra veikinda neyddist umsækjandi til að gera tímabundið hlé á námi sínu og getur því ekki lokið haustönn 2006, umsækjandi hóf svo aftur nám við sama háskóla 5. febrúar 2007 og var áætlaður fæðingadagur 1. júlí 2007. Þar sem að umsækjandi er búsettur erlendis tímabundið vegna náms, var óskað eftir því að hálfu fæðingarorlofssjóðs að sýnt væri fram á rétt til sjúkradagpeninga í búsetulandi umsækjanda fyrir það tímabil sem uppá vantaði til að næðust 6 mánuðir samfleytt fyrir áætlaðan fæðingardag, þ.e. frá 1. janúar til 4. febrúar 2007.

Námsmönnum í B-landi eru ekki veittir sjúkradagpeningar og er því ekki hægt að sýna fram á rétt þar. Íslenskir námsmenn eiga samkvæmt lögum um almannatryggingar rétt á sjúkradagpeningum ef veikindin valda töfum á að námsáfangi náist, en til að eiga rétt á sjúkradagpeningum á Íslandi þarf umsækjandi að vera og hafa verið búsettur á landinu síðastliðna 6 mánuði.

Umsókn um sjúkradagpeninga ásamt sjúkradagpeninga vottorði frá íslenskum heimilislækni var lögð inn til TR og var henni synjað á þeim forsendum að umsækjandi væri ekki með lögheimili á Íslandi en þó fékkst það staðfest að umsækjandi uppfyllti önnur skilyrði.

Þetta mál hefur frá upphafi einkennst af óvönduðum og ófaglegum vinnubrögðum af hendi fæðingarorlofssjóðs frá því að fyrsta umsókn var lögð inn í desember 2006 hefur þrisvar sinnum fengist óformlegt svar þess efnis að öll gögn séu komin og að umsóknin verði samþykkt von bráðar. Á tveggja mánaða tímabili í sumar fékkst aðeins það svar að það vantaði læknisvottorð, en hinsvegar var ekki hægt að fá því svarað hvaða læknisvottorð vantaði eða hvað það ætti að innihalda og á sama tíma neita starfsmenn sjóðsins að svara símanum. Það hlýtur að teljast undarlegt að óskað sé eftir því að sýnt sé fram á rétt til sjúkradagpeninga í B-landi þar sem að skýrt er tekið fram í reglugerð um fæðingarorlof að Tryggingarstofnun ríkisins verði að skera úr um réttindi til sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.

19. gr. laga um fæðingarorlof segir að „Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.“ og „Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“

Í 17. gr reglugerðar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði er veitt undanþága frá lögheimilisskilyrði m.a. fyrir foreldra sem hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.

Í 19. gr reglugerðar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði er veitt undanþága frá 2. mgr. 18. gr um viðunandi námsárangur og/eða ástundun vegna veikinda móður á meðgöngu, hafi hún fengið, verið á biðtíma eða átt rétt á sjúkradagpeningum fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar þurfa umsækjendur að vera og hafa verið búsettir á Íslandi síðastliðna 6 mánuði til að vera sjúkratryggðir og eiga rétt á sjúkradagpeningum.

Þarna stangast allverulega á með lögum um fæðingarorlof og þeim undanþágum sem á þeim eru gerðar og svo aftur lögum um almannatryggingar. það hlýtur að vera óeðlileg túlkun á 19. gr. reglugerðar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði að ætla að með staðfestingu á sjúkradagpeningum sé verið að staðfesta búsetu umsækjenda á Íslandi en ekki hvers eðlis umrædd veikindi eru og þá hvort tafir hafi verið á námsárangri eins og önnur skilyrði fyrir sjúkradagpeningum eru. Þá er einnig, að þar sem þegar hefur verið veitt undanþága frá 19. gr. laga um fæðingarorlof með 17. gr. reglugerðar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, sé bæði óeðlilegt og ósanngjarnt að setja frekari skilyrði sem krefjast þess að 19. gr. laga um fæðingarorlof sé uppfyllt.

Í ljósi þess er óskað eftir því að umsókn um fæðingarstyrk sé samþykkt á þeim forsendum að umsækjandi uppfylli öll skilyrði fyrir sjúkradagpeningum önnur en búsetu á Íslandi, sem þegar hefur verið veitt undanþága frá í reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.“

 

Með bréfi, dagsettu 9. október 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 18. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með tölvupósti Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. ágúst 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 19. júní 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 19. júní 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá D-háskóla dags. 30. mars og 22. júní 2007, var kærandi skráður í nám við skólann frá 1. – 30. september 2006. Ekkert er getið um námsframvindu. Á staðfestingu frá sama skóla, dags. 12. febrúar 2007 kemur fram að kærandi sé skráður í nám frá 5. febrúar 2007 til byrjun júlí. Á staðfestingu frá E-háskóla, dags. 5. febrúar 2007, kemur fram að kærandi hafi verið skráður í skólann frá 28. september – 26. október 2006. Ekki er getið um neina námsframvindu. Í tölvupósti frá kæranda til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. maí 2007, kemur fram að hún hafi hafið nám fyrir áramót en þurft að hætta því vegna veikinda. Hún sé jafnframt skráð í skóla núna sem muni ljúka í byrjun júlí. Upplýsingar um námsframvindu sé ekki hægt að senda fyrr en skólinn sé búinn í byrjun júlí. Námið sé 100% nám en ekki einingar.

Samkvæmt framangreindu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um námsframvindu kæranda. Fram hefur komið að kærandi hætti í námi á haustönn 2006 vegna veikinda og virðist ekki hafa lokið neinni námsframvindu þá önn. Kærandi var svo skráður í nám frá 5. febrúar til byrjun júlí á vorönn 2007. Kærandi eignaðist barn sitt 19. júní og verður því ekki séð að kærandi uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns. Er m.a. í 19. gr. reglugerðarinnar að finna undanþáguákvæði fyrir móður frá skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um rétt til greiðslu sjúkradagpeninga sbr. bréf Tryggingastofnunar ríkisins dags, 31. júlí 2007.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með tölvupósti, dags. 20. ágúst.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 24. október 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks.

Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl. Þar segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 19. júní 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá 19. júní 2006 fram að fæðingu barns. Kærandi var með lögheimili í B-landi við fæðingu barns og hafði verið í námi við D-háskóla. Samkvæmt staðfestingum skólans dagsettum 30. mars og 22. júní 2006 var kærandi við nám í skólanum í september 2006. Í læknisvottorði dagsettu 20. mars 2007 kemur fram að eftir einn mánuð hafi hún orðið að boða veikindaforföll vegna meðgöngutengdrar ógleði og vanlíðunar. Samkvæmt læknisvottorði dagsettu 10. júlí 2007 var kærandi sjúkraskráð frá 1. september 2006 til 1. febrúar 2007. Samkvæmt staðfestingu D- háskóla dagsettri 12. febrúar 2007 var kærandi skráð í nám á vormisseri 2007. Fram kemur að kennsla hafi hafist 5. febrúar 2007 og henni hafi átt að ljúka í júlí 2007. Engar upplýsingar liggja fyrir um námsframvindu kæranda við D-háskóla.

Kærandi uppfyllir samkvæmt framansögðu ekki skilyrði 19. gr. ffl., sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Samkvæmt 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Kærandi sótti um sjúkradagpeninga til Tryggingastofnunar ríkisins. Umsókninni var hafnað með bréfi stofnunarinnar dagsettu 31. júlí 2007. Í niðurlagi bréfsins segir að skilyrði til greiðslu á sjúkradagpeningum séu ekki fyrir hendi þar sem kærandi sé ekki sjúkratryggð hér á landi.

Ekki er staðfest að kærandi hafi verið í fullu námi við D-háskóla á vormisseri 2007. En jafnvel þótt það væri staðfest nægir það ekki til að uppfyllt séu skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks þar sem nám kæranda á haustmisseri var ekki fullt nám í skilningi ffl. og 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og ekki eru heldur uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 þar sem kærandi átti ekki rétt til greiðslu sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Með hliðsjón af framanrituðu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta