Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 12/2008

Fimmtudaginn, 10. apríl 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. mars 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 12. mars 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 10. mars 2008 um að synja kæranda um að skipta greiðslu fæðingarstyrks námsmanns á fleiri en eitt tímabil og að ekki sé hægt að taka fæðingarstyrkinn samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég óska þess að Kærunefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála úrskurði um hvort að ég megi breyta fæðingarorlofi mínu eins og ég tel að lögin leyfa mér. Ég vil haga mínu fæðingarorlofi á þann veginn að ég fari í hálft starf á móti hálfu fæðingarorlofi í apríl og maí. Tek síðan tvo mánuði samfellt frá l8. júní til 18. ágúst. Vegna fjölskylduaðstæðna og þeirra verkefna sem ég sinni í vinnu minni hentar þessi tilhögun á fæðingarorlofi mér best og vinnuveitandi minn hefur samþykkt þær. Fæðingarorlofssjóður hafnar þessari tilhögun fæðingarorlofs skv. bréfi dagsett 10. mars sl.

Ég á rétt á fæðingarstyrk skv. bréfi frá Fæðingarorlofssjóði dagsett 12. október 2007. Einnig á ég rétt á fæðingarorlofi skv. úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála dagsettur 7. mars. 2008.

Nú er ég að biðja um að fá að skipta upp fæðingarorlofi mínu og einnig taka það samhliða minnkuðu starfshlutfalli eins og 10. gr. ffl. leyfir og vinnuveitandi minn hefur samþykkt. Einnig er það skv. markmiðum laganna að foreldrar geti samræmt fjölskyldu og atvinnulíf.

Þar sem ég á rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður og einnig fæðingarorlof sem foreldri á vinnumarkaði er fjallað um réttindi mín bæði í kafla IV og VIII í ffl.

Ég hef ekki rekist á neitt ósamræmi í lögunum þó að ég falli undir báða ofangreinda kafla. Enda fjallar 10. mgr. 13. gr. laganna einmitt um svona tilvik. Ég tel því að það sé ekkert í lögunum sem kemur í veg fyrir að ég geti hagað mínu fæðingarorlofi skv. 10 gr. ffl. Þegar reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skoðuð kemur upp hugsanlegt ósamræmi. Í síðustu setningu 21. gr. reglugerðarinnar segir „Óheimilt er að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil.“ Eðlilegast er að túlka reglugerðina þannig að foreldri sem á rétt á fæðingarstyrk fái hann greiddan samfellt á einu tímabili óháð hvenær eða hvernig foreldri taki fæðingarorlof. Enda tel ég ekkert í lögunum sem segir til um að fæðingarstyrkur þurfi að greiðast á sama tíma og fæðingarorlof er tekið.

Ef hins vegar er hægt að túlka setninguna þannig að hún hafi áhrif á tilhögun fæðingarorlofs sbr. 10. gr. þá ber að hunsa setninguna þar sem hún gengur gegn lögunum, sbr. markmið laganna. En í því tilviki væri eðlilegast að borga fæðingarstyrkinn í réttu hlutfallið við fæðingarorlofið.

Einhvers misskilnings virðist gæta í bréfi Fæðingarorlofssjóðs þar sem stendur að beiðni minni um að dreifa fæðingarstyrknum sé hafnað. Ég sendi beiðni um breytingar á fæðingarorlofi en ekki fæðingarstyrk. Einnig ætti greiðsla fæðingarstyrksins að ná yfir eitt tímabil eins og ég vil haga mínu fæðingarorlofi, þ.e.a.s. ef fæðingarstyrkurinn er borgaður í réttu hlutfalli við fæðingarorlofið. Samkvæmt minni tilhögun á fæðingarorlofinu ætti ég að fá 50% fæðingarstyrk í apríl og maí, kringum 40% styrk í júní, 100% í júlí og loks 60% í ágúst. Greiðslutímabilið er sem sagt eitt, frá apríl til ágúst.

Hugsanlegt er að reglugerðin brjóti lög nr 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ef skilningur Fæðingarorlofssjóðs er réttur. Fæðingar- og foreldraorlofslögin mismunar kynjunum með 3. mgr. 8. gr. ffl. En þar segir að móðir verði að taka minnsta kosti tvær vikur í fæðingarorlof eftir fæðingu barns. Þetta er mjög eðlileg mismunun með velferð móður og barns í huga. En það getur ekki verið eðlilegt að mæður sem eiga rétt á fæðingarorlofi og fæðingarstyrk að þær neyðist til taka fæðingarorlofið sitt samfellt frá fæðingu barns í þá 3-6 mánuði sem hún á rétt á. Meðan hefur faðirinn meira frelsi til að hliðra sínu fæðingarorlofi til að samræma fjölskyldu og atvinnulíf sitt, sbr. markmið laganna.

 

Með bréfi, dagsettu 14. mars 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 26. mars 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, sem barst með símbréfi 8. október 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna barnsfæðingar, 20. febrúar 2007.

Auk umsóknar kæranda barst tilkynning um fæðingarorlof, dags. 5. október 2007, námsferilsyfirlit frá B-háskóla, dags. 28. febrúar 2007, og staðfesting frá sama skóla um námslok, dags. 24. febrúar 2007. Bréf frá kæranda, dags. 8. október 2007 og fæðingarvottorð, dags. 26. febrúar 2007.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 12. október 2007, var honum tilkynnt að umsókn hans um fæðingarstyrk hafi verið samþykkt frá 1. apríl 2008 í þrjá mánuði.

Þann 7. mars 2008 barst ný tilkynning frá kæranda um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs þar sem fram kemur að hann ætli að taka 50% fæðingarorlof í apríl, 50% fæðingarorlof í maí og 100% fæðingarorlof frá 18. júní–18. ágúst. Var kæranda í kjölfarið sent bréf, dags. 10. mars sl., þar sem honum var tilkynnt að ekki yrði hægt að verða við beiðni hans þar sem óheimilt væri að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil. Hefur sú ákvörðun nú verið kærð.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var kominn í starf á innlendum vinnumarkaði við fæðingu barns síns þann 20. febrúar 2007 en hann hóf störf þann 19. febrúar 2007 og á því rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu. Jafnframt er óumdeilt að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann var ekki samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og að 10. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 eigi við um greiðslur til kæranda.

Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 á foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. en uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr., sbr. þó 9. mgr. 19. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar styrknum. Við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein skal miða við tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Í athugasemdum við 10. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 segir: „Þá er lagt til að kveðið verði á um heimildir til að greiða fæðingarstyrk skv. 18. gr. laganna, sbr. d–lið 9. gr. frumvarps þessa, til foreldra sem eru á vinnumarkaði við fæðingu barns, ættleiðingu barns eða töku í varanlegt fóstur og uppfylla þar með skilyrði 8. gr. laganna til fæðingarorlofs en hafa ekki áunnið sér rétt til greiðslna, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að það verði einungis heimilt í þeim tilvikum er foreldri nýtir sér rétt sinn skv. 8. gr. Falli launagreiðslur frá vinnuveitanda ekki niður á því tímabili skal sá hluti þeirra er nemur hærri fjárhæð en mismun fjárhæðar styrks og meðaltals heildarlauna foreldris koma til frádráttar styrkfjárhæðinni. Ástæðan fyrir því skilyrði að tekjur frá vinnuveitanda á sama tíma komi til frádráttar svo að foreldri njóti fæðingarstyrksins er að ekki verður talið sanngjarnt að foreldri hagnist á fæðingarstyrknum enda er tilgangur hans fyrst og fremst að styðja við foreldra er ekki njóta tekna fyrir vinnu utan heimilis. Hefur það viljað brenna við í framkvæmd að foreldrar á vinnumarkaði sem hafa ekki átt rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi sótt um fæðingarstyrk án þess þó að hafa í hyggju að leggja niður störf. Er lagt til að við útreikninga á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein sé miðað við tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann tíma er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Er með þessu gert ráð fyrir að foreldri hafi starfað í mjög skamman tíma á vinnumarkaði, í það minnsta skemmri tíma en sex mánuði.“

Þegar greiddir eru fæðingarstyrkir til foreldra í fæðingarorlofi skv. 10. mgr. 13. gr. ffl. fer því með greiðslurnar skv. ákvæðum laga fæðingar- og foreldraorlofs um styrki. Skal foreldri jafnframt leggja niður störf á meðan enda er fæðingarorlof leyfi frá launuðum störfum skv. 1. mgr. 7. gr. ffl. Eins og fram hefur komið var ekki ætlunin að foreldrar, sem ekki eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, gætu hagnast á fæðingarstyrknum með því að sækja um hann án þess að þurfa að leggja niður störf. Að öllu framangreindu virtu er það því skilningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að heimild vinnuveitanda til að greiða foreldri mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl. sé greiðsla án vinnuframlags sambærileg við 9. mgr. 13. gr. ffl. en skv. henni getur vinnuveitandi greitt starfsmanni þann mismun sem verður á meðaltali heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þann 26. mars sl. var óskað eftir launaseðlum síðustu tveggja mánaða fyrir áætlaðan fæðingardag barns kæranda og vottorði um áætlaðan fæðingardag. Samdægurs bárust launaseðlar frá D fyrir febrúar og mars 2007 og vottorð frá Barnaspítala Hringsins, dags. 30. mars 2007, þar sem fram kemur að barn kæranda hafi fæðst fyrir tímann eftir tæplega 34 vikna meðgöngu. Samkvæmt því hefur áætlaður fæðingardagur barns kæranda verið fyrirhugaður í byrjun apríl 2007 miðað við eðlilega meðgöngulengd. Á launaseðlunum og skv. RSK kemur fram að kærandi var með X kr. í meðaltalslaun fyrir febrúar og mars 2007. Fæðingarstyrkur námsmanna er X kr. á mánuði á árinu 2008. Samkvæmt því mætti vinnuveitandi greiða kæranda X kr. á mánuði þann tíma sem kærandi þiggur greiðslu fæðingarstyrks.

Í 19. gr. ffl. er fjallað um fæðingarstyrk námsmanna. Í 2. mgr. kemur þannig fram að fæðingarstyrkurinn sé föst ákveðin krónutala og í 6. mgr. að greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skuli inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð. Í 11. mgr. kemur síðan fram að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins. Hefur ráðherra gert það með reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrkja. Í 21. gr. reglugerðarinnar er fjallað um tilhögun greiðslna fæðingarstyrkja. Í 2. mgr. 21. gr. kemur þannig m.a. fram að greitt sé fyrir heilan mánuð í senn og í 4. mgr. að foreldri geti ákveðið hvenær greiðslur hefjist en þó áður en barn verði 18 mánaða en að óheimilt sé að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil. Hvorki í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í reglugerðinni er gert ráð fyrir því að hægt sé að skipta upp greiðslu fæðingarstyrkja og/eða þiggja skertan fæðingarstyrk á móti lækkuðu starfshlutfalli. Beinlínis er hins vegar tekið fram að fæðingarstyrkir séu föst krónutala sem greidd sé út fyrir heila mánuði í senn og að ekki sé hægt að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrkja yfir á fleiri en eitt tímabil.

Samkvæmt framangreindu telur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að kjósi kærandi að nýta sér allan rétt sinn til töku fæðingarorlofs skv. 8. gr. ffl. og þiggja greiðslur fæðingarstyrks skv. 10. mgr. 13. gr. ffl. á sama tíma verði hann að taka fæðingarorlofið í einu lagi og þá geti hann ekki tekið það samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um að skipta greiðslu greiðslutímabils fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil og að ekki sé hægt að taka fæðingarstyrkinn samhliða minnkuðu starfshlutfalli.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 1. apríl 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 2. apríl 2008, þar segir meðal annars:

„Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er aðallega vitnað til 10. mgr. 13. gr. ffl. og athugasemda með frumvarpinu, 19. gr. ffl. ásamt 21. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Ég sé hins vegar ekki neitt í þessum greinum eða í rökstuðningi Fæðingarorlofssjóðs sem ætti að koma í veg fyrir að ég fái að taka fæðingarorlofið mitt skv. 10. gr. ffl. eða þá að fæðingarstyrkurinn skerðist við töku þess.

Ég á engan rétt á greiðslum án vinnuframlags frá vinnuveitanda mínum í fæðingaorlofi og mun ekki fá slíkar greiðslur og þar með á ekki að koma til kasta frádráttarákvæðis 10. mgr. 13. gr. ffl. Þó það væri hægt að túlka 19. gr. ffl. að fæðingarstyrkur sé föst ákveðin tala sem verði að greiðast fyrir heilan mánuð þá er ekkert í lögunum sem hindrar það að ég taki 50% fæðingarorlof samhliða 50% vinnu. Þó ég fái 100% fæðingarstyrk í þeim mánuði sem ég fæ greiðslur fyrir 50% vinnuframlag þá dregst ekkert af fæðingarstyrknum þar sem ég fæ engar greiðslur án vinnuframlags í fæðingarorlofi, sbr. 10. mgr. 13. gr. ffl.

Það er ótvírætt að reglugerðin segir að ekki megi skipta greiðslutímabili yfir á fleiri tímabil. Það er hins vegar ekki skýrt hvort að greiðslan verði að vera fyrir fullan mánuð eða hvort lækka megi greiðslurnar samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Eins og ég hef rökstutt áður, þó svo að túlka megi reglugerðina að greiða verði fyrir fullan mánuð samfellt þá kemur það ekki í veg fyrir að ég hagi fæðingarorlofinu eins og ég óska eftir.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil og að fá greiddan fæðingarstyrk samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að kjósi kærandi að nýta sér allan rétt sinn til töku fæðingarorlofs skv. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) og þiggja greiðslur fæðingarstyrks skv. 10. mgr. 13. gr. ffl. á sama tíma verði hann að taka fæðingarorlofið í einu lagi og þá geti hann ekki tekið það samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Kærandi hóf störf á vinnumarkaði þann 19. febrúar 2007. Fæðingardagur barns er 20. febrúar 2007 en áætlaður fæðingardagur þess var í byrjun apríl 2007. Óumdeilt er að kærandi á rétt til fæðingarorlofs á grundvelli 8. gr. ffl. Samkvæmt 1. og 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. ffl. er starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn. Samkvæmt tilkynningu kæranda dagsettri 7. mars 2008 sem árituð er af vinnuveitanda er samkomulag um að kærandi taki 50% fæðingarorlof í apríl og maí og 100% fæðingarorlof frá 18. júní til 18. ágúst.  Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála er kæranda heimil slík tilhögun fæðingarorlofs á grundvelli 2. mgr. 10. gr. ffl.

Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl. sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 á foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. en uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr., sbr. þó 9. mgr. 19. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar styrknum. Við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein skal miða við tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Í 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 ffl. segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Ágreiningslaust er að kærandi á rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

Samkvæmt 11. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins sbr. reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að greiðslu fæðingarstyrks skuli inna af hendi eftir á fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virka dag hvers mánaðar. Óheimilt er að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil sbr. 3. málsl. 4. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar.

Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála er ekki heimilt að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil og fæðingarstyrkinn skal greiða eftir á sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Ekki verður talið að heimilt sé að víkja frá því fyrirkomulagi. Samkvæmt því á kærandi rétt á greiðslu fæðingarstyrks fyrsta virka dag mánaðanna júlí, ágúst og september 2008, enda verði töku fæðingarorlofs hagað í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag um tilhögun orlofsins samkvæmt tilkynningu dagsettri 7. mars 2007.

Með hliðsjón af framanrituðu verður ekki fallist á þá afstöðu Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að forsenda greiðslu þriggja mánaða fæðingarstyrks til kæranda sé að hann taki fæðingarorlof í einu lagi en ekki samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Samkvæmt því er hinni kærðu ákvörðun hrundið.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er hrundið. Kæranda er heimilt að haga töku fæðingarorlofs í samræmi við tilkynningu um fæðingarorlof sem dagsett er 7. mars 2008 og samþykkt af vinnuveitanda. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk fyrsta virka dag mánaðanna júlí, ágúst og september, enda verði töku fæðingarorlofs hagað í samræmi við tilkynninguna.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta