Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 21/2004

Þriðjudaginn, 26. október 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. maí 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 6. maí 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 2. febrúar 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Skv. bréfi (sjá meðf. ljósrit) frá Tryggingastofnun ríkisins hefur umsókn undirritaðs um fæðingarstyrk námsmanna verið synjað á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. Í fyrrgreindu bréfi frá Tryggingastofnun kemur fram að ég uppfylli ekki skilyrðið um a.m.k. sex mánaða samfellt nám. Ég get ekki séð að sá skilningur stofnunarinnar sé réttur þar sem ég lagði stund á nám fyrir fæðingu barnsins míns síðast í B-háskólanum frá því í lok ágúst 2003, þ.e. í þrjá mánuði á undan fæðingu og þar á undan við D-háskólann frá október 2002 til og með júní 2003 og lagði ég fram gögn þessu til stuðnings (sjá meðfylgjandi skjal frá D-háskólanum). Mikilvægt er að benda á að ég stundaði mitt nám reglulega og var með fullnægjandi mætingu, sem þeir krefjast. Í lok haustmisseris skólaársins 2002-2003, tók ég bæði verkleg og skrifleg próf og stóðs þau með prýði (allar einkunnir voru hengdar upp á töflu). Þar hafði ég náð 50% námsárangri ef litið er til þess að allt skólaárið miðar við 100% árangur. Á vormisseri stóðst ég aftur öll bókleg próf en ekki verklegu prófin sem hefði gefið 25% námsárangur og samanlagt náði ég því 75% námsárangri (sjá meðfylgjandi einkunnablað frá D-háskólanum). Þar sem skólinn í E-borginni krefst samanlagt 100% námsárangurs var ég skráður með ófullnægjandi námsárangur og þar af leiðandi fall á árinu. Þar sem kerfið úti er ekki eins og hérna heima þar sem nám á framhaldsstigi er yfirleitt metið í einingum, áföngum og misserum er ég ekki sammála því að Tryggingastofnun hafi rétt á því að synja umsókn minni á grundvelli þeirra raka að ekki hafi verið um a.m.k. 75% námsárangur að ræða. Ég mun reyna til hins ýtrasta að fá þessa staðfestingu á námsárangrinum sem ég lýsi hér að ofan ef þess verður krafist. Það hefur verið lífsins ómögulegt að fá það skjalfest frá D-háskólanum vegna lögbundinna reglna þar í landi um að skólar á þessu stigi megi aðeins gefa úr einkunnir í lok skólaárs. Það er von mín að það mundi reynast árangursríkara að mæta á staðinn og skýra þannig nauðsyn þess að fá það en með símtölum sem ég hef staðið í hingað til en áætlun er um að vera í F-landi í júlí nk. Ennfremur tel ég ekki rétt að mismuna námsmönnum á grundvelli einkunna þegar þeir hafa stundað sitt nám reglulega og geta sýnt fram á það. Ýmsar ástæður, persónulegar sem ópersónulegar, geta verið fyrir því að námsmaður nái ekki tilskildum námsárangri. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þeir eru í flestum tilvikum tekjulausir eða nánast tekjulausir það tímabil sem þeir leggja stund á nám sitt og eiga þeir því erfitt að sjá barni sínu farborða. Hefði ég því haldið að tilgangur með fæðingarstyrk námsmanna væri að hjálpa þeim að halda áfram námi jafnframt því að geta séð fjölskyldu sinni farborða. Ef ég hefði verið í vinnu, stundað hana reglulega og síðan verið rekin, tekið sumarfrí í mánuð og síðan hafið störf að nýju fram að fæðingu dóttur minnar hefði mér ekki verið synjað um fæðingarorlof fyrir einstakling í fullu starfi. Í mínu tilviki kláraði ég próf í júní, fór í sumarfrí í júlí, vann í ágúst og hóf síðan að nýju fullt nám í sömu grein við B-háskólann þetta sama haust. Sú atburðarrás að ég hafi í raun verið „rekinn“ úr skólanum breytir ekki þeirri staðreynd að ég stundaði fullt nám í tæpa tíu mánuði að undanskildu jóla- og sumarfríi á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu dóttur minnar eins og krafist er. Á þessum tíma hélt ég að þessi niðurstaða skipti mig í raun litlu máli, þó leiðinleg væri, sérstaklega þar sem ég hafði þá fengið inngöngu á annað ár við B-háskólann við það sama og ég lærði þarna úti. Auk þess hafði ég stundað mitt nám reglulega líkt og vinnu, enda krafðist skólinn 80%-100% mætingaskyldu í öllum námsgreinum. Hefði ég vitað um afstöðu Tryggingastofnunar á sínum tíma hefði ég fengið utankomandi og hlutlausa aðila til þess að fara yfir útkomu á verklegum prófum, en þær einkunnir byggjast á huglægu mati kennara í þar tilgerðri dómnefnd.

Ég óska að litið verði sérstaklega til ferils míns við B-háskólann ef meta á námsárangur (sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002). Ég hafði stundað nám í B-háskólanum í tæpa þrjá mánuði þegar stúlkan mín fæddist þann 23.11.2003 og stuttu eftir fæðingu barnsins lauk ég öllum þeim námskeiðum sem ég var skráður í og hafði þar með náð 100% námsárangri. Í stuttu máli þá tel ég mig uppfylla öll þau skilyrði sem sett eru fyrir fæðingarstyrk námsmann þ.e. að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barnsins, að geta sýnt fram á a.m.k 75% námsárangur í þeim skóla sem ég síðast stundaði nám fyrir fæðingardag barnsins. Auk þess hafði ég átt lögheimili hér á landi í a.m.k 12 mánuði fyrir fæðingu barnsins.

Að mínu mati er ekki annað að sjá en að Tryggingastofnun ríkisins geti greitt mér út fullan styrk allavega eftir að mál mitt hefur verið skýrt svo ítarlega sem að ofan greinir.“

 

Með bréfi, dags. 11. maí 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 1. júní 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi sótti með umsókn, dags. 4. september 2003, um fæðingarstyrk námsmanna. Umsókn hans var vegna barns, sem fætt er 23. nóvember 2003, en áætlaður fæðingardagur þess var 8. nóvember 2003.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 4. september 2003, vottorð D-háskólans, dags. 6. september 2002, um námsárangur kæranda skólaárið 2001 – 2002, vottorð F-skólans, dags. 4. nóvember 2002, um að kærandi væri skráður annars árs nemi við skólann skólaárið 2002 – 2003, vottorð B-háskólans, dags. 1. september 2003, þar sem fram kom að kærandi væri skráður í fullt nám við skólann á haustönn 2003. Þann 15. janúar 2004 barst frá kæranda vottorð D-háskólans, dags. 30. júní 2003, um námsárangur kæranda skólaárið 2002 – 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kæranda var með bréfi, dags. 2. febrúar 2004, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrði um 6 mánaða samfellt nám, þar sem námsframvinda hans á 12 mánaða tímabili fyrir fæðingu barns væri ekki fullnægjandi.

Samkvæmt gögnum þeim, sem kærandi lagði fram, skilaði hann ekki viðunandi námsárangri á vorönn 2003 og uppfyllir hann þar með ekki framangreind skilyrði um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns hans.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundnar náms á þeirri önn sem barn fæðist, sbr. 2 mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði.

Samkvæmt gögnum málsins má ljóst vera að undanþáguheimildir þessar frá skilyrðinu um að foreldi skuli hafa verið í 75% - 100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, eiga ekki við um aðstæður kæranda.

Í lögum og reglugerðum sem varða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er ekki að finna heimild til frávika frá því að námið sé a.m.k. 75% í hverjum mánuði á sex mánaða tímabilinu. Hefur því ekki verið talið heimilt að reikna út meðaltal tveggja anna þegar nám á annarri þeirra hefur verið minna en 75%.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl. Athygli er vakin á að í bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 2. febrúar 2004, kemur fram að lífeyristryggingasvið telur kæranda eiga rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. ffl. stundi hann ekki launuð störf meðan styrkurinn er greiddur.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. júní 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Barn kæranda er fætt 23. nóvember 2003. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 23. nóvember 2002 til fæðingardags barns.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Við mat á því hvort kærandi hafi verið í fullu námi og eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður verður því auk skráningar hans í nám að líta til námsframvindu og námsárangurs hans á viðmiðunartímabilinu.

Kærandi var skráður sem stúdent við D-háskólann frá október 2002 til og með júní 2003. Það er mat nefndarinnar að samkvæmt lögum nr. 95/2000 sé ekki heimilt að reikna út meðaltal tveggja anna og fá með því út fullt nám yfir veturinn. Þar sem námsárangur kæranda á vorönn 2003 var ófullnægjandi þá uppfyllir hann ekki skilyrði framangreindra laga um 75-100% nám á vorönn 2003. Um haustið 2003 er hann skráður í B-háskólann og lauk 12 eininga námi.

Með hliðsjón af því sem fram kemur um námsframvindu og námsárangur í gögnum málsins og rakið hefur verið verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Ósk Ingvarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta