Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 22/2004

Þriðjudaginn, 12. október 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 25. maí 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. maí 2004 um að synja kæranda um greiðslu hærri fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Snemma á meðgöngunni fór ég í Tryggingastofnunina í sveitarfélaginu B þar sem ég bý til að kynna mér fæðingarstyrkinn og fá umsókn. Ég sagði þeim að áætlaður fæðingardagur barnsins væri 1. mars og að ég hefði verið heimavinnandi síðan í ágúst 2003 m.a. vegna ónýts disks í mjóbaki sem er ættgengt hjá mér og veldur brjósklosi, en útivinnandi öll árin áður sem leikskólakennari fyrir utan hin tvö fæðingarorlofin. Varð mér þá tjáð að ég myndi fá ca. D krónur í fæðingarstyrk á mánuði og hugsaði ég ekki meira um það.

Málið er sem sagt það að ég fer fram á það að þessar greiðslur verði endurskoðaðar og hækkaðar upp í þessar ca D krónur á mánuði. M.a. vegna baksögu minnar sem ætti að vera til hjá ykkur þar sem að ég geng til sjúkraþjálfara eftir þörfum.“

 

Með bréfi, dags. 5. júlí 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 20. ágúst 2004. Í greinargerðinni segir:

„ Kærð er ákvörðun um fjárhæð fæðingarstyrks.

Með umsókn, dags. 26. apríl 2004, sem móttekin var 29. apríl 2004, sótti kærandi um fæðingarstyrk í sex mánuði frá 1. mars 2004. Í umsókninni sem varðar barn kæranda, sem fætt er 13. mars 2004, kemur fram að umsækjandi hafi verið utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Í 1. mgr. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), er kveðið á um að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns. Auk þessa eigi foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1003/2003, skal fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar og í minna en 25% starfi vera E kr. á mánuði.

Þann 6. maí 2004 var umsókn kæranda um fæðingarstyrk afgreidd á þann veg að hún skyldi fá greiddan fæðingarstyrk í sex mánuði, mars til ágúst 2004, að fjárhæð kr. E fyrir hvern mánuð.

Kærandi hefur engin gögn lagt fram sem renna stoðum undir að hún eigi rétt á hærri fæðingarstyrk en þeim sem greiddur er foreldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Varðandi fullyrðingar kæranda í kæru, um að henni hafi verið veittar þær upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins að hún ætti rétt á fæðingarstyrk sem næmi um kr. D á mánuði, skal tekið fram að vissulega er það miður ef veittar hafa verið rangar upplýsingar en ekki verður séð að veittar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi kæranda til fæðingarstyrks þar sem réttindin og skilyrði þeirra eru bundin í lögum og lagatúlkun, auk þess sem ekki er hægt að staðreyna hvaða upplýsingar voru veittar kæranda og hún hefur ekkert lagt fram til sönnunar þessum fullyrðingum sínum.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að ákveða kæranda fæðingarstyrk að fjárhæð kr. E á mánuði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. ágúst 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda vegna töku fæðingarorlofs. Kærandi krefst þess að greiðslur til hennar verði endurskoðaðar og þær hækkaðar í D kr. á mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) á foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig, auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingastyrk í þrjá mánuði til viðbótar. Í 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. reglugerð nr. 1003/2003, er kveðið á um fjárhæð fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Ágreiningslaust er að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 95/2000 um rétt foreldris til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru kemur fram að kærandi telur sig hafa fengið rangar upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins um upphæð fæðingarstyrks.

Fjárhæð fæðingarstyrks til foreldris utan vinnumarkaðar er eins og áður segir ákveðin í 1. mgr. 18. gr. ffl. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. reglugerð nr. 1003/2003. Ekki er í lögunum eða reglugerðinni heimild til greiðslu hærri fjárhæðar. Krafa um greiðslu hærri fæðingarstyrks verður því eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Kærandi fékk greiddan fæðingarstyrk E kr. á mánuði sem var í samræmi við gildandi fjárhæð fæðingarstyrks. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hinsvegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar samkvæmt framangreindu.

Með vísan til þess sem að framan greinir er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð fæðingarstyrks staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð greiðslu fæðingarstyrks til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta