Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 12/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 24. september 2015 var tekið fyrir mál nr. 12/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 6. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 2. júlí 2015, að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði með umsókn, dags. 30. apríl 2013, vegna barns hans sem fæddist þann Y. júlí 2013. Með umsókn kæranda barst tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs þar sem fram kemur að hann hyggist taka fæðingarorlof frá 15. júlí til 16. ágúst 2013, 15 daga í desember 2013 og frá janúar til júní 2014. Þann 11. nóvember 2013 barst tilkynning frá kæranda þar sem fram kemur að hann óski eftir að fresta orlofinu og tilkynna tilhögun fæðingarorlofs síðar. Þann 10. júlí 2014 barst á ný tilkynning frá kæranda þar sem fram kemur að hann óski eftir að taka fæðingarorlof frá 18. ágúst til 29. ágúst 2014. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. júlí 2014, var kæranda tilkynnt að ekki mætti taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn. Þann 18. júlí 2014 barst á ný tilkynning frá kæranda þar sem fram kemur að hann óski eftir að taka fæðingarorlof frá 17. ágúst til 30. ágúst 2014.

Þann 1. júlí 2015 barst loks tilkynning frá kæranda þar sem fram kemur að hann óski eftir að taka fæðingarorlof frá 17. ágúst til 6. september 2015. Kæranda var þá með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. júlí 2015, synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að réttur hans til töku fæðingarorlofs myndi falla sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans þann Y. júlí 2015.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 6. júlí 2015. Með bréfi, dags. 13. júlí 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 27. júlí 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. ágúst 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki haft vitneskju um að réttindi hans til töku fæðingarorlofs myndu fyrnast við tveggja ára aldur barns hans. Hann eigi enn eftir að nýta 51 dag af fæðingarorlofi sínu og óskar eftir að taka það á tímabilinu 4. ágúst til 21. september 2015.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi óskað eftir að taka fæðingarorlof á tímabilinu 17. ágúst til 6. september 2015 en hafi verið synjað þar sem réttur hans til töku fæðingarorlofs myndi falla sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans þann Y. júlí 2015. Kæranda hafi verið leiðbeint um hvað hann þyrfti að gera til að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs betur.        

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 143/2012 sem hafi verið í gildi við fæðingu barns kæranda, sé kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barn nái 24 mánaða aldri. Barn kæranda hafi fæðst Y. júlí 2013 og því hafi réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði fallið sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans eða þann Y. júlí 2015. Í kæru til úrskurðarnefndar hafi kærandi óskað eftir að taka fæðingarorlof á tímabilinu 4. ágúst til 21. september 2015 en það tímabili falli í heild utan þess tíma sem hann hafi rétt á að taka, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl.

Í ffl. sé ekki að finna neina undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. um að heimilt sé að greiða fæðingarorlof vegna fæðingar barns eftir að barn nái 24 mánaða aldri nema í þeim tilvikum þegar barn hafi verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 4. mgr. 8. gr. ffl. Ekki verði séð að sú undanþága eigi við í tilviki kæranda. Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda hafi réttilega verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. júlí 2015, að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 17. ágúst til 6. september 2015 með vísan til þess að réttur hans til töku fæðingarorlofs hefði fallið sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans þann Y. [júlí] 2015.

Í 2. mgr. 8. gr. ffl. kemur fram að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns og falli niður er barn nái 24 mánaða aldri. Ákvæði þessu var breytt með lögum nr. 143/2012, um breytingu á lögum nr. 95/2000, sem tóku gildi 1. janúar 2013 en fyrir breytinguna féll réttur til fæðingarorlofs niður við 36 mánaða aldur barns.

Barn kæranda náði 24 mánaða aldri þann Y. júlí 2015 og féll réttur kæranda því niður þann dag en ekki er að finna undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. nema þegar um er að ræða barn sem hefur verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 5. mgr. 8. gr. ffl.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. júlí 2015, um að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta