Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 13/2011

Fimmtudaginn 8. september 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. júní 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A dags. 3. júní 2011. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 7. mars 2011, um að synja kæranda um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna, nr. 22/2006, vegna barnsins B.

Með bréfi, dags. 14. júní 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins sem barst með bréfi, dags. 7. júlí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. júlí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 2011.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Í kæru sinni greinir kærandi frá því að hann hafi sótt um fjárhagslega aðstoð við framfærslu barns síns. Jafnframt greinir kærandi frá því að hann sé X og starfi hjá C. Hann hafi fyrst sótt um fjárhagsaðstoð vegna framfærslu sonar síns sumarið 2010. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. júní 2010, hafi honum verið synjað um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði. Rökin fyrir synjuninni hafi verið að barnið hefði greinst fyrir 1. október 2007 með sjúkdóm eða fötlun. Vísað hafi verið til 20. gr. laga nr. 158/2008, sem hefðu breytt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og að samkvæmt þeirri grein væri það skilyrði að barn greindist eftir 1. október 2007. Í bréfinu hafi komið fram að samþykkt væri að kærandi fengi almenna fjárhagsaðstoð skv. 19. gr. laga nr. 22/2006. Greiðslutímabilið hafi verið frá 1. ágúst 2010 til 28. febrúar 2011.

Kærandi kveðst hafa í febrúar 2011 sótt aftur um fjárhagsaðstoð og aftur um greiðslur til foreldra á vinnumarkaði. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. febrúar 2011, hafi honum verið synjað en þá með vísan til 29. gr. laga nr. 22/2006, þar sem „foreldrar sem eiga rétt á framlengingu á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda eða fötlunar barns öðlist jafnframt ekki rétt til launatengdra greiðslna.“ Samþykkt hafi verið að kærandi fengi almenna fjárhagsaðstoð og hafi greiðslutímabil verið ákveðið frá 1. mars til 31. júlí 2011.

Kærandi greinir frá því að honum hafi ekki verið kunnugt um að hann eða móðir barnsins ættu rétt á framlengingu á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks. Því hafi hann spurt um það hjá Tryggingastofnun hvernig á synjun á þessum forsendum stæði. Þá hafi komið í ljós að honum hafði verið sent rangt synjunarbréf. Kæranda hafi í framhaldinu borist nýtt synjunarbréf, dags. 7. mars 2011. Í því bréfi hafi synjunarástæðan verið sú sama og árið 2010, þ.e. að vegna þess að barnið hefði fengið greiningu fyrir 1. október 2007 ætti kærandi ekki rétt á greiðslum til foreldra á vinnumarkaði. Kærandi kveðst vera ósáttur við niðurstöðuna enda hafi barnið ekki enn fengið formlega greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Kærandi gerir einnig athugasemdir við afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun, þ.e. að hann hafi fengið tvenns konar synjunarbréf, sem vísa til ólíkra raka fyrir synjun.

Kærandi kærir þá ákvörðun Tryggingastofnunar að synja honum um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði. Í synjunarbréfi, dags. 7. mars 2011, segi orðrétt: „Umsókn þinni um greiðslur til foreldra á vinnumarkaði er synjað þar sem barn þitt greindist fyrir 1. október 2007 með sjúkdóm eða fötlun, en skv. 20. gr. laga nr. 158/2007 sem breytti lögum nr. 22/2006 er það skilyrði að barn hafi greinst eftir 1. október 2007 til að foreldri eigi rétt á vinnumarkaðstengdum greiðslum.“ Kærandi greinir frá því að samkvæmt bréfi frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, dags. 15. mars 2011, hafi barnið komið ásamt fjölskyldu á Greiningarstöðina 29. október til 1. nóvember 2007. Samkvæmt bréfinu, sem undirritað sé af D félagsráðgjafa, hafi fyrsta greining barnsins farið þá fram, þ.e. um mánaðamótin október/nóvember 2007. Einnig komi fram að orsök lágrar grunnvöðvaspennu, hreyfiþroskaröskunar og þroskaseinkunar sé ekki fundin. Endanleg greining liggi því ekki fyrir.

Kærandi telur að synjun á greiðslum til hans sem foreldris á vinnumarkaði sé byggð á röngum forsendum, enda ljóst af tilvitnuðu bréfi Greiningarstöðvarinnar að barnið hafi komið til fyrstu greiningar eftir 1. október 2007. Kærandi fer því fram á að synjunin verði afturkölluð og honum greiddar „greiðslur til foreldra á vinnumarkaði“ eins og hann hafi í tvígang sótt um. Til viðbótar því að greining hafi ekki hafist fyrr en eftir 1. október 2007, sé einnig á því byggt að greining liggi í raun ekki fyrir og því sé ekki rétt að greining hafi verið gerð fyrir 1. október 2007. Samkvæmt tilgreindum staðreyndum eigi það ekki við sem tilgreint sé í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. mars 2011, að greining hafi farið fram fyrir 1. október 2007 og því sé kærandi ranglega útilokaður frá greiðslum til foreldra á vinnumarkaði.

Kærandi vísar jafnframt til jafnréttis- og sanngirnissjónarmiða. Það geti munað mjög miklu fyrir fjölskyldu, þar sem annað foreldri þarf að leggja niður launaða vinnu til þess að sinna veiku/fötluðu barni, hvort viðkomandi fái greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði eða aðeins almenna fjárhagstoð, en hún sé mun lægri en vinnutengdar greiðslur. Það sé ekki að sjá nein rök fyrir því að útiloka foreldra sem eiga barn sem hafi greinst fyrir 1. október 2007 frá því að geta fengið atvinnutengdar greiðslur, en þessi tímamörk geri upp á milli fólks með ósanngjörnum hætti. Möguleikar foreldra til að sjá fjölskyldu sinni farborða séu með þessari tilhögun skertir töluvert, þar sem um sé að ræða foreldri/foreldra sem sannanlega séu á vinnumarkaði, eins og kæranda, en verða vegna veikinda/fötlunar barns að láta af störfum til þess að sinna umönnun þess. Kærandi vísar til jafnréttis- og sanngirnissjónarmiða, bæði sem stuðning við framangreint og einnig sem sérstakra raka fyrir því að afturkalla synjun Tryggingastofnunar.

 

II.

Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins.

Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að málavextir séu þeir að kærandi hafi fengið foreldragreiðslur í formi almennrar fjárhagsaðstoðar en kæri nú synjun Tryggingastofnunar á vinnumarkaðstengdum greiðslum skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barnanna. Í kæru foreldris sé vísað í bréf D félagsráðgjafa á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þar sem fram kemur að barnið hafi komið til athugunar á Greiningar- og ráðgjafarstöðin 29. október til 1. nóvember 2007. Sé það sjónarmið kæranda að þar hafi komið í ljós alvarleg fötlun barnsins. Í bréfinu kemur hins vegar einnig fram að barninu hafi verið vísað á Greiningarstöðina í ágúst 2006 og inngrip og þjónusta hafi hafist árið 2006 en áður höfðu farið fram rannsóknir á erfiðleikum barnsins.

Tryggingastofnun bendir á að í málinu liggi fyrir umsókn kæranda um foreldragreiðslur sem foreldri á vinnumarkaði, dags. 3. febrúar 2011, læknisvottorð E, dags. 31. maí 2010, ásamt bréfi frá ráðgjafa í málefnum fatlaðra hjá Fjölskyldudeild F-sveitarfélagsins, dags. 14. febrúar 2011. Þá liggi einnig fyrir eldri læknisvottorð og eldri umsókn um foreldragreiðslur ásamt gögnum vegna umönnunarmats fyrir barnið.

Tryggingastofnun bendir á að í læknisvottorði E komi fram að barnið sé með langvarandi og alvarlega fötlun og það þurfi fulla aðstoð við athafnir daglegs lífs. Segi þar að það hafi mikla þroskaseinkun, geti hvorki gengið né setið óstutt, geti ekki talað en sýni vissan skilning á umhverfi sínu. Barnið nærist um magastóma. Enn fremur sé til staðar vélindabakflæði, mjólkurofnæmi/óþol, astmi, eyrnasýkingar, öndunarfærasýkingar, uppköst og hægðatregða. Í bréfi frá ráðgjafa í málefnum fatlaðra hjá Fjölskyldudeild F-sveitarfélagsins segi að barnið sé alvarlega fatlað frá fæðingu og glími við erfið veikindi.

Tryggingastofnun greinir frá því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi snemma komið fram áhyggjur af þroskaframvindu barnsins. Í læknisvottorðum G, dags. 15. ágúst 2006 og 24. janúar 2007, sé gerð grein fyrir alvarlegum erfiðleikum barnsins og þroskafrávikum. Á þessum tíma hafi barninu verið vísað á Greiningar- og ráðgjafarstöðina. Tryggingastofnun greinir frá því að í bréfi D liggi fyrir að inngrip hafi hafist í byrjun árs 2007, meðal annars með ráðgjöf og þjálfun. Eins sé vísað til bréfs H, þroskaþjálfa og verkefnastjóra, sem hafði umsjón með gerð tillögu um umönnunargreiðslur. Í bréfi hennar, dags. 12. febrúar 2007 komi fram að veruleg þroskafrávik séu til staðar, mikil umönnunarþörf og þörf fyrir sérhæfð hjálpartæki. Í framhaldi af tillögu hennar hafi verið ákvarðaðar hæstu greiðslur í 3. flokk umönnunargreiðslna frá febrúar 2007.

Samkvæmt framangreindu hafi fyrstu greiningar farið fram árið 2006 og þá hafi komið í ljós alvarleg þróun á erfiðleikum barnsins. Í byrjun árs hafi þróun mála skýrst enn frekar. Þannig hafi verið skýrt með þróun mála og fyrirliggjandi greiningum sérfræðinga á stöðu mála hverju sinni þótt ekki hafi komið fram einhlít skýring á orsökum erfiðleikanna.

Tryggingastofnun vísar til þess að í 20. gr. laga nr. 158/2007, sem breyttu lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, segi að lögin öðlist gildi 1. janúar 2008 en greiðslur komi til framkvæmda 1. mars 2008. Þá segi að ákvæði III. kafla laga nr. 22/2006 eigi við um foreldra barna sem greinist með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar.

Í III. kafla laga nr. 22/2006 sé fjallað um rétt foreldra til greiðslna sem foreldri á vinnumarkaði. Í 8. gr. segi að foreldri sem leggur niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp koma þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun geti átt sameiginlegan rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 1. mgr. 11. gr. í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila.

Samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir í máli barnsins hafi það átt við alvarlega erfiðleika að stríða frá sínu fyrsta ári. Síðla árs 2006 og í byrjun árs 2007 hafi verið gerðar athuganir sem leiddu frekar í ljós erfiðleika og veikindi þess. Rétt sé að greining hafi farið fram í október og nóvember 2007 á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, sem sýndi lága grunnvöðvaspennu, hreyfiþroskaröskun og þroskaseinkun, en skýrt sé að erfiðleikar barnsins hafi komið í ljós talsvert fyrr og áður hafi verið sett inn ýmis þjónusta. Þannig sé álitið að alvarlegir erfiðleikar barnsins hafi komið fram á seinni hluta ársins 2006 og byrjun árs 2007. Með vísan til alls framangreinds telji Tryggingastofnun því að sér sé ekki heimilt að samþykkja foreldragreiðslur til kæranda sem foreldri á vinnumarkaði. Tryggingastofnun sé einungis heimilt að samþykkja foreldragreiðslur í formi almennrar fjárhagsaðstoðar.

 

III.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að í greinargerð sé vísað til þess að alvarlegir erfiðleikar barnsins hafi verið til staðar frá fyrsta ári þess. Þá segir að greiningar hafi farið fram í október og nóvember 2007. Forsendur stofnunarinnar séu þær að erfiðleikar barnsins hafi komið fyrr fram en segi í lögum nr. 22/2006 og stofnunin miði við að greiningar eftir 1. október 2007 skuli vera forsenda greiðslna til foreldra sem heimilaðar séu í III. kafla laganna. Sé útgangspunktur greinargerðarinnar sá að erfiðleikarnir hafi fyrr komið fram en tiltekið sé í lögum nr. 22/2006. Á þeim grundvelli sé kæranda hafnað.

Kærandi mótmælir þessum forsendum Tryggingastofnunar. Eiginlegt greiningarferli hafi ekki hafist fyrr en í október 2007 og afstaða kæranda sé sú að því sé fjarri lokið. Eigi þessi afstaða kæranda sér stoð í yfirliti Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins frá 15. mars 2011.

Kærandi vísar til þess að þrátt fyrir ákvæði laga nr. 22/2006 um lagaskil og þau ákvæði sem setji tímamörk um greiningar líkt og þau lög, sé það í hróplegu ósamræmi við grunnréttindi sem kveða á um að jafnræðis skuli gætt þegar stjórnvald tekur ákvarðanir sem bæði séu íþyngjandi og ívilnandi, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

IV.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun um synjun á greiðslum sem foreldri á vinnumarkaði, samkvæmt lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, vegna barns kæranda sem fætt er Y. október 2005.

Lög nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fólu í sér endurskoðun á því greiðslukerfi sem komið var á með lögum nr. 22/2006. Komu breytingalögin til framkvæmda þann 1. janúar 2008, en í 20. gr. laganna er kveðið á um gildistöku þeirra. Þar segir:

 „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008 en greiðslur koma til framkvæmda 1. mars 2008. Ákvæði III. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. 5.–15. gr. laga þessara, eiga við um foreldra barna sem greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. október 2007 eða síðar, sbr. þó d-lið 18. gr. laga þessara, enda hafi barn greinst aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnað vegna sjúkdóms eða fötlunar eftir 1. október 2007.

Foreldrar barna sem hafa greinst fyrir 1. október 2007 og hefðu átt rétt á greiðslum skv. 1. mgr. 8. gr. eða 1. mgr. 12. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, að óbreyttum lögum í allt að þrjá mánuði eftir 1. janúar 2008 og uppfylla ekki skilyrði 17. gr. laga þessara skulu eiga rétt á grunngreiðslum að fjárhæð 130.000 kr. þann tíma sem þeir eiga rétt á greiðslum samkvæmt mati framkvæmdaraðila.

Foreldrar barna sem hafa greinst fyrir 1. október 2007 og uppfylla skilyrði 17. gr. laga þessara geta átt rétt á almennri fjárhagsaðstoð frá 1. janúar 2008 samkvæmt mati framkvæmdaraðila.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að framangreint ákvæði brjóti gegn jafnréttis- og sanngirnissjónarmiðum. Ákvæði breytingarlaganna er afdráttarlaust þess efnis að skil eru gerð á greiðslum til foreldra eftir því hvort börn þeirra greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun fyrir 1. október 2007 eða síðar, en felur ekki í sér mat fyrir stjórnvöld. Þá er enga undanþágu að finna, hvorki í lögum nr. 22/2006, með síðari breytingum, né í reglugerð nr. 1277/2007, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sem heimilar að víkja frá umræddu ákvæði. Verður ákvæðið talið fela í sér sérreglu um aðstöðumun sem gengur framar hinni almennu jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 5. gr. laga nr. 158/2007, kemur meðal annars fram að foreldri geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 1. mgr. hafi foreldri verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu, foreldri leggi niður störf til að annast barnið meðan greiðslur standa yfir og barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið.

Óumdeilt er að kærandi lagði niður störf til að annast barnið en ágreiningur málsins lýtur að tímamörkum á greiningu þess með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Af hálfu kæranda er á því byggt að fyrsta greining barnsins hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafi farið fram um mánaðamótin október/nóvember 2007 og jafnframt að endanleg greining liggi ekki fyrir. Því hafi greining farið fram eftir umrætt tímamark laganna.

Í fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 5. gr. laga nr. 158/2007, er við það miðað að barn hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veiti barninu þjónustu. Er sama skilyrði að finna í 2. mgr. 14. gr. um skilyrði fyrir réttindum foreldra í námi og í 2. mgr. 19. gr. um skilyrði fyrir réttindum foreldra til grunngreiðslna en í því síðastefnda segir meðal annars að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum skv. 1. mgr. hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. laganna. Í öllum tilvikum er vísað til þess að barnið hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Er þannig að mati nefndarinnar ekki gerð krafa um að greining frá þriðja stigs greiningar- eða meðferðarstofnun, svo sem Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, liggi fyrir.

Í læknisvottorði G, barnalæknis á I-sjúkrahúsinu, dags. 15. ágúst 2006, vegna umsóknar um aðstoð vegna fatlaðra og langveikra barna, kemur fram að sjúkdómsgreining barnsins sé blandnar sértækar þroskaraskanir. Í vottorðinu segir að við níu mánaða aldur sé greinileg seinkun í hreyfiþroska, sem þá hafi numið um þremur til sex mánuðum, auk þess sem grunur leiki á um að seinkun á málsviði sé í uppsiglingu. Umfangsmiklar rannsóknir gefi vísbendingu um galla í efnaskiptum lífrænna sýra og verið sé að leita frekari upplýsinga um það hjá Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.

Í öðru læknisvottorði G, dags. 24. janúar 2007, vegna umsóknar um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, kemur fram að sjúkdómsgreining barnsins sé sértæk þroskaröskun á hreyfisamhæfingu og aðrar tal- og málþroskaraskanir. Í vottorðinu er vísað í fyrra vottorð og greint frá því að merki alvarlegrar þroskahömlunar séu komin betur í ljós en áður. Þá kemur meðal annars fram að barnið hafi verið í reglulegu eftirliti og sýnt hægar og mjög litlar framfarir frá því síðast. Barnið haldi höfði að mestu leyti en ef eitthvað komi upp á, ef barnið verði þreytt, syfjað eða veikt, þá missi það höfuðið niður á bringu. Barnið sitji ekki óstutt en geti hins vegar staðið í lappirnar stutta stund í einu en sé þá sigið í ökklum og ristarbeinum. Barnið sé með ómeðvitaðar handahreyfingar og meira beri á skæragripi en „pinchettu“-gripi. Barnið sé greinilega með „cortical thumb“ beggja megin. Engin orð séu skiljanleg hjá barninu. Barnið haldi lengdar og þyngdarkúrfum. Við skoðun sé ekki hægt að finna aukinn vöðvatonus hvorki í fótleggjum né handleggjum en núna sé hægt að fá fram greinilega jákvæð „Babinski“-viðbrögð beggja megin. Frekar dauf djúpsinaviðbrögð. Þegar barnið standi í fæturna á föstu undirlagi sé það greinilega með mjög lága ristarboga og „valgus“-stöðu á ökklum. Hér sé greinilega um verulega þroskaseinkun að ræða. Barnið hafi í byrjun síðastliðins árs farið í segulómun á höfði. Þá hafi ekkert óeðlilegt sést en við endurskoðun annarra röntgenlækna á þeim myndum þá sé líklegt að heldur rýmra sé um heila barnsins en vera megi á þeim aldri. Sérstaklega séu heilahólfin víð fyrir aldur barnsins. Þá sýnist allt benda til að um alvarlega heilalömun sé að ræða en ekki sé hægt með fullri vissu að segja til um það.

Þá segir í bréfi H, verkefnastjóra Fjölskyldudeildar F-sveitarfélagsins, dags. 12. febrúar 2007, um endurnýjun á umönnunarmati fyrir barnið, að barnið hafi fengið umönnunarmat eftir að töku fæðingarorlofs lauk, 4. flokk, þó hún hafi óskað eftir hærra mati vegna verulegs seinþroska. Umönnunarþörf umfram önnur börn á sama aldri sé veruleg. Mælt er með mati skv. 3. flokki og 70% greiðslum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð frá 1. mars 2007 til 31. október 2009.

Að mati nefndarinnar verður G, barnalæknir á I-sjúkrahúsinu, að teljast sérfræðingur þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitti barninu þjónustu í skilningi laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Af ofangreindum læknisvottorðum og öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins má ráða að alvarlegar þroskaraskanir barnsins hafi komið í ljós fyrir tímamörk 20. gr. breytingarlaga nr. 158/2007, þ.e. fyrir 1. október 2007. Af gögnum málsins má einnig ráða að veikindi barnsins hafi fyrir það tímamark fallið undir skilgreiningu á því hvaða barn teljist alvarlega fatlað, þ.e. barn sem, vegna alvarlegrar þroskaröskunar, geðröskunar eða líkamlegrar hömlunar, þarf sérstaka íhlutun, svo sem þjálfun, aðstoð eða gæslu á uppvaxtarárum sínum, sbr. c-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 22/2006, sbr. og b-lið 2. gr. þágildandi reglugerðar nr. 543/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Af þessum ástæðum er óhjákvæmilegt að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins þess efnis að synja kæranda um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta