Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 16/2004

Mál nr. 16/2004

Þriðjudaginn, 1. febrúar 2005

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. mars 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 22. mars 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar dagsettu 13. ágúst 2004.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ástæða þessarar kæru er mjög einföld. Ég er sjómaður í dag og mér hefur verið neitað um að fá greitt fæðingarorlof nema að taka mér fyrst heilan túr í frí og þar á eftir má ég taka mér fæðingarorlof.

Á þeim tíma sem að konan mín var ófrísk var ég hvergi fastráðinn á neinum togara heldur var ég að vinna í vélsmiðjunni hjá B hf. Ég var aðeins í lausaróðrum á frystitogaranum D. Ég fékk ekki fastráðningu þar fyrr en í janúar 2003. Dóttir mín fæddist 19. desember 2002. Þannig að ekki er hægt að reikna launin mín aftur um 12 mánuði á þann hátt að ég sé sjómaður að atvinnu á þeim tíma.

Á frystitogurunum er sú þumalputtaregla að menn róa þrjá túra í einu og taka sér svo einn mánuð í frí. Þetta hafði ég ætlað mér að gera, enda á ég stóra fjölskyldu sem þarf að klæða og fæða. Ég á s.s. fjögur börn frá fyrra hjónabandi, en þrjú af þeim búa hjá móður sinni, en næstyngsti sonur minn býr hjá mér ásamt konu minni og sameiginlegri dóttur okkar. Mér er mjög annt um börnin mín og mér er það mikið í mun að börnin mín hafi það sem best, sem þýðir þar af leiðandi að ég þarf að róa meira til að skaffa meira.

Þegar dóttir mín fæddist var ég búinn að ákveða vissa mánuði þar sem ég ætlaði mér að vera heima og sinna henni. En í kjölfar fastráðningarinnar á D raskaðist sá tími verulega og ég þurfti að gera breytingar á fæðingarorlofstíma mínum þess vegna. Ég ákvað því að minnka vinnu mína verulega og róa einn til tvo túra í stað þriggja, sem gefur augaleið að tekjuskerðing mín var þá orðin veruleg.

En í ágúst 2003 fæ ég þau svör að ég fái ekki meira greitt úr fæðingarorlofssjóði nema að ég taki mér fyrst einn frítúr og svo geti ég tekið fæðingarorlof. S.s. hefði ég fyrst þurft að taka mér einn launalausan mánuð í frí og svo að taka mér annan mánuð á fæðingarorlofi. Þetta þýddi fyrir mig að ég hefði þurft að lifa á E kr. í tvo mánuði. Þetta eru algjörlega óraunhæfar kröfur og vil ég meina að þetta séu skýr mannréttindabrot. Ef ég hefði ekki eignast dóttur mína þá hefði ég verið að róa þrjá túra í einu ekki einn til tvo. Þið hafið það svart á hvítu að ég skar vinnu mína verulega niður til þess að geta verið heima og sinnt dóttur minni.

Langar mig í tilefni þessa að spyrja Tryggingastofnun að því hvort að þetta séu svörin sem feður fá sem að vinna t.d. eingöngu fimm daga vikunnar og eru í fríi um helgar. „Nei, því miður, en þú verður fyrst að taka öll helgarfríin út áður en þú getur fengið greitt úr fæðingarorlofssjóði.

Tel ég ekki neina þörf á að senda nein gögn um þessi mál þar sem að þið hafið öll gögn undir höndum sem þarf til þess að sjá hvers konar mannréttindabrot eru að eiga sér stað hér. Ég á minn rétt sem maður í þessu þjóðfélagi og ég læt ekki ómerkileg vinnubrögð eins og þau sem sýnd hafa verið í verki undanfarið stöðva mig í að nýta þann rétt til hins ýtrasta.

Vil ég einnig benda á það að hvergi er minnst á sjómenn sérstaklega (né aðrar starfsstéttir þar að auki) í reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Og stend ég fast á þeirri skoðun minni að það sé ekki í valdi Tryggingastofnunar að ráðskast með það hvenær menn ætla að taka fæðingarorlofsfrí, nema að sannað sé að þeir minnki ekki vinnuhlutfallið á meðan á orlofi stendur.

Vil ég einnig að það komi fram að ég er ekki lengur á frystitogara og er búinn að vera að leysa af á loðnuskipi síðan í byrjun janúar.

Fer ég nú fram á að Tryggingastofnun borgi mér það sem ég á eftir inni í fæðingarorlofssjóði ellegar neyðist ég til að fara með þetta mál fyrir dóm.“

 

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 27. september 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er skerðing sem kærandi telur sig verða fyrir vegna aukafrídaga sem farið er fram á að hann taki, sbr. bréf lífeyristryggingasviðs, dags. 13. ágúst 2003.

Með umsókn, dags. 6. nóvember 2002, sem móttekin var sama dag, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 5 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 15. desember 2002.

Meðfylgjandi umsókn kæranda var vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 10. október 2002 og tilkynning um fæðingarorlof kæranda, dags. 4. nóvember 2002, árituð af vinnuveitanda hans, B, með fyrirvara um breytingar. Samkvæmt tilkynningu þessari um fæðingarorlof kæranda ætlaði hann að vera í fæðingarorlofi tímabilin febrúar, apríl, júlí, október og desember 2003

Þann 2. janúar 2003 var kæranda tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verði samþykkt frá 19. desember 2002 og næmi mánaðarleg greiðsla 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda. Fram kom að greiðslur til hans yrðu fyrir febrúar, apríl, júlí, október og desember 2003.

Þann 4. mars 2003 var móttekin ný tilkynning um fæðingarorlof kæranda, dags. 27. febrúar 2003, sem hafði að geyma breytingar á fyrri tilkynningu um fæðingarorlof kæranda. Samkvæmt tilkynningu þessari ætlaði kærandi að vera í fæðingarorlofi 15. mars til 15. apríl, 15. maí til 15. júní, ágúst, október og desember 2003. Tilkynning þessi var eins og sú fyrri árituð af vinnuveitanda kæranda, B, með fyrirvara um breytingar.

Með bréfi til kæranda, dags. 4. mars 2003, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið endurskoðuð og greiðslum til hans breytt þannig að þær yrðu fyrir hálfan mars, hálfan apríl, hálfan maí, hálfan júní, ágúst, október og desember 2003.

Þann 5. mars 2003 endurgreiddi kærandi greiðslu sem hann hafði fengið úr Fæðingarorlofssjóði vegna áður fyrirhugaðs fæðingarorlofs í febrúar.

Sama dag ritaði lífeyristryggingasvið bréf til vinnuveitanda kæranda og óskaði eftir upplýsingum um hvort til væri föst regla á því hvernig starfsmenn fyrirtækisins reru eða hvort um skiptamannakerfi væri að ræða. Í bréfinu var jafnframt annars vegar óskað eftir því að ef um fasta reglu á róðrum væri að ræða yrðu veittar upplýsingar um hvernig áætlun hefði verið fyrir kæranda á þeim tímabilum sem hann hugðist taka fæðingarorlof ef hann færi ekki í fæðingarorlof þá og hins vegar ef um skiptamannakerfi væri að ræða var óskað eftir staðfestingu útgerðarinnar á því að kærandi yrði ekki í fæðingarorlofi í frítúrum sínum nema í sanngjörnu hlutfalli með launaðri vinnu.

Í símbréfi vinnuveitanda kæranda, frá 12. mars 2003, segir að kærandi sé ekki í skiptamannakerfi en meginreglan sé sú að skipverjar fari í þrjá túra og taki einn frí. Hefði kærandi ekki verið í fæðingarorlofi hefði hann því róið þrjá túra og tekið einn í frí. Enn fremur segir að kærandi sé orðinn fastráðinn á frystitogara útgerðarinnar en svo hafi ekki verið. Hann hafi á árinu 2000 farið í fimm túra á vegum útgerðarinnar, 2 túra árið 2001 og 3 túra árið 2002, 30 daga hvern.

Í bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 13. mars 2003, var honum tilkynnt að samþykkt hefði verið að afgreiða hann um fæðingarorlof fyrir tímabilin 15. mars til 15. apríl 2003 og 15. maí til 15. júní 2003. Þá var honum gerð grein fyrir að áður en um frekari afgreiðslu fæðingarorlofsgreiðslna til hans yrði að ræða yrði leitað eftir upplýsingum um sjósókn hans á árinu 2003.

Í tölvupósti sem barst frá vinnuveitanda kæranda þann 27. maí 2003 var gerð grein fyrir sjósókn og frítúrum kæranda árið 2003.

Þann 16. júní 2003 barst ný tilkynning um fæðingarorlof kæranda, dags. 27. og 29. maí 2003, þar sem segir að hann verði í fæðingarorlofi 1. – 30. júní í stað 15. maí – 15. júní.

Í nýrri greiðsluáætlun til kæranda, dags. 19. júní 2003, segir að breytingar hafi verið gerðar á umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Í kjölfar þess breytist greiðslur til hans og verði fyrir 50% marsmánaðar, 27% aprílmánaðar og fyrir júnímánuð.

Þann 2. júlí 2003 endurgreiddi kærandi hluta greiðslu sem hann hafði fengið úr Fæðingarorlofssjóði vegna aprílmánaðar.

Með bréfi til kæranda, dags. 25. júlí 2003, var kæranda gerð grein fyrir því að meðal skilyrða fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði væri að foreldri legði niður störf þann tíma sem það fengi greitt fæðingarorlof og að greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði væri ætlað að bæta það tekjutap sem foreldri í fæðingarorlof yrði fyrir. Þá var kæranda í bréfinu gert kunnugt að lífeyristryggingasvið myndi, vegna fyrirhugaðrar fæðingarorlofstöku hans í ágúst 2003, óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda hans um hvort hann hefði verið á sjó eða í fríi í júlí 2003.

Í staðfestingu sem barst á símbréfi frá vinnuveitanda kæranda í ágúst 2003 hafði kærandi verið á sjó í júlí 2003 og ætlað að vera í fæðingarorlofi í ágúst 2003.

Þann 13. ágúst 2003 var kæranda ritað bréf þar sem honum var gerð grein fyrir að þar sem hann hafði ekki tekið neitt frí umfram fæðingarorlof frá fæðingu barns hans þá væri ekki heimilt að greiða honum fæðingarorlof fyrr en hann hafði tekið tvo frítúra.

Ný tilkynning um fæðingarorlof kæranda barst þann 26. apríl 2004 og hafði hún að geyma breytingu á fyrri tilkynningum. Tilkynning þessi er dags. 17. og 20. apríl 2004 og samkvæmt henni var ætlunin að kærandi yrði í fæðingarorlofi 28. mars til 28. apríl 2004.

Kæranda var send ný greiðsluáætlun, dags. 6. maí 2004. Samkvæmt þeirri áætlun skyldi hann fá greitt fæðingarorlof fyrir 50% marsmánaðar 2003, 27% aprílmánaðar 2003, allan júnímánuð 2003, 13% marsmánaðar 2004 og 93% aprílmánaðar 2004.

Enn barst ný tilkynning um fæðingarorlof kæranda þann 26. maí 2004, sem dags. er 17. og 20. maí 2004. Tilkynning þessi er undirrituð af nýjum vinnuveitanda kæranda, F hf. og samkvæmt henni var ætlun kæranda að vera í fæðingarorlofi tímabilið 6. til 30. júní 2004.

Kæranda var því send ný greiðsluáætlun, dags. 3. júní 2004. Samkvæmt þeirri áætlun skyldi hann fá greitt fæðingarorlof fyrir 50% marsmánaðar 2003, 27% aprílmánaðar 2003, allan júnímánuð 2003, 13% marsmánaðar 2004, 93% apríl mánaðar 2004 og 84% júnímánaðar 2004.

Samkvæmt greiðsluáætlun þessari hefur kærandi, sem ætlaði að vera fimm mánuði í fæðingarorlofi eða 150 daga, fengið greidda samtals 110 daga í fæðingarorlofi og á því enn eftir að taka fæðingarorlof í 40 daga miðað við áætlanir hans.

Barn kæranda er fætt 19. desember 2002 og varð því 18 mánaða gamalt þann 19. júní 2004 en þá skyldi fæðingarorlofi kæranda vera lokið, samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).

Í 1. mgr. 13. gr. ffl. segir að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þannig er fæðingarorlofsgreiðslum til foreldra á vinnumarkaði ætlað að bæta þeim 80% af þeim tekjumissi sem fylgir því þegar foreldri þarf að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þess.

Mjög fljótlega eftir að lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 tóku gildi kom í ljós að sjómenn voru að sækja um greiðslur í fæðingarorlofi án þess að um raunverulega töku fæðingarorlofs af þeirra hálfu væri að ræða. Þannig sóttu t.d. sjómenn, sem störfuðu eftir þeirri reglu að vera tvo mánuði af þremur á sjó og einn í landi, um fæðingarorlof í þeim mánuðum sem ætlunin var að þeir yrðu í landi og ætluðu þannig að tryggja sér tekjur eða fæðingarorlofsgreiðslur í hverjum mánuði. Af þessum sökum og með hliðsjón af þeim tilgangi laganna um fæðingar- og foreldraorlof að ætla að bæta að verulegu leyti það tekjutap sem fylgir því að leggja niður störf til að taka fæðingarorlof, þá hefur verið tekið upp það verklag, í þeim tilvikum sem sjómenn óska eftir skiptingu á töku fæðingarorlofs, að fylgjast með því hvert vinnuframlag þeirra hafi verið á síðustu 14 mánuðunum fyrir fæðingu barns og hvort taka fæðingarorlofs sé í samræmi við það.

Í tilefni af kæru kæranda var ákveðið að endurreikna þá daga sem kærandi hefði átt að skila í fríi umfram fæðingarorlof hans á 18 mánaða tímabili eftir fæðingu barns hans. Við þann endurreikning var bæði horft til þess hvert vinnuframlag hans hefði verið síðustu 14 mánuði fyrir fæðingu barns hans og hvert vinnuframlag hans hefði átt að vera á 18 mánaða tímabili eftir fæðingu barns hans miðað við að reglan væri sú að verið væri á sjó í þrjá mánuði af hverjum fjórum, sbr. áðurnefnt símbréf vinnuveitanda hans frá 12. mars 2003. Sökum þess hversu kærandi hafði verið stopult á sjó á 14 mánaða tímabili fyrir fæðingu barns hans var hagstæðara fyrir hann að horft væri til þess að hann hefði átt að vera þrjá mánuði á sjó af hverjum fjórum, þ.e.a.s. þannig þurfti kærandi að skila færri dögum í fríi umfram fæðingarorlof hans.

Sé við það miðað að kærandi taki frí fjórða hvern mánuð og sé á sjó hina þrjá á 18 mánaða tímabili sem honum er heimilt að dreifa fæðingarorlofi sínu á þá reiknast að hann hafi átt að taka 135 daga í frí án þess að um fæðingarorlof væri að ræða. Kærandi ætlaði sér að taka 150 daga í fæðingarorlof en hefur tekið 110. Samkvæmt upplýsingum um lögskráningardaga hans á þessu tímabili var hann 224 daga í landi. Þegar frá þeim dagafjölda eru dregnir þeir 135 dagar sem kærandi hefði átt að taka sem frí, reiknast að kærandi hafi verið 89 daga í fæðingarorlofi og þ.a.l. mun hann hafa fengið 21 dag ofgreiddan sem fæðingarorlof.

Rétt þykir að árétta að samkvæmt því sem að framan er rakið lagði kærandi fram tvær tilkynningar um fæðingarorlof, sem hann fékk afgreiddar, eftir að hann hafði kært skerðingu þá sem hann taldi sig verða fyrir.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. október 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 17. október 2004, þar segir meðal annars:

„Ef við byrjum á byrjuninni á greinargerðinni þá skulum við fyrst tala um allar þær breytingar á fæðingarorlofstíma mínum sem ég og konan mín sendum inn á þessu tímabili árið 2003. Eins og ég hef sagt áður bæði í símaviðtölum við starfsfólk Tryggingastofnunar og í bréfi til ykkar þá var ég ekki sjómaður að atvinnu árið 2002, heldur var ég starfsmaður hjá vélsmiðju B í sveitarfélaginu G og fór aðeins þrjá 30 daga sjótúra á því ári á frystitogaranum D sem afleysingamaður. Ég fékk ekki fastráðningu á það skip fyrr en í janúar 2003 eftir að dóttir mín var fædd þann 19. desember 2002. Vegna fastráðningarinnar breyttust hlutirnir og ég þurfti að hagræða orlofinu mínu nokkuð mikið vegna þess.

Ég var Baader-maður þar um borð og það er því ekki alltaf auðvelt að fá frí þegar mér hentar vegna þeirrar ábyrgðar sem á mér hvílir við þá vinnu og erfitt að ákveða langt fram í tímann hvenær nákvæmlega ég ætla mér að vera frá vinnu því það geta aðstæður breyst á stuttum tíma. Einnig er það ómögulegt að ákveða með löngum fyrirvara hvað hver túr er langur. Það geta verið allt frá 20 upp í 35 daga ca. því að það veltur á mörgum hlutum t.d. hvernig fiskast, hvort veður séu slæm og skipið þurfi að liggja mikið í vari, ef einhver slasast um borð þarf yfirleitt að sigla með hann í land þannig að það er ýmislegt sem getur lengt og stytt túrana hjá okkur. Þessi vinna okkar er ekki eins og þessi fasta rútína hjá flestum, vinna 5 daga vikunnar og frí um helgar. Þetta virðist vera mjög torskilið hjá Tryggingastofnun...

Í þessari greinargerð er skrifað um að lífeyristryggingasvið hafi ritað bréf til vinnuveitanda míns 5. mars 2003 og óskað eftir upplýsingum um hvort til væri föst regla á því hvernig starfsmenn fyrirtækisins reru eða hvort skiptamannakerfi væri að ræða. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvernig ég hefði ætlað mér að róa á fæðingarorlofstímanum mínum ef ég hefði ekki farið í fæðingarorlof. 12. mars 2003 fær Tryggingastofnun staðfestingu á því að ég hafi ekki verið í skiptamannakerfi en að meginreglan sé sú að menn rói þrjá túra og taki svo einn í frí. Þar fá þeir einnig staðfestingu á því að ef ég hefði ekki tekið mér fæðingarorlof þá hefði ég róið þrjá túra og tekið mér svo þann fjórða frí. Sem á að segja þeim það svart á hvítu og þeim sem eitthvert vit hafa að á mínum umsóknum um fyrir fæðingarorlofið hafði ég aldrei ætlað mér að róa þrjá túra í einu og fara svo í orlof heldur hafði ég skorið sjótúra mína niður í 1-2 í einu og svo ætlað mér í fæðingarorlof...

Á síðustu blaðsíðu þessarar greinargerða er farið að skrifa um að mjög fljótlega eftir að lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 tóku gildi hafi komið í ljós að sjómenn hafi verið að sækja um greiðslur í fæðingarorlofi án þess að um raunverulega töku fæðingarorlofs af þeirra hálfu væri að ræða. Því næst er nefnt dæmi um sjómenn sem róa venjulega tvo túra og einn í frí. Þessir sjómenn hafi sótt um að vera í fæðingarorlofi þá mánuði sem þeir hefðu hvort sem er verið í landi og tryggt sér þannig laun á meðan. Þannig að í raun urðu þeir ekki fyrir tekjuskerðingu heldur þvert á móti urðu þeir fyrir tekjuaukningu. Þetta heitir í daglegu tali að notfæra sér kerfið. Ég segi aðeins þetta. „Hvernig dirfist þið að setja alla sjómenn undir sama hattinn?“ Þið getið farið í hvaða vinnandi stétt sem er og alls staðar fundið „svarta sauði“ sem misnota kerfið af því að þeir kunna á það. Og þegar að Tryggingastofnun setur þetta svona á blað og blandar þessu saman við mitt mál hér get ég ekki tekið því öðruvísi en að það sé verið að saka mig um það óbeinum orðum að ég sé að misnota kerfið. Enn og aftur vil ég ítreka það við þá sem eiga greinilega mjög erfitt að skilja borðleggjandi hluti: „Þið eruð með pappíra sem staðfesta það með undirskriftum yfirmanna minna og sýna það eins greinilega og að dagur er nótt að ég hafði ætlað mér að róa þrjá og einn en minnkaði þá niður í einn til tvo. Og fyrir þá sem eiga erfitt með að telja að þá eru einn og tveir minna en þrír.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 13. ágúst 2003 um að ekki væri heimilt að greiða honum úr Fæðingarorlofssjóði fyrr en hann hefði tekið tvo frítúra.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Barn kæranda er fætt 19. desember 2002. Óumdeilt er að kærandi hafði með störfum sínum fyrir fæðingu barnsins áunnið sér rétt til greiðslu í fæðingarorlofi.

Í rökstuðningi með hinni kærðu ákvörðun segir í bréfi Tryggingastofnunar dagsettu 13. ágúst 2004 að greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé ætlað að bæta það tekjutap sem foreldri í fæðingarorlofi verði fyrir. Sjómaður sem taki fæðingarorlof að mestum hluta eða einvörðungu í frítúrum verði ekki fyrir tekjutapi og teljist því ekki leggja niður launuð störf. Telji Fæðingarorlofssjóður sér ekki skylt að greiða fullt fæðingarorlof þegar svo standi á.

Álitaefni í máli þessu er hvort Tryggingastofnun ríkisins var heimilt að krefjast þess að kærandi tæki frítúr án launa áður en kæmi til frekari greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 7. gr. ffl. segir að fæðingar- og foreldraorlof sé leyfi frá launuðum störfum. Um tilhögun fæðingarorlofs er fjallað í 10. gr. ffl. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal starfsmaður eiga rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Í 2. mgr. segir að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en viku í senn. Vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt þessu ákvæði.

Samkvæmt 1.-3. málsl. 2. mgr. 15. gr. ffl. skal umsókn um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barnsins. Skal umsóknin undirrituð af tilvonandi móður og föður enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Samkvæmt lokamálslið ákvæðisins skulu vinnuveitendur beggja foreldra, ef það á við, árita umsóknina til staðfestingar á tilhögun fæðingarorlofs.

Kærandi hafði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs í ágúst 2003 sem samþykkt hafði verið af vinnuveitanda hans. Hann var á þeim tíma fastráðinn skipverji á D. Samkvæmt upplýsingum útgerðarmanns var hann ekki í föstu skiptimannskerfi en meginregla á frystitogurum væri sú að skipverjar færu í þrjá túra og einn í fríi. Var kærandi skráður úr skipsrúmi þann 11. ágúst 2003 en lögskráður aftur þann 21. september 2003. Ekki verður séð að honum hafi verið greidd laun af vinnuveitanda fyrir þetta tímabil og lagði hann samkvæmt því niður launuð störf á því tímabili.

Í athugasemd við 13. gr. frumvarps til fæðingar- og foreldraorlofslaga segir að markmið þessa nýja kerfis væri að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfi að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þeirra. Þess vegna sé að því stefnt að foreldrar fái 80% af meðaltali heildarlauna óháð starfshlutfalli. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð nr. 909/2000 eru ekki sérákvæði um fæðingarorlof sjómanna eða annarra þar sem tilhögun vinnutíma og frítíma er með sérstökum hætti. Þá gera lögin ekki að skilyrði að sá sem öðlast hefur rétt til fæðingarorlofs skuli sýna fram á tekjutap eða hvert tekjutap hans verði. Með hliðsjón af því og öðru sem að framan er rakið um skilyrði og tilhögun fæðingarorlofs skortir hina kærðu ákvörðun að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála næga lagastoð, þrátt fyrir yfirlýst markmið laganna sem fram kemur í greinargerð. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um launalausan frítúr sem skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði hafnað. Greiða skal kæranda úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 2. mgr. 13. gr. ffl. án slíks skilyrðis með hliðsjón af heimild kæranda til skiptingar á töku fæðingarorlofs.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli umsóknar hans er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 13. gr. ffl. án slíks skilyrðis með hliðsjón af heimild kæranda til skiptingar á töku fæðingarorlofs sbr. 2. mgr. 10. gr. ffl.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta