Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 23/2008

Fimmtudaginn 25. september 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. júní 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 4. júní 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 27. maí 2008, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirrituð fékk synjun á fæðingarorlofi dagsetta 27.05.2008 á þeim forsendum að hafa ekki verið nógu lengi á vinnumarkaði á Íslandi, þ.e. fulla sex mánuði. Undirrituð vann frá 26. nóvember 2007 til fæðingardags sem var X. maí 2008. Þennan tíma vann undirrituð fulla vinnu hjá B.

Undirrituð óskar eftir að kæra áðurnefndan úrskurð þar sem ástæða þess að vinna hófst ekki fyrr en áður er nefnt er að útgáfa skattkorts dróst úr hófi. Vinnan stóð til boða nokkuð löngu áður. Undirrituð hóf störf að lokum án þess að það hafi verið gefið út leyfi enda með leyfi til að starfa á Íslandi frá því ég flutti til landsins í júlí 2007 þar sem ég var þá gift íslenskum ríkisborgara. Ég tel mig ekki eiga að gjalda fyrir áðurnefndan seinagang enda vantar mjög lítið uppá áskilinn tíma eða um 1 til 2% samkvæmt klst. fjölda í nóvember.“

 

Með bréfi, dagsettu 16. júní 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 1. júlí 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 18. apríl 2008 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 4. maí 2008.

Auk umsóknar kæranda barst Fæðingarorlofssjóði tilkynning um fæðingarorlof, dags. 18. apríl. Launaseðlar fyrir febrúar og mars 2008 og vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 24. janúar 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 14. maí 2008, var henni tilkynnt að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns þar sem engin laun væru skráð á hana í nóvember 2007. Kæranda var jafnframt bent á 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og gefinn 15 daga frestur til að leggja fram upplýsingar um að hún hafi verið á vinnumarkaði framangreint tímabil.

Þann 23. maí barst launaseðill frá kæranda fyrir desember 2007 og vinnuyfirlit sem sýnir að kærandi hafi hafið störf 26. nóvember 2007. Í kjölfarið sendi Fæðingarorlofssjóður kæranda bréf, dags. 27. maí 2008, þar sem henni var bent á að framlögð gögn sýndu ekki fram á að kærandi hafi verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Kæranda var aftur bent á 2. mgr. 3. gr. rgl. nr. 1056/2004 og gefinn 15 daga frestur til að sýna fram á þátttöku á innlendum vinnumarkaði tímabilið 5.-25. nóvember 2007. Engin frekari gögn bárust frá kæranda.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Barn kæranda fæddist X. maí 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil er, samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, X. maí 2007 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið X. maí 2007 til X. maí 2008.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árinu 2007 og 2008 og telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið launalaus fyrir nóvember 2007 en skv. launaseðli fyrir desember það sama ár og vinnuyfirliti verður ráðið að kærandi hafi hafið störf 26. nóvember 2007. Af framangreindu verður ekki annað séð en að kærandi hafi ekki verið starfandi samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á þátttöku hennar á innlendum vinnumarkaði í samræmi við a.-d. liði 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Kærandi hefur þess í stað verið afgreiddur með fæðingarstyrk lægri sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. júlí 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:

a. Orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. Sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. Sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. Sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Fæðingardagur barns kæranda er X. maí 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá X. nóvember 2007 fram að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi störf hjá B þann 26. nóvember 2007 og starfaði þar fram að fæðingu barnsins. Ekki verður séð að fyrir þann tíma hafi hún verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. eða 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns. Í kæru segir að ástæða þess að vinna hófst ekki fyrr sé að útgáfa skattkorts hafi dregist úr hófi. Vinnan hafi staðið henni til boða nokkuð löngu áður. Hvorki lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof né reglugerð nr. 1056/2004 heimila að vikið sé frá skilyrðinu um 6 mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði vegna slíkra aðstæðna. Samkvæmt því ber að staðfesta þá ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að um synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta