Mál nr. 34/2008
Fimmtudaginn, 23. október 2008
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 24. júlí 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 24. júlí 2008.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 10. júlí 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Ég hef nýlega lokið námi við B-háskóla í D-fræði og hef þar af leiðandi ekki haft samfelld laun síðastliðna 18 mánuði.
Einnig er það venja að lokaársnemar fari í útskriftarferð seinasta sumarið sem þeir eru í námi, það gerði ég og lækkaði það töluvert mánaðarlaun maí og júní sem og að skólanum var ekki lokið fyrr en um miðjan maí. Launin fyrir ágúst eru einnig skert þar sem skólinn hófst uppúr miðjum ágúst. Ég hef verið í fullu starfi sem D-fræðingur síðan í byrjun janúar, áætlaður fæðingardagur er 25. júlí og miðað við seinustu meðgöngu sem fór 12 daga fram yfir reikna ég með að vera í vinnu út mánuðinn, ég er svo í sumarfríi seinustu vikuna í júlí. Ég hef því verið í fullu starfi í 7 mánuði og tel eðlilegt að laun fyrir janúar 2008 séu notuð til aukinna réttinda.
Fyrst og fremst vil ég sýna fram á raunveruleg mánaðarlaun fyrir sumarið 2007, einnig bið ég um að laun fyrir janúar verði einnig notuð til útreiknings fyrir réttindum til fæðingarorlofs. Áætlaður fæðingardagur hjá okkur er 25. júlí og júlí er 7. mánuður ársins. Fyrri meðganga hjá okkur fór þannig fram að X fæddi 12 dögum eftir áætlaðan fæðingardag. Einnig er ég í sumarfríi seinustu vikuna í júlí þannig að ég hef full laun fyrir júlí og tel ég það vera 7 mánuði fyrir fæðingu barns.“
Með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 22. september 2008. Í greinargerðinni segir:
„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Með umsókn, ódagsett, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 25. júlí 2008.
Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 19. júní 2008, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 13. júní 2008. Launaseðlar frá E fyrir júlí 2007 og apríl – maí 2008. Vottorð um námsárangur frá B-háskóla, dags. 14. júlí 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.
Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 7. ágúst 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X krónur á mánuði miðað við 100% orlof.
Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a.
Í 2. mgr. 13. gr. segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.
Fæðingardagur barns kæranda er X. ágúst 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans mánuðina febrúar 2007 – janúar 2008 og skal miða við að lágmarki fjóra mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Miðað var við mánuðina júní – ágúst 2007 og janúar 2008, enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið launalaus mánuðina febrúar – apríl og september – desember 2007. Á vottorði frá B-háskóla kemur fram að kærandi hafi verið í fullu námi á vor- og haustmisseri 2007. Voru umræddir mánuðir því undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda. Á upphaflegri greiðsluáætlun til kæranda, dags. 7. ágúst 2008 hefur misfarist að undanskilja maímánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna en þann mánuð var kærandi einnig í fullu námi eins og kemur fram í gögnum málsins. Var kæranda send ný greiðsluáætlun, dags. 8. september 2008, þar sem búið er að undanskilja maímánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 8. september 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 30. september 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.
Með greiðsluáætlun dagsettri 9. september 2008 leiðrétti stofnunin fyrri ákvörðun sína um útreikning samkvæmt greiðsluáætlun 7. ágúst 2008 sem kærð hafði verið.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl)., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og miðað skal við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda og ber stofnunni að leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.
Barn kæranda fæddist X. ágúst 2008 og er því viðmiðunartímabilið febrúar 2007 – janúar 2008. Samkvæmt staðgreiðsluskrá var kærandi launalaus mánuðina febrúar – apríl og september – desember 2007. Í vottorði B-háskóla dags. 14. júlí 2008 kemur fram að kærandi hafi verið í fullu námi á vor- og haustmisseri 2007. Samkvæmt leiðréttri greiðsluáætlun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs frá 9. september 2008 er miðað við mánuðina júní til ágúst 2007 og janúar 2008 en samkvæmt gögnum málsins var kærandi þá á innlendum vinnumarkaði sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Aldrei skal miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Með hliðsjón af framanrituðu ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs samkvæmt greiðsluáætlun dagsettri 9. september 2008.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson