Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 49/2005

Miðvikudaginn, 22. mars 2006

A

gegn

Útlendingastofnun

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Ásta S. Helgadóttir lögfræðingur.

Þann 25. nóvember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B, f.h. A, dagsett 21. nóvember 2005.

Kærð var ákvörðun Útlendingastofnunar um að segja kæranda upp störfum eftir að hún hafði greint yfirmanni stofnunarinnar frá því að hún væri barnshafandi.

 

Með bréfi dagsettu 24. nóvember 2005 var óskað eftir afstöðu Útlendingastofnunar til framkominnar kæru. Greinargerð forstjóra f.h. Útlendingastofnunar dagsett 5. desember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 7. desember 2005. Lögmaður kæranda fékk greinargerðina til kynningar með bréfi dagsettu 9. desember 2005. Athugasemdir bárust frá honum með bréfi dagsettu 21. desember 2005. Með bréfi dagsettu 16. janúar 2006 voru forstjóra Útlendingastofnunar sendar athugasemdir kæranda til skoðunar. Athugasemdir bárust frá Útlendingastofnun með bréfi dagsettu 1. febrúar 2006.

 

I. Málavextir

Kærandi hóf störf hjá Útlendingastofnun 14. janúar 2005. Með ráðningarsamningi dagsettum 10. maí sama ár var hún fastráðin. Þann 23. september 2005 greindi kærandi forstjóra Útlendingastofnunar frá því að hún væri barnshafandi. Þann 29. september 2005 afhenti forstjóri stofnunarinnar kæranda uppsagnarbréf og miðaðist upphaf þriggja mánaða uppsagnarfrestur við 1. október 2005. Samkvæmt því átti uppsögnin að taka gildi 1. janúar 2006. Í uppsagnarbréfinu var vísað til þess að fyrirséðar væru talsverðar breytingar á verkefnum stofnunarinnar um næstu áramót sem kalli á skipulagsbreytingar sem og hagræðingu í rekstri.

Kærandi telur Útlendingastofnun hafa brotið gegn 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs.

 

II. Málsrök kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið ráðin til starfa hjá Útlendingastofnun án þess að starfsheitis væri getið. Gjaldkerastarf hafi einungis verið hluti af hennar störfum. Hún hafi t.d. unnið við skráningu leyfa fyrir varnarliðið annan hvern dag. Einnig hafi hún unnið við símsvörun og henni og öðrum starfsmönnum hafi verið uppálagt að sinna yfirvinnu eitt kvöld í viku við skráningu umsókna útlendinga. Hún hafi getað sinnt öllum skrifstofustörfum sem ekki þurfti sérmenntun til. Það sé því ónákvæmt að halda því fram að hún hafi einungis verið gjaldkeri. Kærandi bendir á ákvæði 19. gr. laga nr. 70/1996 sem heimilar forstöðumanni að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna ef svo ber undir.

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki fyrr en hún fékk afhent uppsagnarbréf heyrt um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar hjá stofnuninni. Hún fái ekki betur séð en að sú tilvísun sé hreinn fyrirsláttur. Hún bendir jafnframt á að á sama tíma og henni og öðrum starfsmanni var sagt upp störfum hafi starfsmönnum fjölgað umtalsvert. Þrettán starfsmenn, þar af þrír lögfræðingar, hafi verið ráðnir hjá stofnuninni á eftir henni. Fimm þeirra hafi hafið störf haustið 2005 þar af einn lögfræðingur, þ.e. eftir að skipulagsbreytingar hafi verið kynntar síðla sumars sbr. greinargerð forstöðumanns stofnunarinnar. Í ljósi þessara ráðningarmála hjá Útlendingastofnun telur kærandi tilgreinda uppsagnarástæðu ekki standast.

Kærandi vísar til þess að forstöðumanni Útlendingastofnunar hafi verið kunnugt um að hún væri barnshafandi  þrátt fyrir að hún hafi ekki tilkynnt það með formlegum hætti. Hún telur stofnunina hafa brotið gegn 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem óheimilt sé að segja þungaðri konu upp störfum.

 

III. Málsrök Útlendingastofnunar

Í greinargerð Útlendingastofnunar er greint frá því að starfsemi Útlendingastofnunar sé tvíþætt. Annars vegar sjái stofnunin um útgáfu vegabréfa fyrir íslenska ríkisborgara og hins vegar málefni útlendinga, svo sem útgáfu dvalarleyfa, áritana og málefni hælisleitenda. Hingað til hafi stofnunin þurft að hafa gjaldkera í starfi vegna gjaldtöku fyrir útgáfu vegabréfa, en vegna flutnings útgáfu vegabréfa frá stofnuninni liggi fyrir að leggja þurfi niður stöðugildi, bæði í afgreiðslu sem og í framleiðslu vegabréfa. Í ljósi þessa hafi tveimur starfsmönnum verið sagt upp þann 29. september 2005 með samningsbundnum fyrirvara. Tímasetning hafi miðast við að starfsemi vegabréfaútgáfu og afgreiðslu tengdri henni dragist saman yfir vetramánuðina og því hafi skipulagsbreytingar verið miðaðar við áramót varðandi störf þau sem tengjast vegabréfaútgáfunni í afgreiðslu. Einnig liggi fyrir að Útlendingastofnun muni þurfa að segja starfsmönnum upp störfum er starfa við framleiðslu vegabréfa vegna fyrirhugaðs flutnings útgáfu vegabréfa frá stofnuninni. Vegna sérhæfingar þeirra starfsmanna verði þeir eðli málsins samkvæmt að vera við störf fram að þeim tímapunkti er flutningur útgáfunnar muni eiga sér stað.

Útlendingastofnun mótmælir því að kæranda hafi ekki verið kunnugt um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar þar sem þær hafi verið kynntar á starfsmannafundi síðla sumars. Það hafi hins vegar ekki verið endanlega ljóst hvenær þessar breytingar yrðu að veruleika fyrr en á haustmánuðum. Því er einnig mótmælt að starfsmönnum stofnunarinnar hafi fjölgað talsvert og nýlega hafi verið ráðnir fimm nýir starfsmenn. Starfsfólki stofnunarinnar hafi verið fækkað úr 31 í árslok 2004 í 24 starfsmenn þann 1. desember 2005. Síðan greinir stofnunin frá því að þegar ljóst hafi verið að fækka yrði starfsfólki vegna breytinganna, hafi verið litið til þess hverjir hefðu stystan starfsaldur af þeim sem komu að verkefnum tengdum útgáfu vegabréfa og voru fastráðnir. Hafi það verið kærandi og annar starfsmaður sem voru fastráðnir og höfðu stystan starfsaldur.

Í greinargerð Útlendingastofnunar er greint frá því að kærandi hafi verið ráðin á þeim forsendum að hún myndi gegna starfi gjaldkera. Gjaldkerinn sem kærandi vísar til og hafi haldið starfi sínu, sé ráðinn hjá Útlendingastofnun sem vegabréfsfulltrúi og hafi einungis gegnt starfi gjaldkera, þegar leysa þurfti kæranda af. Jafnframt greinir Útlendingastofnun frá því að þeir fimm starfsmenn sem kærandi hafi vísað til að hafi verið ráðnir nýlega hjá stofnuninni, hafi verið ráðnir til að mæta tímabundnu álagi í vinnslu dvalarleyfa og þeir séu allir með tímabundna ráðningarsamninga.

Útlendingastofnun vísar til 9. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið er á um að starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til fæðingarorlofs tilkynni það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns. Engin tilkynning hafi borist Útlendingastofnun af hálfu kæranda.

Útlendingastofnun mótmælir því harðlega að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof með uppsögn kæranda.

 

IV. Niðurstaða úrskurðarnefndar

Kæra varðar ákvörðun Útlendingastofnunar um að segja kæranda upp störfum eftir að hún hafði greint yfirmanni stofnunarinnar frá því að hún væri barnshafandi.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (ffl.) er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs skv. 9. gr. nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

Í athugasemdum um 30. gr. frumvarps til laga um fæðingar- og foreldraorlof segir: „Tilgangur þessa ákvæðis er að vernda starfsmenn sem lagt hafa fram skriflega tilkynningu um að þeir ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða eru í fæðingar- eða foreldraorlofi gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo er ástatt um ber honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Slíkt ákvæði er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmann að nýta sér rétt sinn samkvæmt frumvarpinu.“

Af hálfu Útlendingastofnunar hefur því ekki verið mótmælt að kærandi hafi greint forstjóra stofnunarinnar frá því að hún væri barnshafandi áður en henni var sagt upp störfum. Álitaefni í máli þessu er því hvort kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna þess að hún hafði tilkynnt stofnuninni að hún væri barnshafandi, sbr. 30. gr. ffl. Telja verður að sönnunarbyrði um að aðrar ástæður hafi verið fyrir uppsögninni hvíli á Útlendingastofnun.

Eins og fram kemur í greinargerð Útlendingastofnunar er starfsemi stofnunarinnar tvíþætt. Annars vegar útgáfa vegabréfa fyrir íslenska ríkisborgara og hins vegar ýmis málefni útlendinga, s.s. útgáfa dvalarleyfa, áritanir og málefni hælisleitenda. Útlendingastofnun vísar til þess að kæranda hafi verið sagt upp störfum þar sem fyrirhugað hafi verið að flytja útgáfu vegabréfa frá stofnuninni. Þær breytingar kveðst forstjóri Útlendingastofnunar hafa kynnt á starfsmannafundi seinni part sumars 2005. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála aflaði frá dómsmálaráðuneytinu í febrúar 2006 hefur verið unnið að þessum fyrirhuguðu skipulagsbreytingum hjá Útlendingastofnun frá því haustið 2005 og stefnt að því að breytingarnar eigi sér stað 12. apríl 2006. Þegar litið er til þess verður ekki séð að nauðsynlegt hafi verið að segja kæranda upp störfum í september 2005 vegna breytinga sem áttu að eiga sér stað um það bil sjö mánuðum seinna. Það sama á við ef litið er til þess að forstjóri stofnunarinnar viðurkennir að nýir starfsmenn hafi verið ráðnir til stofnunarinnar eftir að kæranda var sagt upp störfum. Hafi það verið gert til að mæta tímabundnu álagi í vinnslu dvalarleyfa og starfsmenn hafi allir tímabundna ráðningarsamninga.

Af hálfu Útlendingastofnunar var greint frá því að vegabréfaútgáfa og afgreiðsla henni tengdri dragist verulega saman yfir vetramánuðina. Ekkert hefur komið fram í gögnum málsins um að fyrirsjáanlegt hafi verið að veturinn 2005/2006 yrði meiri samdráttur í störfum tengdum vegabréfaútgáfu en veturinn 2004/2005 þegar kærandi var ráðinn til starfa hjá stofnuninni.

Kærandi var fastráðin þegar henni var sagt upp störfum í september 2005. Fyrir liggur að á þeim tíma stóð henni ekki til boða annað starf hjá Útlendingastofnun þrátt fyrir að verið væri að ráða starfsmenn tímabundið til stofnunarinnar. Hún hafði þó reynslu af öðrum störfum en gjaldkerastarfinu sem hún sinnti aðallega. Engar athugasemdir hafa komið fram af hálfu Útlendingastofnunar varðandi störf kæranda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að Útlendingastofnun hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að gildar ástæður hafi legið fyrir uppsögn kæranda. Þar af leiðandi telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að Útlendingastofnun hafi brotið gegn ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000 með því að segja kæranda upp störfum þann 29. september 2005.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útlendingastofnun braut gegn 30. gr. laga nr. 95/2000 með síðari breytingum með því að segja A upp störfum þann 29. september 2005 eftir að hún hafði tilkynnt um þungun.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Ásta Sigrún Helgadóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta