Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 50/2012

Fimmtudaginn 6. september 2012

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. apríl 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B, f.h A, dags. 16. apríl 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. mars 2012, um að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Með bréfi, dags. 9. maí 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 4. maí 2012.

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þær bárust úrskurðanefndinni með bréfi, dags. 23. maí 2012.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu. Hafi það verið gert með vísan til þess að ekki yrði ráðið af læknisvottorði að kærandi hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum. Þessari túlkun Fæðingarorlofssjóðs mótmælir kærandi og vísar til vottorða frá C heimilislækni, dags. 3. mars og 4. apríl 2012. Kærandi telur að vottorðin beri með sér að kærandi hafi orðið að hætta vinnu vegna svonefndra meðgöngutengdra heilsufarsástæðna.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu. Með bréfi til kæranda, dags. 12. mars 2012, var henni synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu þar sem ekki hafi verið ráðið af læknisvottorði að hún hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að með ódagsettri umsókn hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 3. mars 2012. Auk umsóknar kæranda hafi borist vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 8. desember 2011, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 4. janúar 2012, launaseðlar frá D ehf. fyrir nóvember og desember 2011, læknisvottorð til atvinnurekanda, dags. 17. janúar 2012, starfslokavottorð vegna veikinda, dags. 17. febrúar 2012, og læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs, dags. 2. mars 2012. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám RSK og Þjóðskrá.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að með bréfi til kæranda, dags. 12. mars 2012, hafi henni verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu þar sem ekki yrði ráðið af læknisvottorði að hún hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum. 

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.), segi: „Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Þá segi í 5. mgr. 17. gr. að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu.

Í 6. mgr. komi fram að umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við á. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur féllu niður.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma og í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem komi upp vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og sé stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 3. mars 2012 en barn kæranda hafi fæðst þann Y. febrúar 2012. Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum hafi kærandi þurft að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag vegna heilsufarsástæðna í skilningi 9. gr. reglugerðarinnar til að geta öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Á læknisvottorði, dags. 2. mars 2012, hafi komið fram að ekki hafi farið fram formleg skoðun á kæranda. Sjúkdómsgreining hafi verið bakverkur, ótilgreindur (M54.9+), og lýsing á sjúkdómi móður á meðgöngu „[?] vinnur hjá tölvufyrirtæki, mikil seta við tölvur eins og gefur að skilja. Fékk góðkynja stöðusvima í desember og leitaði til undirritaðrar, náði sér ágætlega af því. Þann 4/1 kemur hún á stofu og hafði þá kvartað undan verkjum í grind hjá ljósmóður og hún ráðl. henni að draga úr vinnu. Verkir voru mestir í baki. Einnig kvartaði hún undan þreytu. Fékk vottorð fyrir 50% starfshlutfalli. Heyrði svo í henni þann 17/1, hún hafði þá gefist upp í vinnunni, treysti sér ekki lengur til þess vegna grindarverkja. Gerði fyrir hana nýtt vottorð um óvinnufærni.“

Með kæru kæranda hafi fylgt læknabréf sama læknis, dags. 4. apríl 2012. Í því hafi sagt orðrétt: „[?] kom til undirritaðrar þann 4/1 sl. Þá komin 31 viku á leið. Kvartaði undan þreytu og bakverkjum. Vann við tölvur og treysti sér ekki lengur í fullt starf. Skrifaði fyrir hana vvv upp á 50% starfshlutfall (frá 01.01.2012). Þrettán dögum seinna heyrði ég í henni í síma, hafði þá gefist upp í vinnunni, þreyta og verkir þrátt fyrir að hafa minnkað vinnuna. Hún var í meðgöngusundi og einnig fengið stoðbelti. Þegar hún var komin 35 vikur + 5 daga kemur fram hjá ljósmóður að hún hafi verið komin með samdráttarverki. Fullgild ástæða var til þess að skrifa bæði vinnuveitendavottorðin að mínu mati.“

Á starfslokavottorði, dags. 17. febrúar 2012, hafi komið fram að kærandi hafi látið af störfum vegna veikinda þann 17. janúar 2012 og fallið af launaskrá 1. febrúar 2012 og veikindaréttur hafi verið fullnýttur 25. janúar 2012.

Samkvæmt framangreindum læknisvottorðum verði ekki betur séð en kærandi sjálf hafi tekið þá ákvörðun að láta af störfum þann 17. janúar 2012 og hafi sú ákvörðun ekki verið samkvæmt ráðleggingum læknis í kjölfar læknisskoðunar enda virðist engin læknisskoðun hafa átt sér stað á kæranda frá 4. janúar 2012 og fram að fæðingu barnsins þann Y. febrúar 2012. Í læknisskoðun þann 4. janúar 2012 hafi sjúkdómsgreining verið skráð sem bakverkur, ótilgreindur, og á þeim tíma hafi kærandi ekki verið að fullu óvinnufær af þeim völdum. Þegar af þeirri ástæðu verði ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði 17. gr. ffl., sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. synjunarbréf sem kæranda var sent þann 12. mars 2012.

 

III.

Athugasemdir lögmanns kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. maí 2012. Þar segir að kærandi telji Fæðingarorlofssjóð túlka mjög þröngt skilyrði þess að kæranda verði veitt lenging á fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu. Verði þannig ekki séð að stofnunin hafi í heiðri 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um meðalhóf. Einnig hafi ekki verið gætt að rannsóknarreglu 10. gr. og enn síður að 13. gr. um andmælarétt. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs hafi verið tekin einhliða, án þess að rannsaka málsatvik, svo sem að kanna hjá kæranda hvort um frekari gögn kunni að vera að ræða sem skipt hafi getað máli. Sé þá til þess að líta að ákvörðun stofnunarinnar sé íþyngjandi fyrir kæranda og því beri stofnuninni að rannsaka málsatvik betur. Sömu röksemdir eigi við um að kæranda hafi ekki verið veittur andmælaréttur, en kærandi telur að henni hafi ekki verið gefið færi á að andmæla ákvörðun stofnunarinnar sem vissulega hefði átt gera ekki síst í ljósi þess að um íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða. Varðandi brot á meðalhófsreglunni sé skylt að líta til þess að kærandi hafi verið að eignast sitt fyrsta barn og hún hafi verið í góðri trú þegar hún hafi fylgt ráðgjöf ljósmóður og læknis. Heilsufar kæranda hafi hrakað nokkuð þegar hún hafi verið komin 31 viku á leið, meðal annars vegna svima og verkja í grind og baki. Hún hafi fengið vottorð um að minnka vinnu í 50%. Hálfum mánuði seinna hafi hún haft samband við lækni vegna þess að verkir, einkum í grind hafi aukist mikið og hún hafi ekki treyst sér lengur til að vinna. Læknirinn hafi skrifað upp á nýtt vottorð um óvinnufærni. Allt þetta hafi komið fram í vottorði C, dags. 2. mars 2012.

 

IV.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu með bréfi, dags. 12. mars 2012.

Af hálfu kæranda er á því byggt að kærandi hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum og það hafi verið staðfest með vottorðum C heimilislæknis, dags. 2. mars og 4. apríl 2012. Þá vísar kærandi til þess að Fæðingarorlofssjóður hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins með hinni kærðu ákvörðun, auk þess sem sjóðurinn hafi hvorki gegnt rannsóknarskyldu sinni né gætt að andmælarétti kæranda.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs er á því byggt að samkvæmt framlögðum læknisvottorðum verði ekki betur séð en kærandi sjálfur hafi tekið þá ákvörðun að láta af störfum þann 17. janúar 2012 en sú ákvörðun hafi ekki verið samkvæmt ráðleggingum læknis í kjölfar læknisskoðunar.

Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. ffl. er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði ef henni er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segir að þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálstofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæði þessu.

Í læknisvottorði C, dags. 2. mars 2012, kemur fram að kærandi hafi komið á stofu 4. janúar 2012 og kvartað undan verkjum í grind hjá ljósmóður. Hún hafi verið skoðuð og í kjölfarið hafi hún fengið vottorð læknis fyrir 50% starfshlutfalli. Kærandi hafi síðan haft samband við lækninn aftur þann 17. janúar 2012, og tjáð henni að hún treysti sér ekki lengur til að vinna vegna grindarverkja. Þá hafi læknirinn gert fyrir hana nýtt vottorð um óvinnufærni. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda lét kærandi af störfum í kjölfarið. Með læknabréfi fyrrnefnds læknis, dags. 4. apríl 2012, staðfesti læknirinn það sem fram kemur í fyrrnefndu vottorði frá 2. mars 2012, auk þess sem fram kemur að þegar kærandi var gengin 35 vikur og 5 daga hafi kærandi verið komin með samdráttarverki. Læknirinn telji því að fullgild ástæða hafi verið til að skrifa bæði vinnuveitendavottorðin.

Til þess að eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs á grundvelli 4. mgr. 17. gr. ffl. þarf kærandi, sem fyrr segir, að hafa verið óvinnufær af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Þannig þarf kærandi að hafa verið óvinnufær frá og með 3. febrúar 2012 til þess að eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum var kærandi óvinnufær vegna verkja og þreytu að hluta frá og með 4. janúar 2012 og að fullu frá og með 17. janúar 2012 og lét í kjölfarið af störfum, sbr. vottorð vinnuveitenda, dags. 17. febrúar 2012. Eru ekki rök til þess að vefengja framlögð læknisvottorð enda hefur Fæðingarorlofssjóður ekki óskað umsagnar annars sérfræðilæknis samkvæmt heimild í 5. mgr. 17. gr. ffl. Gildir einu að mati nefndarinnar þótt læknisskoðun hafi ekki átt sér stað þann 17. janúar 2012, enda var kærandi skoðuð þrettán dögum fyrr. Eftir þá skoðun var gefið út vottorð henni til handa um 50% starfshlutfall og því ekki nauðsynlegt að skoða hana á nýjan leik þrettán dögum síðar vegna fullyrðinga hennar um versnandi verki og minna starfsþrek.

Að mati nefndarinnar voru skilyrði 4. mgr., sbr. 5. mgr. 17. gr. ffl., uppfyllt í tilviki kæranda. Þegar af þeirri ástæðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og koma þá ekki aðrar málsástæður kæranda til skoðunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi er felld úr gildi.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta