Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 12/2013

Fimmtudaginn 29. ágúst 2013
 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. nóvember 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. nóvember 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. júní 2012, þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði ásamt viðbættu álagi.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 29. nóvember 2012.

Með bréfi, dags. 20. desember 2012, var kæranda tilkynnt um úrskurð nefndarinnar sem kveðinn var upp þann 13. desember 2012. Var það niðurstaða nefndarinnar að þar sem ljóst var að þriggja mánaða kærufrestur vegna framangreindrar ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. júní 2012, rann út þann 12. september 2012 bæri að vísa kærunni frá.

Þann 21. febrúar 2013 bárust úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála viðbótargögn kæranda. Þar var vakin athygli nefndarinnar á því að kærandi hafi ætlað að vera í fæðingarorlofi í janúar 2012 en hann hafi breytt því. Þá hafi kærandi jafnframt tilkynnt Fæðingarorlofssjóði að hann hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda þann 15. janúar 2012. Ekki hafi verið tekið tillit til þeirrar tilkynningar og því sendi kærandi gögn sem staðfesti að hann hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda þann 15. janúar 2012.

Kærandi tekur fram í bréfi sínu til nefndarinnar að honum hafi ekki fundist nægilega skýrt hvernig hann hafi átt að bera sig að í málinu í upphafi og hafi ekki haft hugmynd um kærufrest.

Með vísan til framangreinds lítur nefndin svo á að í bréfi kæranda til nefndarinnar hafi falist beiðni um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar sem kveðinn var upp þann 13. desember 2012 um frávísun málsins. Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, á aðili máls rétt á að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála tók þá ákvörðun með úrskurði nefndarinnar, dags. 13. desember 2012, að vísa kæru frá þar sem hún barst eftir lok kærufrests. Nefndin hefur yfirfarið ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs í máli kæranda og þau gögn sem kærandi hefur sent nefndinni og sem bárust henni þann 21. febrúar 2013. Í þeim er hvorki að finna gögn sem sýna fram á að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr né að til staðar séu veigamiklar ástæður sem mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Af framangreindu leiðir að hafna ber endurupptökubeiðni kæranda. Fyrri ákvörðun úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála sem fram kom í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 100/2012, dags. 13. desember 2012, stendur því óhögguð.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Endurupptökubeiðni A er hafnað.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta