Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 9/2006

Þriðjudaginn, 9. maí 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 10. febrúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 30. desember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12, desember 2005 um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingaorlofi.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Þann 12. desember síðastliðinn barst mér bréf frá Lífeyristryggingasviði þar sem umsókn minni um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu var hafnað. Synjunin byggðist á því að ekki var talið að ég hefði uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof um að hafa verið í sex mánaða samfelldu starfi, hvort sem miðað er við áætlaðan fæðingardag barnsins eða upphafsdag lengingar.

Upphaflega fékk ég sent bréf frá Lífeyristryggingasviði þar sem mér var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ég var ekki talin uppfylla skilyrði laga fyrir greiðslum. Ég átti rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna sem var þó skilyrt á þann hátt að ég mundi leggja niður launuð störf þann tíma sem styrkurinn væri.

Í ljósi þessa tel ég rétt að upplýsa úrskurðarnefndina um það að ég skilaði inn læknisvottorði til stofnunarinnar í ágúst því til staðfestingar að ég væri óvinnufær með öllu frá og með 1. ágúst og á þeim grundvelli sótti ég um lengingu fæðingarstyrksgreiðslna, en var synjað eins og áður sagði. Ég var í sambandi við B starfsmann hjá lífeyristryggingasviði varðandi þetta mál og í tölvupósti sem mér barst frá henni þann 8. desember síðastliðinn kemur eftirfarandi fram:

„Námsmenn eru á fæðingarstyrk og eiga ekki rétt á lengingu á orlofi v/veikinda á meðgöngu. Læknisvottorðinu var synjað á grundvelli þess að þú ert námsmaður...“

Við lestur laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kom ég ekki auga á einhverja sérstaka grein laganna sem taka það fram að námsmenn geti ekki fengið lengingu á greiðslum fæðingarstyrks. Í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur fram að heimilt er að framlengja rétt til fæðingarstyrks til móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Hér tel ég mig eiga rétt á framlengingu þar sem ég átti við veikindi að stríða sem háðu mér í fæðingu og bendi á áðurnefnt læknisvottorð því til stuðnings. Í öðrum tölvupósti sem mér barst frá B starfsmanni kemur þetta fram:

„Námslán eru aldrei tekin með í launalið. Þetta er lán en ekki laun og þ.a.l. geta námsmenn verið í orlofi (á námsmannastyrk) samhliða námi.“

Ég hef aflað mér upplýsinga um þessa staðhæfingu B starfsmanns um að námslán séu lán en ekki laun og komst að því að þetta er ekki alls kostar rétt. Námslán eru vissulega lán, en eru ekki talin sem slík nema lánþegi sé farinn að greiða af láninu. Meðan lánþegi er í námi og er ekki farinn að greiða af láninu teljast námslán til launa, þar sem þau eru lánþega til framfærslu. Ég er ekki farin að greiða af mínum námslánum, þar sem greiðsla af námslánum hefst ekki fyrr en að tveimur árum liðnum frá útskrift.

Ég tel að verið sé að synja mér á röngum forsendum, þið gerið ráð fyrir að ég sé að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í bréfunum sem mér berast en í tölvupóstum frá ykkur er tekið fram að ég sé námsmaður skv. ykkar bókum. Þykir mér því rétt að synjun mér til handa vegna lengingar á fæðingarorlofi verði endurskoðuð. “

 

Með bréfi, dagsettu 9. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 11. apríl 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á lengingu greiðslna fæðingarstyrks námsmanna.

Með umsókn, dags. 13. júlí 2005, sem móttekin var 3. ágúst 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði / fæðingarstyrk í 6 mánuði frá fæðingardegi barns hennar sem áætlaður var 13. september 2005.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu fyrir vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 14. júlí 2005, prófskírteini frá D-háskólanum, dags. 28. ágúst 2005, launaseðlar fyrir júlí og ágúst 2005, útprentanir frá kæranda vegna námslána kæranda og útprentanir úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 7. september 2005, var umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns hennar. Í sama bréfi var kæranda gerð grein fyrir að hún ætti rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður og var henni jafnframt send greiðsluáætlun sama dag er sýndi yfirlit yfir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna til hennar tímabilið september til og með febrúar 2006.

Þann 23. ágúst 2005 barst Tryggingastofnun ríkisins vottorð læknis, dags. 22. ágúst 2005, sem varðaði heilsufar kæranda á meðgöngunni og fól í sér beiðni um lengingu fæðingarorlofs vegna heilsufars hennar.

Niðurstaða lífeyristryggingasviðs var að kærandi ætti ekki rétt á lengdar yrðu til hennar greiðslur fæðingarstyrks og var umsókn hennar þar að lútandi því synjað. Virðist það ekki hafa verið gert með formlegum hætti fyrr en með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 12. desember 2005.

Eins og að framan er getið taldi lífeyristryggingasvið kæranda ekki uppfylla skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en að á hinn bóginn ætti hún rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður þar sem hún uppfyllti skilyrði um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns hennar, sem fæddist þann 17. september 2005.

Rétt þykir að taka fram að lífeyristryggingasvið getur ekki séð að kæra kæranda varði þá ákvörðun að synja henni um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og ákvarða henni þess í stað fæðingarstyrk námsmanna. Sú ákvörðun var tekin 7. september 2005 og kynnt kæranda. Kærufrestur vegna hennar var því liðinn, sbr. 1. mgr. 6. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, þegar kæra kæranda barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 10. febrúar 2006.

Þar sem kæranda átti rétt á fæðingarstyrk en ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði taldi lífeyristryggingasvið rétt hennar samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof miðast við rétt foreldra sem eiga rétt á fæðingarstyrk, þ.e. foreldra utan vinnumarkaðar eða í námi og að hún gæti ekki byggt á rétt sem í lögunum væri veittur foreldrum á vinnumarkaði þó svo að hún hefði verið við störf um tíma eftir að námi hennar lauk og áður en barn hennar fæddist.

Í VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem varðar foreldra utan vinnumarkaðar og í námi, er engin ákvæði að finna sem heimila lengingu greiðslna fæðingarstyrks vegna heilsufarsástæðna móður á meðgöngu. Lífeyristryggingasvið telur því óheimilt að ákveða lengingu greiðslna fæðingarstyrks, þ.e.a.s. að fæðingarstyrkur verði greiddur í lengri tíma en ákvæði 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga veita rétt til.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur Tryggingastofnun ríkisins að framangreind ákvörðun lífeyristryggingasviðs frá 12. desember 2005 hafi verið rétt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. apríl 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Samkvæmt gögnum málsins hefur Tryggingastofnun ríkisins staðfest að kærandi eigi rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ágreiningur snýst hins vegar um rétt kæranda til framlengingar greiðslna vegna veikinda á meðgöngu.

Kærandi ól barn 17. september 2005. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu og skv. 4. mgr. 17. gr. ef þungaðri konu er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launað starf. Ákvæði 17. gr. eiga eingöngu við um konur sem eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi átti ekki þann rétt þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Í 3. mgr. 22. gr. laganna er heimild til framlengingar fæðingarstyrks til móður vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Sambærileg heimild til framlengingar greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda á meðgöngu og fram kemur í 4. mgr. 17. gr. ffl. um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er hins vegar ekki fyrir hendi í lögum nr. 95/2000.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta