Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 1/2009

Fimmtudaginn 19. mars 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. janúar 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. janúar 2009.

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 13. janúar 2009 um útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Barn kæranda er fætt Z. desember 2008 en áætlaður fæðingardagur þess var 6. janúar 2009. Í kæru er mótmælt þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að miða útreikning meðaltals heildarlaun hennar við mánuðina júní 2007 til maí 2008. Sá útreikningur að reikna með launum vegna júní 2007 en ekki júní 2008 þegar kærandi var með hærri laun leiði til tekjutaps að fjárhæð um það bil X krónur. Innifalið í útreikningi ættu að vera tveir dagar frá júní mánuði 2007 og 28 dagar frá júnímánuði 2008.

Í kæru er til stuðnings vitnað til 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlofs nr. 95/2000 þar sem segir: „mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlof skal nema 80% af meðaltali heildarlaun og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns“. Í ákvæðinu segi „sex mánuðir“ en ekki fullir almanaksmánuðir.

Þá telur kærandi að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði ættu að miðast við áætlaðan fæðingardag barns frekar en raunverulegan fæðingardag. Nefnir kærandi í því sambandi að þegar fólk áformi barneignir sé mikilvægt að það geti áætlað laun á tímabilinu og einnig eru nefndar aðstæður þegar að barn fæðist fyrir tímann.

 

Með bréfi, dagsettu 23. janúar 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 29. janúar 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 24. nóvember 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, yrði X krónur á mánuði miðað við 100% orlof. Ekki var hægt að senda greiðsluáætlun þar sem barn var ekki fætt. Þann 13. janúar 2009 var kæranda send greiðsluáætlun þar sem fram kemur hvernig greiðslur til hennar dreifast miðað við fyrirhugaða töku fæðingarorlofs og upplýsingar um útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum.

Í 2. mgr. 13. gr. segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 kemur fram að átt sé við almanaksmánuði.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda var þann Z. desember 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði á tímabilinu júní 2007 – maí 2008 sem kærandi taldist hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði allt tímabilið og taldist því hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 13. janúar 2009 beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 30. janúar 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála bárust ekki frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar- Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 13. janúar 2008.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Ennfremur segir í 2. mgr. 13. gr. i.f. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 74/2008 segir um 8. gr.:

„Lagðar eru til breytingar á viðmiðunartímabili 13. gr. laganna þannig að betra jafnræðis sé gætt milli foreldra óháð því hvenær barn fæðist á árinu. Er lagt til að viðmiðunartímabilið verði miðað við fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur í stað fæðingarársins eða þess árs sem barn kemur inn á heimilið. Gert er ráð fyrir að viðmiðunartímabilið fyrir foreldra sem eru starfsmenn verði tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Hér er átt við almanaksmánuði.“

Þá sagði einnig í athugasemdum við 2. mgr. 13. gr. með frumvarpi því er varð að lögum nr. 95/2000, að miðað sé við almanaksmánuði.

Barn kæranda fæddist Z desember 2008 og skal því samkvæmt framangreindu lagaákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl. mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar fyrir almanaksmánuðina júní 2007 til maí 2008. Ekki er heimilt samkvæmt ffl. að miða við annað tímabil við útreikning á greiðslum til kæranda. Þá kemur skýrt fram í lögunum að við ákvörðun viðmiðunartímabils launaútreiknings skuli miða við sex mánaða tímabil fyrir fæðingardag barns en ekki áætlaðan fæðingardag þess.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar- Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á greiðslum til kæranda staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta