Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 42/2005

Þriðjudaginn, 4. apríl 2005

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. október 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 28. október 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 7. febrúar 2005 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Þann 12. janúar 2005 eignuðumst ég og konan mín litla dóttur. Við vildum taka lögbundið fæðingarorlof og tók konan mín sitt við fæðingu barns síns og mér var tilkynnt að ég gæti tekið mitt í byrjun júlí. Þ. 14.júlí 2005 barst mér bréf þar sem mér var tjáð að ég gæti ekki verið bæði á bótum og í fæðingarorlofi á sama tíma, þ.e.að bætur mínar munu skerðast sem því nemur en er bent á fæðingarstyrk þar sem ég er í námi við B-háskóla. Þá kemur í ljós að vegna alvarlegra veikinda sem ég átti við að stríða á námsviðmiðunartímabilinu þá vantar 1 einingu uppá að ég geti fengið hærri fæðingarstyrkinn, og mér er ekki bent á að ég gæti komið með vottorð til staðfestingar mínum veikindum. Einnig var ég í 40% vinnu á þessum tíma og mér hefur verið bent á af félagsráðgjafa TR að tengja megi saman nám og vinnu við ákvarðanatöku um fæðingarstyrk. Þær upplýsingar urðu til þess m.a. að ég skrifa þessar línur. Eins og dæmið var ranglega lagt upp fyrir mér af TR þá átti ég að fá minna fyrir að taka fæðingarorlof eða fæðingarstyrk heldur en að halda bara áfram á örorkubótum, þannig að ég þáði aðeins fæðingarorlofsgreiðslur fyrsta mánuðinn en fór síðan á örorkubætur aftur. Mín ósk er að dæmið verði reiknað allt uppá nýtt miðað við hærri fæðingarstyrk D krónur á mán. Þannig að ég fái E krónur pr. mán en ekki F krónur eins og raunin var.

 

Með bréfi, dagsettu 31. október 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 21. nóvember 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 17. nóvember 2004, sem móttekin var 23. nóvember 2004, sótti kærandi um greiðslur í fæðingarorlofi vegna væntanlegrar barnsfæðingar 10. janúar 2005. Á umsókn sinni merkti kærandi hvort tveggja við að sótt væri um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrk. Þá merkti kærandi jafnframt hvort tveggja við það á umsókn sinni að hann hefði verið utan vinnumarkaðar og að hann hefði verið samfellt í a.m.k. sex mánuði í fullu námi á síðustu 12 mánuðum.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 23. nóvember 2004, námsferilsyfirlit B-háskóla, dags. 23. nóvember 2004, tvær tilkynningar um fæðingarorlof kæranda, dags. 22. og 23. nóvember 2004 og afrit af launaseðlum fyrir september og október 2004. Þá barst lífeyristryggingasviði þann 25. nóvember 2004, vottorð læknis kæranda, dags. 15. júlí 2004.

Af hálfu lífeyristryggingasviðs var litið svo á að með merkingum kæranda á umsókn hans um greiðslur í fæðingarorlofi óskaði hann eftir því að metið yrði hvort hann ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, hvort hann ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna eða hvort hann ætti rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar. Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 18. janúar 2005, var kæranda gerð grein fyrir að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti hann ekki skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Enn fremur var kæranda gerð grein fyrir að hann ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en að ekki væri hægt að afgreiða umsókn hans fyrr en lagfæringar hefðu verið gerðar á tilkynningum til vinnuveitenda hans þar sem á framlögðum tilkynningum hefði ártal verið misritað.

Þann 25. janúar 2005 barst lífeyristryggingasviði leiðréttar tilkynningar til vinnuveitenda kæranda og námsferilsyfirlit B-háskóla, dags. 13. janúar 2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 7. febrúar 2005, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og honum sent yfirlit yfir væntanlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sem greiddar skyldu fyrir tímabilið 9. júlí til 8. október 2005 samkvæmt framlögðum tilkynningum til vinnuveitenda hans.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 14. júlí 2005, var honum gerð grein fyrir að afgreiðslu umsóknar hans í febrúar hefði láðst að koma á framfæri við hann upplýsingum er tengdust ákvæði 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og rétti hans til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Var þess farið á leit að kærandi tilkynnti hvort hann kysi að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði þó lífeyrisgreiðslur til hans myndu falla niður eða hvort hann kysi að halda lífeyrisgreiðslum sínum og fá samhliða greiddan fæðingarstyrk.

Í framhaldi af þessu bréfi lífeyristryggingasviðs hófust tölvupóstssamskipti milli kæranda og starfsmanns lífeyristryggingasviðs. Með tölvupósti þann 19. júlí 2005 óskaði kærandi eftir að fá greiddan fæðingarstyrk og það sem námsmaður. Þann 20. júlí 2005 barst lífeyristryggingasviði nýtt námsferilsyfirlit kæranda við B-háskóla, dags. 17. mars 2005. Kæranda var svarað með tölvupósti frá starfsmanni lífeyristryggingasviðs þar sem honum var gerð grein fyrir að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ætti hann ekki rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður og að við ákvörðun sína, um hvort hann óskaði þess að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði með þeim afleiðingum að lífeyrisgreiðslur yrðu felldar niður eða hvort hann óskaði eftir að fá greiddan fæðingarstyrk samhliða lífeyrisgreiðslum, yrði hann að ganga út frá því að hann fengi greiddan fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar. Þann 23. júlí 2005 svaraði kærandi með tölvupósti að hann tæki þá fæðingarorlof eins og upphaflega hefði verið ákveðið.

Þann 3. ágúst 2005 barst lífeyristryggingasviði tilkynning kæranda, dags. 2. ágúst 2005, þar sem fram kom að hann ætlaði ekki að taka fæðingarorlof frá 1. ágúst 2005. Var kæranda af því tilefni send ný greiðsluáætlun, dags. 5. ágúst 2005, sem bar með sér að honum yrði aðeins greitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir hluta júlí 2005.

Í kæru sinni gerir kærandi þá kröfu að greiðslur til hans í fæðingarorlofi verði miðaðar við greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 12. janúar 2005 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að líta hvort tveggja til náms hans á vorönn og haustönn 2004.

Samkvæmt námsferilsyfirliti B-háskóla, dags. 17. mars 2005, var kærandi skráður við nám við skólann bæði á vorönn og haustönn 2004. Á vorönninni 2004 var kærandi skráður í nám til 13 eininga, lauk hann 9 einingum en féll í einu námskeiði sem var til 4 eininga. Á haustönninni 2004 var kærandi skráður í nám til 10 eininga og náði þeim öllum. Á sumarönninni 2004 lauk kærandi enn fremur einu námskeiði til viðbótar, sem var 4 eininga nám. Kærandi var upphaflega skráður í það námskeið á haustönn 2003 og tók þá próf í því en féll. Lífeyristryggingasvið hafnaði kröfu kæranda um að bæta þessum 4 einingum við nám hans á vor- eða haustönn 2004, þar sem lífeyristryggingasvið hefur talið rétt að meta námskeið sem tekin eru upp á sumarönn inn á þá önn sem nemandi var upphaflega skráður í námskeiðið.

Þegar um er að ræða nám við B-háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11 - 15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Með hliðsjón af því og framangreindum upplýsingum um nám kæranda á vor- og haustönn 2004 telst hann ekki uppfylla það skilyrði fyrir fæðingarstyrk námsmanna að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 fyrir fæðingu barns hans.

Nokkrar undanþáguheimildir er að finna frá skilyrðinu um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þá segir í 19. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna skilgreindra heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Lífeyristryggingasvið fær ekki séð að nokkur þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, eigi við um aðstæður kæranda.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, eins og gert var með bréfi, dags. 18. janúar 2005.

Kærandi var af hálfu lífeyristryggingasviðs talinn uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, þ.e. að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns hans. Voru mánaðarlegar greiðslur Fæðingarorlofssjóðs til hans reiknaðar samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof sem 80% af meðaltali heildarlauna hans á síðustu tveimur tekjuárum á undan fæðingarári barns hans og var einungis miðað við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem hann hafði starfað á innlendum vinnumarkaði og var í því sambandi horft til skilgreininga 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004.

Telur lífeyristryggingasvið að útreikningar á greiðslum til kæranda hafi verið rétt útfærðir á grundvelli ákvæða laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks og að greiðsluyfirlit til kæranda, dags. 7. febrúar 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlofs á foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi ekki rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þar sem kærandi átti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi og átti enn fremur rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, var honum gert með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 14. júlí 2005, að velja milli þess að fá annað hvort greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með þeim afleiðingum að lífeyrisgreiðslur til hans samkvæmt lögum um almannatryggingar féllu niður það tímabil sem hann nyti greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða sleppa því að fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði en fá áfram lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og var honum þá boðið að fá greiddan fæðingarstyrk, sem foreldri utan vinnumarkaðar, samhliða lífeyrisgreiðslunum.

Með vísan til fyrrnefnds ákvæðis 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof telur lífeyristryggingasvið að óheimilt sé að greiða kæranda samtímis úr Fæðingarorlofssjóði og lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og að því hafi verið rétt að fela honum að meta hagsmuni hans og hvorar greiðslurnar hann vildi þiggja.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. nóvember 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust með bréfi dagsettu 25. nóvember 2005. Þar sem fram kemur að kærandi kveðst hafa tekið ranga ákvörðun um tilhögun fæðingarorlofs vegna óvandaðra vinnubragða Tryggingastofnunar ríkisins. Síðan segir: „Ég skilaði inn vottorði vegna veikinda sem ég átti í , og vonaðist til að tillit yrði tekið til þess varðandi þessa einu einingu en eftir mikið þjark að ná sambandi við einhvern sem vissi eitthvað var mér tjáð símleiðis af starfsmanni TR að mjög sennilega fengi ég aðeins lægri upphæðina í fæðingarstyrk.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. Þá telur kærandi sig hafa fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 12. janúar 2005. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 12. janúar 2004 fram að fæðingu barns.

Kærandi var við nám í B-háskóla en þar er almennt miðað við að 100% nám sé 15 einingar á misseri. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hans á vor- og haustmisseri 2004. Á vormisseri 2004 var kærandi skráður í 13 eininga nám. Hann lauk 9 einingum en féll í einu fjögurra eininga fagi. Á sumarmisseri 2004 lauk kærandi 4 eininga fagi sem hann hafði upphaflega verið skráður í haustmisseri 2003 en fallið í. Á haustmisseri 2004 var kærandi skráður í og lauk 10 eininga námi. Samkvæmt því uppfyllir kærandi ekki skilyrði um a.m.k. sex mánaða fullt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Í ffl. eða reglugerð nr. 1056/2004 er ekki að finna heimild til undantekninga frá skilyrði um a.m.k. sex mánaða fullt nám á viðmiðunartímabilinu vegna veikinda föður.

Kærandi telur sig hafa tekið ranga ákvörðun um tilhögun fæðingarorlofs vegna ófullnægjandi upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um rétt hans. Samkvæmt 32. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 skal Tryggingastofnun ríkisins sjá til þess að allar upplýsingar um réttindi foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og til greiðslu fæðingarstyrks verði aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Þá hvílir á Tryggingastofnun leiðbeiningaskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi hafði verð metinn 75% öryrki og fékk samkvæmt því greiddar lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Hann var jafnframt á vinnumarkaði og uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt því átti hann rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt á lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar sbr. 2. mgr. 33. gr. ffl. Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins var kæranda gefinn kostur á að velja hvort hann fengi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og engan lífeyri eða fengi lífeyrisgreiðslur ásamt greiðslu fæðingarstyrks. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála telur að kærandi eigi rétt á leiðréttingu á greiðslum hafi val hans milli greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks leitt til óhagstæðrar niðurstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta