Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 56/2005

Þriðjudaginn, 4. apríl 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. desember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 7. desember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 4. október 2005 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Til viðmiðunar gefur RSK upp, að laun tónlistarfólks skuli vera um X krónur til þess að teljast 100% starf... Þarna er eins og Ríkisskattstjóri bendir réttilega á í sínu bréfi verið að miða við heildarlaun samanburðarhópa og því ekki hægt að miða 100% starfshlutfall við þá tölu.

Til samanburðar fer tónlistarskólakennari með kennarapróf í tónlist, í launaflokk B og fær fyrir 100% starf X krónur (miðað við launatöflu 1. ágúst 2005 hjá FT). Þess má geta að hann á aldrei möguleika á að vinna sig svo upp í starfi að hann fái X krónur í laun sem tónlistarkennari – hvaða menntun, prófaldri eða lífaldri sem hann kann að ná.

Jafnvel fyrsti konsertmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands (eitt virðingamesta embætti sem tónlistarmaður getur haft) nær ekki þessari upphæð (miðað við launatöflu FÍH).

Aðalstarf okkar sem tónlistarmanna er að syngja í jarðarförum og þá oftast í 8-10 manna hóp. Svo sett sé fram lítið dæmi eru laun á mann í 9 manna sönghópi í jarðaför X krónur /skv. launatöflu FÍH), sem þýðir að til þess að ná X krónur á mánuði þarf að syngja í 51 jarðarför á mánuði allt árið, þ.e. 612 athöfnum á ári. Árið 2004 létust 1.823 á Íslandi (skv. vef Hagstofunnar), þar af hefur væntanlega ekki verið sungið yfir öllum, ekki eru allir jarðsungnir í Reykjavík og síðan fara oft fram nokkrar jarðarfarir á sama tíma sem ómögulegt er að vera í öllum í einu.

Þannig að laun okkar fyrir jarðarfararsöng eru mun sambærilegri við laun tónlistakennara og annarra tónlistarmanna skv. launatöflum, en viðmiðunartölu RSK (sbr. hér að framan).“

 

Með bréfi, dagsettu 9. desember 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 2. janúar 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 7. júlí 2005, sem móttekin var sama dag, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá 1. september 2005 að telja, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 28. ágúst 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 4. maí 2005, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 7. júlí 2005, staðfesting frá H-skóla, dags. 31. maí 2005, yfirlit I vegna júní 2005, launaseðlar fyrir mars, apríl og maí 2005 og skilagreinar vegna opinberra gjalda fyrir mars, apríl og maí 2005. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 11. ágúst 2005, var henni gerð grein fyrir að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og henni gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til staðfestingar á rétti hennar til greiðslna.

Í framhaldi af bréfi lífeyristryggingasviðs hafði kærandi símasamband við starfsmann sviðsins og sendi tölvupóst, þar sem hún gerði grein fyrir röksemdum sínum og athugasemdum.

Lífeyristryggingasvið taldi sér ekki fært að fallast á röksemdir kæranda og synjaði umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með bréfi, dags. 4. október 2005.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Enn fremur segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tíma.

Samfellt starf er skilgreint í 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, þar sem segir að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um starfshlutfall. Þar segir í 5. mgr.: „Þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir“

Barn kæranda er fætt þann 31. ágúst 2005. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá 28. febrúar til 30. ágúst 2005. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 28. febrúar til 30. ágúst 2005.

Við mat á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði leit lífeyristryggingasvið, á grundvelli 4. mgr. 15. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, til upplýsinga úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi á framangreindu viðmiðunartímabili greiddar tekjur frá J-skóla í mars X krónur, í apríl X krónur og í maí X krónur og frá M í júlí X krónur. Þá var kærandi og skráð með reiknað endurgjald á viðmiðunartímabilinu, sem hún hafði áætlað X krónur á mánuði og var skráð í starfaflokk F. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, sem lágu fyrir þegar unnið var með umsókn kæranda, hafði hún reiknað sér laun sem sjálfstætt starfandi að fjárhæð X krónur í febrúar, X krónur í mars X krónur í apríl, X krónur í maí og X krónur í júní.

Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og þess að í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2005 segir um starfaflokka og viðmiðunarfjárhæðir, að fjárhæðirnar sem þar séu gefnar upp séu lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald manna sem vinna m.a. við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, taldi lífeyristryggingasvið rétt að fara eftir viðmiðunarfjárhæð mánaðarlauna, X krónur í starfaflokki F, sem kærandi var skráð í, á þann hátt að viðmiðunarfjárhæðin gæfi upplýsingar um lágmarksviðmiðun fyrir fullt starf (100% starf) vegna þeirra starfa sem kærandi stundaði sem sjálfstætt starfandi.

Á grundvelli þessarar túlkunar lífeyristryggingasviðs á ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar taldi lífeyristryggingasvið fyrirliggjandi upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra ekki sýna fram á að kærandi hefði verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á sex mánaða viðmiðunartímabilinu og var kæranda af þeim sökum sent bréf, dags. 11. ágúst 2005. Í bréfinu kom m.a. fram að lífeyristryggingasvið teldi, á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og var kæranda gefinn kostur á að leggja fram staðfestar upplýsingar um launatekjur hennar þá mánuði viðmiðunartímabilsins sem ætla mátti að hún hefði verið í innan við 25% starfi.

Kærandi kom röksemdum sínum og athugasemdum, þess efnis að viðmiðunarfjárhæðir í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald væru miðaðar við heildarlaun samanburðarhópa og því ekki hægt að miða 100% starfshlutfall við þá fjárhæð, á framfæri við stafsfólk lífeyristryggingasvið, bæði símleiðis og með tölvupósti.

Lífeyristryggingasvið taldi sér ekki fært að fallast á röksemdir kæranda, enda örðugt að sjá hvernig hægt væri að meta starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris með því að fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, eins og kveðið er á um í 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, öðru vísi en með því að líta svo á að viðmiðunarreglurnar veittu upplýsingar um 100% starf. Umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var því synjað með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 4. október 2005.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 5. janúar 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Ágreiningur í máli þessu varðar rétt kæranda til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

„a.  orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b.  sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

d.  sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

e.  sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa. sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.“

Kærandi ól barn 31. ágúst 2005. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 28. febrúar 2005 til fæðingardags barns.

Staðfest er að kærandi var skráð hjá ríkisskattstjóra sem sjálfstætt starfandi með áætlun um reiknað endurgjald X krónur á mánuði árið 2005 í starfaflokki F. Mánuðina mars, apríl og maí 2005 var kærandi í 80% starfi hjá J-skóla. Þessa mánuði gerði kærandi mánaðarlega skil á tryggingagjaldi og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem var hærra en áætlunin. Í júní var reiknað endurgjald kæranda sem sjálfstætt starfandi X krónur í júlí reiknað endurgjald X krónur og laun frá fyrirtækinu M. X krónur og reiknað endurgjald kæranda í ágúst X krónur.

Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald 2005 var viðmiðunarfjárhæð mánaðarlauna samkvæmt starfaflokki F X krónur. Reiknað endurgjald kæranda í júní 2005 nam X krónum sem er undir 25% af viðmiðunarfjárhæð samkvæmt reglum ríkisskattstjóra. Þá liggur ekki fyrir hvert umfang starfs var í júlí 2005 hjá M.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að fá greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem hún var ekki í a.m.k. 25% starfi á innlendum vinnumarkaði alla sex mánuðina fyrir upphafsdag fæðingarorlofs sbr. regla 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi foreldris.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta