Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 2/2010

Fimmtudaginn 4. mars 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. janúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 7. janúar 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. desember 2010, um að synja kæranda um fæðingarstyrk til foreldris í fullu námi.

Með bréfi, dags. 13. janúar 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 25. janúar 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. janúar 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2010.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi í september síðastliðnum sótt um fæðingarstyrk námsmanna hjá Fæðingarorlofssjóði. Umsókninni hafi verið synjað 30. nóvember 2009 á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám eins og það sé skilgreint í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1056/2004. Reglugerðin sem vísað sé í og synjunin byggðist á hafi reyndar verið felld niður árið 2008 og reglugerð nr. 1218/2008 komið í staðinn. Í nýju reglugerðinni sé fullt nám skilgreint í c-lið 2 gr. og því vísi hann í þá grein til rökstuðnings í stað 18. gr. 1056/2004.

Kærandi greinir frá því að af ákvörðuninni megi skilja að önn í námi skuli hefjast og ljúka á ákveðnum dagsetningum sem miðist við hefðbundið skólaár, þ.e. haustönn skuli hefjast í september og ljúka í desember, og vorönn hefjast í janúar og ljúka í maí. Þar sem lokahluti námsins sé sjálfstæð vinna að lokaritgerð sé hann ekki bundinn af því að fylgja annakerfi á þessum tíma í náminu. Hann geti því hafið vinnu við lokaritgerð á þeirri dagsetningu sem honum henti best. Lágmarkstími frá því að vinna við lokaritgerð hefst og þar til námi lýkur með munnlegri vörn sé sjö mánuðir í B-háskóla. Inni í þeim tíma sé ekki gert ráð fyrir þeirri vinnu sem fram fari áður en samstarf með leiðbeinanda geti hafist.

Kærandi hafi byrjað ritgerðarvinnuna í október og hún fari því óhjákvæmilega fram á tímabili sem tvær hefðbundnar skólaannir spanni. Hann virðist því samkvæmt ákvörðuninni ekki passa inn í skilgreiningu laganna um fullt nám af þeim sökum að síðasta önn hans sé lengri og byrji og endi á öðrum dagsetningum en önn á hefðbundnu skólaári.

Kærandi kveður löggjafann hafa vert ráð fyrir að aðstæður eins og hans, þ.e. að síðasta ár í námi fylgi ekki hefðbundnu annakerfi, gætu komið upp, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 þar sem kveðið sé á um undanþágu vegna námsloka foreldris.

Kærandi hafi sótt um fæðingarstyrk á grundvelli 16. gr. reglugerðarinnar og stutt umsóknina með bréfum frá skóla sem staðfesti að hann sé á síðustu önn í námi, að hann eigi einungis eftir að skila og verja lokaritgerð til að útskrifast og staðfestingu um að hann hafi í byrjun apríl 2009 verið búinn að ljúka a.m.k. 75% af lokaritgerðinni en barnið sé fætt Y. apríl 2009.

Beiðni kæranda hafi verið synjað með bréfi, dags. 8. desember 2009, með þeim rökstuðningi að samkvæmt framlögðum gögnum hefði hann hvorki verið í fullu námi haustið 2008 né verið að ljúka ákveðinni prófgráðu á þeirri önn sem barnið fæddist, því hafi ákvæði 16. gr. ekki átt við í hans tilfelli.

Frekari skýringar hafi ekki fylgt en Fæðingarorlofssjóður hafi staðfest í tölvubréfi að byggt væri á 16. gr. reglugerðarinnar, um undanþágu vegna námsloka foreldris.

Varðandi þann þátt synjunarinnar að kærandi hafi ekki verið í fullu námi á haustönn 2008 segir kærandi að í fyrri ákvörðuninni, frá 30. nóvember, hafi umsókn hans verið hafnað á þeirri einu forsendu að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr. (18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004). Þar með hljóti hann að uppfylla önnur skilyrði 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).

Kærandi telur að um mistúlkun Fæðingarorlofssjóðs á lögunum sé að ræða. Í 19. gr. ffl. sé vissulega sett sem skilyrði fyrir fæðingarstyrk að námsmaður hafi stundað fullt nám, en í 16. gr. reglugerðarinnar sé þetta skilyrði undanþegið.

Hvað varðar þann hluta synjunarinnar sem lýtur að því að kærandi hafi ekki verið að ljúka ákveðinni prófgráðu á þeirri önn sem barnið fæddist, segir kærandi að í bréfum frá skóla sínum sé í fyrsta lagi staðfest að hann hafi verið búinn með a.m.k 75% af vinnunni við lokaritgerðina í byrjun apríl 2009. Í öðru lagi að hann sé á síðustu önn í námi sem felst í því að skrifa og verja lokaritgerð. Í þriðja lagi að þegar hann ljúki þeirri önn þá útskrifist hann með tiltekna prófgráðu.

Í 16. gr. reglugerðarinnar séu þrjú skilyrði fyrir undanþágu talin upp, þ.e. umsækjandi á eftir minna en sem nemur 75% námi, umsækjandi sé á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi sé að ljúka tiltekinni prófgráðu. Önnur séu skilyrðin ekki, að undanskildu því að vísað sé í önnur skilyrði 19. gr. ffl. eins og hann hafi áður minnst á, og Fæðingarorlofssjóður hafi staðfest með ákvörðun 30. nóvember 2009 að hann uppfylli.

Í reglugerðinni sé sem sagt ekki skilyrði að námi skuli ljúka á sömu önn og barnið fæðist, en á því hafi synjunin byggst. Einungis sé farið fram á að ljóst sé að viðkomandi sé á síðustu önn í námi, sé að ljúka ákveðinni prófgráðu og sem mælikvarði á það sé sett sem skilyrði að minna en sem nemi 75% af náminu sé ólokið.

Sé túlkun Fæðingarorlofssjóðs á 16. gr. notuð, og gæta eigi jafnræðis á milli umsækjenda, sé í raun verið að segja að fæðingarstyrkur sé ekki veittur á grundvelli 16. gr. nema að námi sé að fullu lokið með prófgráðu og að námslok hafi fylgt hefðbundnu annakerfi skólaárs.

Að mati kæranda sé túlkun Fæðingarorlofssjóðs veruleg þrenging á skilyrðum 16. gr. reglugerðarinnar, og í mótsögn við tilgang greinarinnar, og því sé ekki hægt að hafna umsókn hans á þessum forsendum.

Eftir að dóttir kæranda fæddist hafi hann ákveðið að taka fæðingarorlof frá ritgerðarsmíðinni, og útskrift hans tefjist því sem því nemi. Að öðrum kosti hefði hann klárað námið vorið 2009.

Í ffl. sé foreldrum á vinnumarkaði tryggður réttur til þriggja til sex mánaða fæðingarorlofs, sem stofnist við fæðingu barns. Þarfir barns til að njóta samvista við foreldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns, sé ekki annar hjá börnum námsmanna en börnum almennt. Það væri því brot á réttindum barna námsmanna ef að foreldrar þeirra gætu ekki valið að taka fæðingarorlof á fyrstu mánuðum ævi þeirra, á sama hátt og útivinnandi foreldrar, af því það fyrirgerði rétti foreldranna til fæðingarstyrks. Það að hann hafi valið að nýta sér þennan rétt, og sé þess vegna ekki „að ljúka prófgráðu á þeirri önn sem barnið fæddist vorið 2009 geti ekki verið rök til synjunar. Enda sé ekki minnst á þetta skilyrði í 16. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan í framangreinds óskar kærandi eftir því að synjun Fæðingarorlofssjóðs frá 8. desember 2009 verði felld úr gildi og hann fái fæðingarstyrk námsmanna á grundvelli undanþágu frá því að uppfylla skilyrði um fullt nám skv. 16. gr. reglugerðarinnar.

Í viðbótarathugasemdum kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs bendir kærandi á að hann hafi fengið tvær ákvarðanir frá Fæðingarorlofssjóði vegna um umsóknar um fæðingarstyrk námsmanna.

Í fyrri ákvörðuninni, dags. 30. nóvember 2009, hafi umsókninni verið hafnað vegna þess að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám eins og það sé skilgreint í lögunum. Við þessa ákvörðun hafi kærandi ekki gert neinar athugasemdir, en tekur fram að í þeirri ákvörðun hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umsókn hans varðandi aðra þætti 19. gr. en þá sem lúti að fullu námi.

Seinni ákvörðunin, dags. 8 desember 2009, sé grundvöllur kæru hans. Þar hafi beiðni hans um undanþágu frá fullu námi, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar, verið hafnað á þeim forsendum að hann hafi hvorki verið í fullu námi haustið 2008 né verið að ljúka ákveðinni prófgráðu á þeirri önn sem barnið fæddist vorið 2009. Hann finni ekki frekari skýringar fyrir synjuninni sem lúti að því að hann hafi ekki verið að ljúka ákveðinni prófgráðu á þeirri önn sem barnið fæddist, en skýrt sé hvers vegna sjóðurinn telji að hann þurfi að hafa verið í fullu námi haustið 2008 til þess að hljóta styrkinn. Sjóðurinn hafi nefnt tvö atriði sem hann telur að séu ekki nægjanlega skýr í ljósi þeirra gagna sem sjóðurinn hafi undir höndum, annars vegar að erfitt sé að ráða hvort kærandi hafi verið skráður í fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og hins vegar að óljóst sé hvort kærandi hafi verið skráður í lokaritgerð á því tímabili.

Með vísan til þess sem fram komi í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs telur kærandi vafalaust að hann hafi verið skráður í fullt nám á tímabilinu, þótt hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um að vera í fullu námi eins og það sé skilgreint í lögunum.

Kæranda virðist sem deilan snúist um hvort hann uppfylli þau önnur ákvæði 19. gr. ffl. sem uppfylla þurfi skv. 16. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi telur að sjóðurinn sýni hentistefnu þegar ákveðið sé hvort þau tímabil sem nefnd séu í lögunum eigi við annir eða mánuði. Annir séu notaðar þegar það hentar en annars mánuðir. Þannig sé til dæmis í greinargerðinni miðað við tólf mánaða tímabil frá fæðingu barns. Þar sem barnið sé fætt Y. apríl 2009 þá telji það ekki með að hann hafi lokið þriðju önninni þann 3. mars 2008. Önn sem sé lokið í mars 2008 ætti samkvæmt almennri skilgreiningu Fæðingarorlofssjóðs í greinargerðinni að falla undir vorönn og teljast honum því til tekna.

Þá hafi komið fram í greinargerðinni að á meðan á umsóknarferlinu stóð hafi ítrekað verið óskað eftir upplýsingum frá kæranda, án þess að hann hafi orðið við því, en þessu hafnar kærandi. Honum sé ekki sama um persónuupplýsingar um sig og hvar þær liggi frammi og finnst honum sjóðurinn sýna því lítinn skilning.

Kærandi rekur ítarlega tölvupóstssamskipti sín við Fæðingarorlofssjóð í umsóknarferlinu, sem ekki er talin ástæða til að rekja frekar hér, og að hann hafi sent umbeðin gögn til sjóðsins með tölvubréfi, dags. 25. nóvember 2009. Frá þeim degi og þar til ákvörðunin barst honum hafi hvorki verið gerðar athugasemdir við gögnin sem hann sendi né beðið um frekari gögn. Kærandi kveðst ekki finna neina beiðni um slík gögn frá 25. nóvember 2009 og fram að ákvörðuninni 8. desember 2009. Hafi sjóðurinn á hinn bóginn tekið ákvörðun, vitandi að gögn vantaði, og án þess að reyna að afla þeirra, þá hljóti það að vera skýlaust brot á rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Eftir að ákvörðunin var kærð hafi borist tölvubréf frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 21. janúar 2010, þar sem óskað hafi verið eftir því að kærandi gæfi B-háskóla leyfi til að veita sjóðnum frekari upplýsingar um hann. Kærandi hafi svarað að það væri sjálfsagt og beðið um að spurningarnar yrðu sendar á sig og hann kæmi þeim svo til skila. Hinn 22. janúar 2010 hafi því verið hafnað og hann beðinn um að veita B-háskóla opið leyfi til að svara spurningum. Þessu hafi kærandi hafnað.

Síðar hafi komið í ljós að sjóðurinn hafi að kæranda forspurðum reynt að nálgast persónuupplýsingar um hann en verið hafnað á grundvelli laga um persónuvernd. Þetta hafi valdið trúnaðarbresti milli kæranda og sjóðsins og því hafi kærandi verið tregur til að veita frekari upplýsingar, nema sýnt væri fram á hvað þær hefðu að gera með kæruna og hvað þær hefðu umfram þau gögn sem sjóðurinn hefði fyrir og vísað til laga og reglugerða. Fæðingarorlofssjóður hefði ekki sinnt þessu og því hefði kærandi ekki sinnt þessu heldur, enda telur hann að hann hafi þá þegar veitt nægar upplýsingar.

Loks óskar kærandi eftir því að synjun Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin komi að athugasemdum varðandi vinnulag Fæðingarorlofssjóðs við gagnaöflun.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 8. september 2009, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna barnsfæðingar Y. apríl 2009.

Þann 23. september 2009 hafi kæranda verið sent bréf þar sem tiltekið hafi verið hvaða gögn vantaði svo unnt væri að afgreiða umsókn hans. Hafi meðal annars verið óskað eftir staðfestingu á skólavist kæranda og námsframvindu síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag barns, staðfest af skóla með undirskrift og stimpli.

Gögn hafi borist og auk umsóknar kæranda voru fæðingarvottorð, dags. 19. júní 2009, faðernisviðurkenning, dags. 16. apríl 2009, staðfesting á því að kærandi eigi ekki rétt til greiðslna í C-landi, dags. 13. október 2009, og þrjú vottorð frá B-háskóla, dags. 19. október og 16. og 23. nóvember 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar af heimasíðu skólans og fjöldi tölvupósta milli kæranda og Fæðingarorlofssjóðs.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 30. nóvember 2009, hafi honum verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem af framlögðum gögnum hafi ekki verið annað séð en hann uppfyllti ekki skilyrðið um fullt nám þar sem svo hafi virst að 30 ECTS ritgerð hafi verið dreift á tvær annir, þ.e. haustönn 2008 og vorönn 2009.

Kærandi hafi þá óskað eftir með tölvubréfi að sér yrði veittur fæðingarstyrkur á þeim forsendum að hann væri á síðustu önn í námi sem lyki með prófgráðu og hann ætti eftir minna en 75% af náminu, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þann 8. desember 2009 hafi kæranda verið send formleg synjun á þeirri beiðni þar sem ekki hafi verið séð að undanþága 16. gr. reglugerðarinnar ætti við í hans tilfelli.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Í 3. mgr. 19. gr. ffl. sé að finna heimild til greiðslu fæðingarstyrks fyrir námsmenn erlendis.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda hafi fæðst þann Y. apríl 2009 og því hafi verið, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, horft til tímabilsins frá Y. apríl 2008 fram að fæðingardegi barnsins.

Þá greinir sjóðurinn frá því að samkvæmt vottorði frá B-háskóla, dags. 19. október 2009, hafi kærandi verið skráður í meistaranám vorið 2008, haustið 2008 og vorið 2009. Í vottorðinu komi fram að kærandi hafi lokið öllum fögum til að útskrifast fyrir utan ritgerð og samkvæmt samningi milli kæranda og B-háskóla hafi lokafrestur til að skila ritgerðinni verið í desember 2009. Í vottorði frá sama skóla, dags. 16. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi Y. apríl 2009 verið búinn að ljúka a.m.k. 75% af ritgerð sinni. Í vottorði frá B-háskóla, dags. 23. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi lokið fyrstu önn í janúar 2007 eða 30 ECTS, annarri önninni í júní 2007 eða 30 ECTS og þriðju önninni þann 3. mars 2008 eða 30 ECTS. Allar þessar annir hafi því fallið utan tólf mánaða tímabilsins. Á vottorðinu komi einnig fram að fjórðu önninni sé ekki lokið en þegar henni verði lokið muni kærandi útskrifast með tiltekna prófgráðu.

Af framangreindum vottorðum frá B-háskóla sé mjög erfitt að ráða hvort kærandi hafi verið skráður í fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Ljóst megi þó vera að kærandi hafi aðeins átt 30 ECTS lokaritgerð eftir á tólf mánaða tímabilinu Y. apríl 2008–Y. apríl 2009. Óljóst sé á hinn bóginn hvenær kærandi hafi verið skráður í lokaritgerð sína á því tímabili, hvort hann skráði sig úr henni á einhverjum tímapunkti og hver námsframvinda hans hafi verið í ritgerðinni fyrir utan að hann virðist hafa lokið a.m.k. 75% af henni þann Y. apríl 2009.

Með 1. mgr. 19. gr. ffl. sé sú skylda lögð á umsækjendur um fæðingarstyrk námsmanna að þeir leggi fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að þeir hafi verið skráðir í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Til þess að uppfylla framangreinda skyldu hafi umsækjendur jafnan lagt fram yfirlit, staðfestingu eða vottorð frá viðkomandi skóla í hvaða fög þeir hafi verið skráðir í hverja önn fyrir sig, fjölda eininga svo og námsárangur í hverju fagi fyrir sig og eftir atvikum staðfestingu á því hvenær önn hafi hafist og hvenær henni hafi lokið eða hvenær þeir hafi skráð sig í tiltekið fag/ritgerð og eftir atvikum úr því ef um það er að ræða sem og aðrar þær upplýsingar sem varpað geti ljósi á fyrirkomulag náms og námsframvindu þeirra. Ekki sé nægjanlegt að umsækjandi sjálfur geri grein fyrir fyrirkomulagi náms síns eða námsframvindu þar sem ákvæðið sé afdráttarlaust um að viðkomandi skóli skuli staðfesta það.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1997, sé að finna rannsóknarreglu laganna en hún leggi þá skyldu á stjórnvald að það skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Samkvæmt þeirri reglu hafi verið litið svo á að þegar mál byrjar að frumkvæði málsaðila, til dæmis með umsókn um tiltekin réttindi, geti stjórnvald beint þeim tilmælum til hans að hann veiti upplýsingar og leggi fram þau gögn sem nauðsynleg eru og með sanngirni megi ætla að hann geti lagt fram án þess að það íþyngi honum um of. Í þeim tilvikum þegar málsaðili komi ekki fram með þau gögn og upplýsingar sem ætlast megi til af honum beri stjórnvaldi á grundvelli rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinnar að tilkynna honum hvaða gögn skorti og leiðbeina honum um hvaða afleiðingar það hafi ef þau berist ekki.

Í tilviki kæranda hafi strax með bréfi, dags. 23. september 2009, verið óskað eftir að hann legði fram staðfestingu um skólavist og námsframvindu síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag barns staðfest af skóla með undirskrift og stimpli. Í tölvupóstum milli kæranda og Fæðingarorlofssjóðs frá 22. október 2009 og fram að synjununum þann 30. nóvember og 8. desember 2009 hafi ítrekað verið reynt að fá kæranda til að leggja fram ítarlegri gögn frá B-háskóla um fyrirkomulag náms, hvenær hann hafi verið skráður í ritgerð og námsframvindu. Kærandi hafi ekki orðið við þeim beiðnum.

Í framhaldinu hafi verið reynt að afla upplýsinga um fyrirkomulag náms kæranda af heimasíðu B-háskóla. Á síðunni komi fram að námið sem kærandi hafi verið í sé tveggja ára nám sem skiptist í fjórar annir og lokaritgerð sé skrifuð á fjórðu önn. Á hverju ári séu því tvær annir. Uppbygging anna sé almennt þannig að haustönn sé frá september–desember og vorönn frá febrúar–júní.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar á önn vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggi um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í ffl. og reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 komi fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni skv. 19. gr. ffl. og 15. gr. reglugerðarinnar þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri á eftir minna en sem nemi 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi sé að ljúka tiltekinni prófgráðu. Skuli foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl.

Framangreind undanþága segir Fæðingarorlofssjóður taka þannig til tilvika þegar foreldri sé á síðustu önn í námi og sé að ljúka tiltekinni prófgráðu en eigi það lítið eftir af náminu að önnin nái ekki vera a.m.k. 75% nám eða 22 einingar. Foreldrið þurfi engu að síður að uppfylla önnur skilyrði 19. gr. ffl. Þar sem tíðast sé að annir í háskólum telja um fjóra mánuði þurfi foreldri jafnan að hafa verið í fullu námi í skilningi laganna önnina á undan þeirri sem undanþágunni sé ætlað að taka til þess að ná a.m.k. sex mánuðum í samfelldu námi á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Að öllu framangreindu virtu sjái Fæðingarorlofssjóður ekki að undanþágan geti átt við í tilviki kæranda.

Þá greinir sjóðurinn frá því að á kærustigi hafi í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 19. gr. ffl. verið reynt að afla frekari gagna um fyrirkomulag, skráningu og námsframvindu ritgerðar kæranda, annars vegar frá B-háskóla og hins vegar frá kæranda sjálfum en án árangurs, sbr. tölvupósta milli kæranda og sjóðsins.

Með vísan til alls framangreinds og með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi verið réttilega synjað með bréfum, dags. 30. nóvember og 8. desember 2009.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi dags. 8. desember 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Í 3. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um heimild til að greiða námsmönnum erlendis.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Sambærilegt ákvæði er einnig í c–lið 2. gr. núgildandi reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sem tók gildi 1. janúar 2009, en ranglega var vísað í ákvæði eldri reglugerðar í ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 30. nóvember 2009.

Barn kæranda fæddist Y. apríl 2009. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, er því frá Y. apríl 2008 fram að fæðingu barnsins.

Kærandi stundaði nám í B-háskóla. Samkvæmt vottorði frá B-háskóla, dags. 19. október 2009, var kærandi skráður í meistaranám sitt vor- og haustönn 2008 og vorönn 2009. Þá segir í vottorðinu að kærandi eigi einungis eftir að skila og verja meistararitgerð sína til þess að útskrifast en samkvæmt samningi á milli kæranda og skólans eigi að skila henni í desember 2009. Í öðru vottorði frá skólanum, dags. 16. nóvember 2009, kemur fram að kærandi hafi lokið a.m.k. 75% af ritgerðinni fyrir Y. apríl 2009. Ennfremur kemur fram í vottorði frá B-háskóla, dags. 23. nóvember 2009, að kærandi hafi hafið nám sitt í septembermánuði 2006 og lokið fyrstu önn námsins 19. janúar 2007, annarri önninni 29. júní 2007 og þeirri þriðju 3. mars 2008. Þá segir í vottorðinu að fjórða og síðasta önnin í námi kæranda felist í skilum á 30 ECTS meistararitgerð.

Samkvæmt gögnum málsins er meistaranám kæranda, tveggja ára nám sem skiptist í fjórar 30 ECTS annir, þar sem síðasta önnin er 30 ECTS mastersritgerð. Fullt nám í fagi kæranda eru því 30 ECTS á önn en fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22,5-30 ECTS á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.

Í vottorðum frá skólanum kemur fram að kærandi lauk þriðju önn námsins 3. mars 2008 sem er áður en viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, hófst þann Y. apríl 2008. Þá kemur einnig fram að Y. apríl 2009 hafi kærandi verið búinn að ljúka a.m.k. 75% (a.m.k. 22,5 ECTS) af umræddri ritgerð.

Kærandi getur samkvæmt framangreindu ekki talist í fullu námi í skilningi 4. mgr. 7. gr. ffl. Kemur þá undanþáguákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 til skoðunar í samræmi við umsókn kæranda þar að lútandi.

Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 19. gr. ffl. þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr. reglugerðarinnar þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að foreldri er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Er tekið fram í ákvæðinu að foreldri skuli jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl.

Úrlausn í máli kæranda veltur þannig á túlkun á umræddu ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Með vísan til þess að um undanþáguákvæði er að ræða ber að mati úrskurðarnefndar að skýra ákvæðið þröngt og verður það ekki skýrt á annan hátt en þann, að ákvæðið heimili einungis undanþágu frá skilyrði um fullt nám síðustu önn í námi, en ekki þannig að skilyrði 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sé að öllu leyti vikið til hliðar. Þykir hin þrengri skýring jafnframt eiga sér stoð í yfirskrift ákvæðis 16. gr. reglugerðarinnar, sem og tilganginum með undanþáguákvæðinu, vísun þess til síðustu annar í námi og í lokamálslið ákvæðisins þar sem tekið er fram að foreldri skuli jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl.

Fyrir liggur að kærandi hafi aðeins átt 30 ECTS lokaritgerð eftir þegar þriðju önn námsins lauk þann 3. mars 2008. Í 1. mgr. 19. gr. ffl. kemur m.a. fram að foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur og er þá átt við í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. málsl. ákvæðisins. Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að þessu skilyrði 19. gr. ffl. hafi verið fullnægt, en einungis er heimilt að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Að mati úrskurðarnefndar styðja þessi atriði þrönga lögskýringu undanþáguákvæðis 16. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til framangreinds, og þess að ekki hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi verið skráður í né lokið fullu námi á haustönn 2008 er að mati úrskurðarnefndar óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sbr. 19. gr. ffl.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli þeirra laga. Úrskurðarnefnd fær ekki séð að upplýsingaöflun Fæðingarorlofssjóðs fari gegn ákvæðum þeirra laga. Þegar af þeirri ástæðu er þeirri kröfu kæranda hafnað að nefndin geri athugasemdir við vinnulag Fæðingarorlofssjóðs við gagnaöflun.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta