Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 80/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 80/2020

Föstudaginn 6. mars 2020

A

 

gegn

B ehf.

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. febrúar 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála meint brot B ehf. á 2. mgr. 11. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

I.  Niðurstaða

Kærandi gerir þá kröfu að viðurkennt verði að sú ákvörðun B að greiða henni ekki fasta mánaðargreiðslu samkvæmt grein X í kjarasamningi aðila, svokallaða dagpeningagreiðslu, sé brot á 2. mgr. 11. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Í ákvæðinu er kveðið á um að þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, sbr. 1. mgr. ákvæðisins, skuli ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Samkvæmt því skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndarinnar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst er af kæru og þeim gögnum sem fylgdu með henni að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun um ágreiningsefni málsins. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015. Kærunni er af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta