Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 53/2008

Fimmtudaginn 22. janúar 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. september 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 19. ágúst 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. júní 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. .

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Með bréfi dags. 19. júní 2008 var undirritaðri tilkynnt að hún uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám og að umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna væri hafnað. Vegna ákvörðunarinnar er í bréfi Fæðingarorlofssjóðs vísað til 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, en samkvæmt henni eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreining á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs er byggð á því að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði um fullt nám. Virðist þá byggt á því að á haustönn 2007 hafi kærandi ekki verið í a.m.k. 75% námi. Í bréfi sjóðsins kemur fram að umsækjandi eigi rétt á lægri fæðingarstyrk sem verði greiddur í 3 mánuði frá 1. júní með því skilyrði að umsækjandi leggi niður launuð störf á þeim tíma.

Umsækjandi getur ekki sætt sig við þessa niðurstöðu sjóðsins og telur nauðsynlegt að kæra ákvörðunina.

Kærandi byggir kæru sína á því að hún hefði ekki getað fullnægt skilyrði um fullt nám skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 95/2004, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 þar sem hún hefði ekki á haustönn 2007 getað tekið fleiri einingar en hún gerði í því námi sem hún er skráð í, sbr. vottorð nemendaskrár B-háskóla en þar kemur fram að kærandi hafði tekið öll námskeið sem hana vantaði inn í námið á haustmisseri. Telur kærandi sig því hafa verið í fullu og samfelldu námi eins og áskilið er í framangreindum ákvæðum. Kærandi telur að við ákvörðun sína hafi Fæðingarorlofssjóði borið að taka tillit til þessa og að ekki sé hægt að krefjast þess af umsækjendum um fæðingarstyrk námsmanna að þeir taki einingar utan síns eiginlega náms til þess eins að ná 75% námi í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000, enda séu þeir í þeim einingum sem þeim stendur til boða í því námi sem þeir stunda. Í framangreindu vottorði kemur jafnframt fram að kærandi áformaði að brautskrást 14. júní 2008 en varð að fresta því vegna veikinda. Með hliðsjón af því að kærandi var komin á lokastig i sínu námi og lauk öllum þeim einingum sem í boði voru á haustönn 2007 telur kærandi að líta hefði átt svo á að hún hafi verið í fullu námi enda ótækt að gera þá kröfu að hún hafi þurft að sækja einingar utan náms síns til þess að fullnægja lágmarki 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000.

Kærandi byggir jafnframt á þeim undantekningum sem koma fram í reglugerð nr. 1056/2004, sbr. 19. og 20. gr. hennar er varða veikindi móður á meðgöngu sem og námslok sem og því að skv. 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist en kærandi er nú í 3 einingum á yfirstandandi önn.

Samkvæmt 19. gr. reglugerðarinnar er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Kemur fram að hún skuli sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Skal móðir jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og 16. gr., sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 20. gr. reglugerðarinnar.“

 

Með bréfi, dagsettu 11. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 22. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 19. júní 2008, var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem hún hefði ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann Z. júní 2008 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y júní 2007 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá Háskóla Íslands stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2007 og vorönn 2008. Var kærandi skráð í 9 einingar á haustönn 2007 eða 60% nám og lauk 6 einingum eða 40% námsframvinda. Á vorönn 2008 lauk kærandi 12 einingum eða 80% námsframvindu. Fullt BS – nám í D-fræði við B-háskóla er 90 eininga þriggja ára nám.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Kjósi nemandi að taka námið á lengri tíma og fari þannig undir 75% námsframvindu á önn getur sú önn jafnframt ekki talist til fulls náms. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns. Er m.a. í 13. mgr. 16. gr. ffl. nr. 74/2008 að finna undanþáguákvæði fyrir móður frá skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skal leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda þar sem hún var ekki skráð í fullt nám, sbr. að framan.

Undanþága 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, á ekki við í tilviki kæranda. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Skal foreldrið jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 16. gr., sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 19. gr. reglugerðarinnar. Undanþágan á því við þegar foreldri hefur verið í samfelldu fullu námi og foreldrið á eftir minna en 75% af náminu á síðustu önn og er að ljúka prófgráðu. Þá er hægt að taka tillit til þeirrar annar en það á ekki við í tilviki kæranda.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 19. júní 2008. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 30. september 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist Z. júní 2008. Með hliðsjón af því er við það miðað að tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl , sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sé frá Z. júní 2007 til 2. júní 2008.

Kærandi stundar nám til BS-prófs í D-fræði við B-háskóla, sem er 90 eininga þriggja ára nám. Samkvæmt því telst 15 eininga nám á önn vera 100% nám og 11-15 einingar á önn teljast því fullt nám í skilningi 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008.

Óumdeilt er að kærandi var skráð í 9 eininga nám á haustönn 2007 sem telst 60% nám og lauk 6 einingum á önninni sem telst 40% námsframvinda. Þá liggur fyrir að kærandi lauk 12 einingum á vorönn 2008 eða 80% námsframvindu. Þegar af þeirri ástæðu að kærandi var ekki skráð og lauk ekki fullu námi á haustönn 2007 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004 um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Hvorki lög né reglugerð heimila að vikið sé frá þessu skilyrði við þær aðstæður sem kærandi vísar til, að henni hafi ekki verið unnt að skrá sig í fullt nám á haustönn 2007.

Samkvæmt 13. mgr. 19. gr. ffl. sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008 og 1. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skal leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla að hún hafi verið skráð í fullt nám. Ekki er unnt að beita undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. í þágu kæranda, þar sem hún uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið skráð í fullt nám.

Samkvæmt 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi sé að ljúka ákveðinni prófgráðu. Gögn málsins bera það með sér að kærandi var haustið 2007 ekki á síðustu önn í námi og verður því undanþáguákvæði 20. gr. ekki beitt um aðstæður hennar.

 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta