Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 78/2002

Mál nr. 78/2002

Þriðjudaginn, 8. apríl 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 23. desember 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. desember 2002. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 18. desember 2002 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Samkvæmt úrskurði, dagsettum 18. desember 2002, hefur mér verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sökum þess að ég hafi ekki verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Í úrskurðinum segir: „Af gögnum sem þú hefur lagt fram sést að þú varst ekki á vinnumarkaði 1. – 6. ágúst s.l. og einnig nærð þú ekki 25% starfi tímabilið 27. september – 4. október sl.

Í reglugerð nr. 909/2000, í 4. gr. er tekið fram að „Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.“

Í sömu grein reglugerðarinnar er tekið fram að: „Til samfellds starfs telst enn fremur: b sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 5. gr. sömu reglugerðar er sagt að starfshlutfall skuli meta með tilliti til vinnustunda í mánuði.

Í ágúst þáði ég atvinnuleysisbætur frá 6. til 18. dags mánaðarins en var komin í fullt starf þann 19. ágúst. Mér reiknast til að það séu 19 af 22 dögum mánaðarins eða rúm 86% af starfstíma þess mánaðar. Tel ég það vera ljóst að ég sé mikið yfir þessum 25% mörkum.

Í september og október er ég sögð utan vinnumarkaðar frá 27. september til 4. október. Samkvæmt þessu er ég í vinnu 19 af 21 degi septembermánaðar (rúm 90%) og í október er ég skráð í vinnu 20 af 23 virkum vinnudögum (um 87%). Það tímabil tel ég mig hafa uppfyllt skilyrðin um amk. 25% starf í hverjum mánuði.

Vera má að útreikningar mínir teljist ekki fyllilega nákvæmir en þeir fara samt mjög nærri lagi.

Á tímabilinu 1. – 6. ágúst stóðu yfir flutningar hjá mér þar sem ég var að flytja frá B til D. Starfi mínu lauk hjá grunnskólanum E, B þann 30. júlí og stóðu yfir flutningar fram í fyrstu viku ágústmánaðar. Þegar ég hafði komið mér sæmilega fyrir skráði ég mig atvinnulausa og var það hinn 6. ágúst.

Á tímabilinu 27. september til 4. október er ég einnig talin að mestum hluta utan vinnumarkaðar. Þann 27. september var frumsýning á leikverki hjá leikfélaginu F sem ég hafði starfað við uppsetningu á. Einnig starfaði ég á sýningum þessa leikverks sem talið var um 17% starf. Ég skráði mig atvinnulausa þann 4. október.

Eftir að frumsýningu lauk og þar til ég skráði mig atvinnulausa var ekki búið að ganga frá því hvernig starfi mínu yrði nákvæmlega háttað og hvert starfshlutfall yrði þannig að ekki var á hreinu hversu hátt starfshlutfallið yrði.

Ég óska að þessum úrskurði verði hnekkt og að ég fái fullar greiðslur úr fæðingarorlofssjóði miðað við upplýsingar um tekjur mínar síðasta árið.

Að fyrstu vil ég einfaldlega benda á hinn mannlega þátt. Ef úrskurðurinn stæði kæmi það sér einkar illa.

Svo vil ég benda á þær greinar reglugerðar nr. 909/2000 sem ég minnist á að ofan.

Ég vil einnig í þessu sambandi benda á 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um leiðbeiningarskyldu. Í samskiptum mínum við alla aðila þessa máls var mér aldrei bent á að nokkurra daga fjarvera frá vinnumarkaði hefði þessi áhrif.

Einnig vil ég benda á 12. grein sömu laga, meðalhófsreglu, og spyr hvort tillit hafi verið tekið til þeirrar reglu við þennan úrskurð. 

Vonast ég til þess að afstaða til þessarar kæru verði tekin svo fljótt sem auðið er enda er fæðingardagur áætlaður 29. desember 2002 og væri ég þakklát að geta notið tímabilsins eftir fæðingu á fullu fæðingarorlofi.“

Með bréfi, dags. 30. desember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 8. janúar 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 29. desember 2002. Til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði hún þurft að vera samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði fyrir þann dag eða frá 29. júní 2002 og starfshlutfall hvers mánaðar hefði þurft að nema a.m.k. 25%.

Samkvæmt framlögðum gögnum með umsókn um greiðslur og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK var kærandi ekki á vinnumarkaði frá 1. – 6. ágúst 2002 og ekki í 25% starfi frá 27. september til 4. október 2001.

Lífeyristryggingasvið lítur svo á að til að skilyrðið um samfellt starf teljist uppfyllt þurfi foreldri að vera í starfi sbr. 1. mgr. 4. gr. rgl. nr. 909/2000 (í ráðningarsambandi) eða ígildi starfs sbr. 2. mgr. 4. gr. rgl. samfleytt í sex mánuði. Komi eyður í ráðningarsamband án þess að a-d liðir 2. mgr. 4. gr. rgl. eigi við teljist starf ekki samfellt í skilningi ffl. jafnvel þótt starfshlutfall mánaðarins fari að meðaltali upp fyrir 25%. Hingað til hafa umsóknir um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verið afgreiddar hjá Tryggingastofnun samkvæmt þessari túlkun. Túlkunin hefur jafnframt verið staðfest af Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, t.d. í úrskurðum nr. 5/2001 og 36/2002. Af þessum ástæðum var kæranda synjað um greiðslur.

Rétt er að geta þess að þann 23. desember sl. bárust lífeyristryggingasviði viðbótargögn frá kæranda. Annars vegar var um að ræða vottorð frá G ehf. þess efnis að kærandi hefði starfað þar 4 tíma á dag dagana 1. – 6. ágúst 2002. Hins vegar var leiðrétting á vinnuvottorði frá leikfélaginu F. Lífeyristryggingasvið telur þessi gögn ekki breyta fyrri afgreiðslu. Í staðgreiðsluskrá RSK verður ekki séð að kæranda hafi verið greidd laun fyrir störf hjá G ehf. á greindu tímabili. Jafnframt stangast vottorðið á við ummæli í kæru (dags 20. desember sl.) en þar segist kærandi hafa verið án starfa fyrstu sex daga ágústmánaðar. Hefur kæranda verið sent bréf þess efnis að hinn kærði úrskurður standi óbreyttur þrátt fyrir gögnin.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. janúar 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. 

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er kveðið á um að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. 

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Kærandi ól barn 11. janúar 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 11. júlí 2002 til fæðingardags barnsins. Kærandi lét af störfum hjá grunnskólanum E 31. júlí 2002. Hún skráir sig atvinnulausa hjá svæðisvinnumiðluninni H 6. ágúst 2002 og fær greiddar atvinnuleysisbætur fram til þess tíma að hún hefur störf hjá leikfélaginu F.

Kærandi greinir frá því í kæru sinni að hún hafi staðið í flutningum á tímabilinu 1. – 6. ágúst 2002, þar af leiðandi hafi hún fyrst skráð sig atvinnulausa þegar hún hafði komið sér fyrir. G ehf. ritar vottorð fyrir kæranda dags. 23. desember 2002 um að hún hafi starfað hjá fyrirtækinu í fjóra tíma á dag frá 1. ágúst til 6. ágúst 2002. Ekkert kemur fram hjá skattyfirvöldum, né í gögnum málsins um að kærandi hafi þegið greiðslur fyrir starfið né að greitt hafi verið af þessum launum viðeigandi gjöld og verður því ekki byggt á vottorðinu. 

Samkvæmt vottorði frá leikfélaginu F, dags. 23. desember 2002 undirritað af rekstrarstjóra félagsins, starfaði kærandi hjá félaginu frá 19. ágúst 2002 til og með 4. október 2002. Frá 4. október 2002 skráir kærandi sig atvinnulausa hjá svæðisvinnumiðluninni H og fær greiddar atvinnuleysisbætur fram til þess að barnið fæðist.

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi með starfi sínu hjá grunnskólanum E áunnið sér rétt til orlofs, sem hún gat tekið í framhaldi af því að hún lætur af störfum hjá skólanum 31. júlí 2002. Samfellt starf samkvæmt a.-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er meðal annars orlof samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi. Kærandi er síðan á atvinnuleysisbótum frá 6. ágúst 2002, sbr. b.-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fram til þess að hún hefur störf hjá leikfélaginu F, en þar starfar hún til 4. október 2002. Frá þeim tíma og fram að fæðingu barnsins fær hún greiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi hefur með störfum sínum samkvæmt framangreindu og með hliðsjón af því sem kemur fram í a. og b. liðum 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar um hvað telst vera samfellt starf, áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hún uppfyllir skilyrði þess að hafa verið samfellt í sex mánaða starfi á innlendum vinnumarkaði fram til upphafsdags fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi skilyrði þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ: 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

  

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta