Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 35/2002

Mál nr. 35/2002

Þriðjudaginn, 21. janúar 2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 12. júní 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B hrl. f.h. A, dags. 11. júní 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 21. maí 2002, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„A sótti um fæðingarstyrk vegna fæðingar barns 8. maí 2002. Mál hennar var afgreitt þannig að fundið var út meðaltal launa hennar á sl. 12 mánuðum og deilt í með 12. Við afgreiðslu TR var ekkert tillit tekið til þeirra sérstöku aðstæðna sem A hafði óskað eftir að gert yrði og lagt fram gögn um.

Umbj. minn lauk stúdentsprófi frá fjölbrautaskólanum D um sl. áramót. Hún hafði einnig á námstíma átt við veikindi að stríða og hafði ekki getað stundað fullt nám á vorönn 2001. Hún hafði því stundað nám í E sumarið 2001, til þess að geta lokið stúdentsprófi um sl. áramót. Þrátt fyrir skólagöngu hafði hún verið í hlutastarfi hjá F flesta mánuði viðmiðunartímabils v/ fæðingarorlofs, en þó ekki alla.

Samkvæmt fylgiskjali með yfirliti um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði kemur í ljós að engin laun voru greidd vegna apríl 2001 og ekki heldur vegna september 2001. Þannig vann umbj. minn einungis í 10 mánuði á viðmiðunartímanum en ekki 12. Samkvæmt læknisvottorði hafði hún ennfremur verið mikið frá í skóla á þessu tímabili. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslna fæðingarstyrks nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi. Samkvæmt þessu virðist sem deila hefði átt í heildarlaun til að finna út viðmiðun með 10 en ekki 12.

Með vísan til ofangreinds, svo og þeirra reglna sem úrskurðanefnd hefur verið að móta um tengsl náms og starfs til fæðingarorlofsréttinda óskast ákvörðun TR endurskoðuð.“

Með bréfi, dags. 12. júní 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. júní 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi er ósátt við fjölda mánaða sem hafður er til viðmiðunar þegar fundnar eru meðaltekjur þær sem mynda grundvöll greiðslna til hennar.

Rétt er að taka það fram að kærandi sótti eingöngu um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, en ekki um greiðslu námsmannastyrks. Hún uppfyllir ekki skilyrðið um sex mánaða samfellt starf, sé eingöngu litið til tímans frá því hún lauk námi og fram að fæðingu barns. Til að réttur til greiðslna úr sjóðnum gæti stofnast var óhjákvæmilegt að líta til tekna á þeim tíma sem hún var enn í námi. Samkvæmt túlkun úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 1/2001 er ekki miðað við það í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) að foreldri sé í meira en 100% námi eða starfi.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafstíma fæðingarorlofs. Barn kæranda er fætt 8. maí 2002 og er viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi því frá mars 2001 til febrúar 2002 að báðum mánuðunum meðtöldum.

Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að meðaltal miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Í greinagerð með frumvarpi til ffl. segir m.a. um 13. gr.: „Mánaðarleg greiðsla til starfsmanns í fæðingarorlofi skal á nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er hér átt við almanaksmánuði. Hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skal miða við heildarlaun þess það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.“

Þessi ákvæði hafa verið skýrð þannig að við útreikning á greiðslum skuli aðeins taka mið af launum þá mánuði viðmiðunartímabilsins sem foreldri er á vinnumarkaði. Hefji foreldri t.d. störf á miðju tímabili skuli aðeins þeir mánuðir sem ráðningarsamband nær til koma til útreiknings.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK var kærandi í starfi hjá F frá og með marsmánuði 2001 og fram á árið 2002. Af launafjárhæðum má ráða að starfshlutfall hafi verið mismunandi milli mánaða. Þótt hún hafi ekki fengið greidd laun í apríl og september var litið svo á við afgreiðslu málsins að engu að síður hafi hún verið í ráðningarsambandi þá mánuði og þeir taldir með við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. niðurstöðu úrskurðar í máli nr. 39/2001.

Telji úrskurðanefndin þá niðurstöðu ranga vekur lífeyristryggingasvið athygli á að laun í mars, júní, ágúst og október 2001 jafngilda ekki 25% starfi eða meiru, og óskar eftir að tekin verði afstaða til þess hvort þessir mánuðir skuli teljast með til útreiknings á greiðslum.

Jafnframt þykir rétt að vekja athygli kæranda á því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist hún uppfylla skilyrði 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 fyrir greiðslu námsmannastyrks, en fjárhæð styrksins nemur 85.798 kr. á mánuði.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. september 2002 og henni gefin kostur á að koma að athugasemdum. Einnig var sent bréf 24. september 2002 þar sem farið var fram á afrit af ráðningarsamningi við þau fyrirtæki sem kærandi tilgreindi í kæru sinni, væru þeir fyrir hendi. Að öðrum kosti var óskað eftir upplýsingum um það hvernig ráðningu var háttað. Þá var óskað eftir upplýsingum um það hvaða ástæður voru fyrir því að engar launagreiðslur voru fyrir hluta þess tímabils sem Tryggingastofnun ríkisins tók sem viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 10. janúar 2002, barst staðfesting F á því að kærandi hafi ekki verið ráðin í fast starf hjá fyrirtækinu, tímabilið janúar til desember 2001 en hafi fengið, íhlaupavinnu og afleysingar þegar því hafi verið viðkomið. Hún hafi fengið ráðningu í starf í janúar 2002. Einnig fylgdi með bréfinu staðfesting G á því að kærandi hafi ekki verið ráðin í fast starf hjá fyrirtækinu árið 2001. Hún hafi eingöngu unnið forfallavinnu þegar því hafi verið viðkomið.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæran varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjölda mánaða sem voru lagðir til grundvallar útreikningi meðaltekna og greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist vegna gagnaöflunar kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofi og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi. Þá kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi ól barn 8. maí 2002. Framangreint tólf mánaða viðmiðunartímabil telst því vera frá og með mars 2001 til og með febrúar 2002. Samkvæmt staðfestingum vinnuveitenda, vann kærandi árið 2001 íhlaupavinnu við afleysingar og forfallavinnu. Í janúar 2002 var hún síðan ráðin í fast starf hjá F. Eins og störfum kæranda á viðmiðunartímabilinu var háttað skal við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eingöngu miða við þá mánuði sem kærandi vann a.m.k. 25% starf sbr. 13. gr. ffl. og 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Samkvæmt framanrituðu er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði felldur úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu til A í fæðingarorlofi er felldur úr gildi. Við útreikning ber eingöngu að leggja til grundvallar þá mánuði og þann fjölda mánaða sem kærandi vann a.m.k. 25% starf. 

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta