Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 356/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 356/2016

Fimmtudaginn 12. janúar 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. september 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 15. júní 2016, um að skerða greiðslu fjárhagsaðstoðar til hans á tímabilinu 1. mars 2016 til 31. maí 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. febrúar 2016, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 31. maí 2016. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 11. apríl 2016, var kæranda tilkynnt að samþykkt hefði verið að veita honum fjárhagsaðstoð að frádreginni greiðslu sem hann ætti rétt á úr lífeyrissjóði. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi 15. júní 2016 og staðfesti þá ákvörðun.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. september 2016. Með bréfi, dags. 19. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 23. september 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. september 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. október 2016, og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Reykjavíkurborg hafi synjað honum um fulla fjárhagsaðstoð á þeirri forsendu að hann geti sótt skert réttindi til lífeyrissjóðs. Að mati kæranda sé sú ákvörðun andstæð lögum og fer hann fram á að synjun Reykjavíkurborgar um fulla fjárhagsaðstoð verði felld úr gildi. Kærandi tekur fram að þegar og ef taka lífeyris hjá lífeyrissjóði hefjist fyrir 67 ára aldur þá verði einstaklingur fyrir óafturkræfri skerðingu. Mismunandi reglur gildi hjá lífeyrissjóðum og sem dæmi heimili Lífeyrissjóður verslunarmanna ekki að sjóðsfélagar sæki sér skert réttindi fyrir 67 ára aldur.

Kærandi tekur einnig fram að þegar einstaklingar séu neyddir með fjárhagslegri hindrun að sækja skert réttindi til lífeyrissjóðs komi það niður á viðkomandi síðar en það sé augljóslega í andstöðu við markmið laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Að mati kæranda sé einnig um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Það að hafna einstaklingum um fjárhagsaðstoð og neyða þá til að sækja skert réttindi í lífeyrissjóð og jafnvel örorkubætur sé ekki í anda framangreindra laga. Kærandi bendir á að á Reykjavíkurborg hvíli sú skylda að gæta þess við afgreiðslu á umsókn kæranda að ekki verði á hann hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem geti notið fjárhagsaðstoðar.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Vísað er til þess að samkvæmt 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar sem meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti.

Vísað er til þess að í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Sú meginregla gildi að umsækjandi fái aðeins greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga nr. 40/1991 sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 4. mgr. 1. gr. reglnanna segi að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skuli kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Í III. kafla reglnanna sé kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar en við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig litið skuli til tekna umsækjanda og maka og eigna umsækjanda.

Reykjavíkurborg tekur fram að það liggi fyrir að kærandi njóti réttar til lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóði en hafi ekki sótt um að hefja töku lífeyris úr sjóðnum. Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóði kæranda hafi hann átt rétt á 2.738 kr. fyrir marsmánuð 2016. Með hliðsjón af 4. mgr. 1. gr. og 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hafi sú fjárhæð því komið til frádráttar við veitta fjárhagsaðstoð þann mánuð en líta verði svo á að kæranda beri að nýta umræddar greiðslur til framfærslu áður en til fjárhagsaðstoðar komi. Því hafi verið samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð að frádreginni þeirri fjárhæð sem hann ætti rétt á úr lífeyrissjóði samtals að fjárhæð 177.812 kr. fyrir marsmánuð. Sömu forsendur fyrir útreikninga hefðu verið lagðar til grundvallar vegna greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir apríl og maí 2016.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri umsókn kæranda um fulla fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 31. maí 2016 á grundvelli 1. og 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Ljóst sé að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að skerða greiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda á tímabilinu 1. mars 2016 til 31. maí 2016.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fulla fjárhagsaðstoð var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 1. og 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Í 4. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, þá skal og kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Í 1. mgr. 12. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur einstaklings/maka í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknist umsækjanda til tekna. Með tekjum sé átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki séu sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skuli reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hafi skilað minnisblaði atvinnuleitanda eða ekki nema framvísað sé læknisvottorði.

Kærandi hefur náð 60 ára aldri og af gögnum málsins má ráða að hann eigi rétt á greiðslum úr nokkrum lífeyrissjóðum. Kærandi hefur hins vegar ekki sótt um að hefja töku lífeyris. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að kæranda beri að nýta þær lífeyrissjóðsgreiðslur sem hann eigi rétt á til framfærslu áður en til fjárhagsaðstoðar komi frá sveitarfélaginu.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 40/1991 er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Reykjavíkurborg veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Ákvæði 4. mgr. 1. gr. reglnanna byggist á þeim grundvelli að eigi umsækjandi um fjárhagsaðstoð rétt til annarra greiðslna eigi viðkomandi ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki verði hjá því litið að kærandi nýtur réttar til lífeyrisgreiðslna, meðal annars úr B-lífeyrissjóði, sem hann getur nýtt sér til framfærslu. Úrskurðarnefndin telur því að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að skerða greiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda á tímabilinu 1. mars 2016 til 31. maí 2016. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 15. júní 2016, um að skerða greiðslu fjárhagsaðstoðar til handa A, tímabilið 1. mars 2016 til 31. maí 2016 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta