Mál nr. 76/2014
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 27. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 76/2014:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjanesbæjar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með kæru, dags. 24. desember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar á umsókn hans um greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið janúar til apríl 2014 og greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar 2014.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur fengið greiddar húsaleigubætur og þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ frá árinu 2012. Með umsókn, dags. 20. maí 2014, sótti kærandi um áframhaldandi greiðslu húsaleigubóta og var samþykkt að greiða honum bætur frá maí 2014. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi óskað eftir greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann frá janúar 2014 og óskað eftir greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar 2014. Umsóknir kæranda voru teknar fyrir á fundum fjölskyldu- og félagsmálaráðs þann 18. og 19. september 2014 þar sem þeim var synjað og var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfum, dags. 24. september 2014.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 24. desember 2014. Með bréfi, dags. 7. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öllum gögnum málsins. Beiðnin var ítrekuð með tölvupóstum 29. janúar, 10. og 20. febrúar 2015. Greinargerð Reykjanesbæjar barst úrskurðarnefndinni 24. febrúar 2015 og var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari gögn bárust frá kæranda með tölvupósti 17. mars 2015. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari gögnum frá Reykjanesbæ þann 1. apríl 2015 og bárust þau með tölvupósti 21. og 22. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2015, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn kæru sinni til stuðnings. Frekari athugasemdir eða gögn bárust ekki frá kæranda.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi greinir frá því að honum hafi tvívegis verið synjað um greiðslu húsaleigubóta, í janúar og maí 2014, á þeirri forsendu að húsaleigusamningur væri útrunninn. Í júlí 2014 hafi hann fengið þær upplýsingar hjá sýslumanninum á Suðurnesjum að hann væri með löglegan samning í gildi. Í september 2014 hafi hann því fengið greiddar húsaleigubætur en ekki fyrir tímabilið janúar til apríl 2014. Kærandi óskar eftir að fá leiðréttingu á þeim greiðslum.
Kærandi greinir einnig frá því að hann hafi óskað eftir fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2014 símleiðis í febrúar 2014. Hann hafi einnig sent tölvupósta á starfsfólk og yfirmann félagsþjónustu Reykjanesbæjar í mars 2014 og átt fund með ráðgjafa í apríl 2014 þar sem hann hafi ítrekað umsóknina og komið henni á framfæri skriflega. Í lok september 2014 hafi hann loks fengið synjun vegna desember 2013 en hann hafi aldrei beðið um leiðréttingu á þeim mánuði. Hann bíði enn eftir fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2014 þrátt fyrir að hafa margoft ítrekað og gengið á eftir þeirri umsókn.
III. Sjónarmið Reykjanesbæjar
Í greinargerð Reykjanesbæjar er vísað til laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur þar sem fram komi að sækja þurfi um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og umsóknin gildi til ársloka. Umsókn skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Til að eiga rétt á sérstökum húsaleigubótum þurfi að uppfylla öll skilyrði almennra húsaleigubóta, sbr. grein 4.4.8 í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð. Ákvörðun um að synja kæranda um almennar og sérstakar húsaleigubætur fyrir tímabilið janúar til apríl 2014 hafi grundvallast á framangreindum lögum og reglum. Ákveðið hafi verið að greiða kæranda húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur fyrir maímánuð þrátt fyrir að umsókn hans hafi ekki borist fyrr en 20. maí 2014.
Varðandi greiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda er greint frá því að hann hafi fengið greiðslur fyrir allt árið 2013, þ.e. fyrir 12 mánuði auk jólabónusar og tannlæknastyrks. Erindi ráðgjafa til áfrýjunarnefndar fjölskyldu- og félagsmálaráðs hafi því verið byggt á misskilningi en líkt og fram komi í kæru snúist deilan um janúarmánuð 2014. Reykjanesbær tekur fram að umsækjendur um fjárhagsaðstoð noti minnisblöð til mánaðarlegrar endurnýjunar á virkri umsókn sinni hjá sveitarfélaginu. Lögð sé áhersla á að minnisblöðin skili sér fyrir 25. hvers mánaðar og það gildi fyrir þann mánuð. Við skoðun á máli kæranda vegna ársins 2014 komi í ljós að hann hafi skilað inn fimm minnisblöðum atvinnuleitanda til endurnýjunar á fjárhagsaðstoð, þar af einu vegna desember 2013. Samkvæmt greiðsluyfirliti fyrir árið 2014 hafi kærandi fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir alla mánuðina ásamt jólabónus og tannlæknastyrk. Það sé ljóst að draga þurfi úr kröfum til kæranda um skil á skriflegum gögnum og efla samvinnu og samskipti milli hans og sveitarfélagsins. Lögð verði áhersla á að greiðslur fjárhagsaðstoðar sem umsækjandi eigi rétt á berist mánaðarlega með reglubundnum hætti samkvæmt gildandi reglum sveitarfélagsins.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjanesbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið janúar til apríl 2014 og greiða kæranda fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2014. Verður fyrst vikið að greiðslu húsaleigubóta.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur segir að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildi umsóknin til ársloka. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða er ekki lagaheimild fyrir því að víkja frá skýrum skilyrðum laganna um að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár fyrir sig og að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslu húsaleigubóta með umsókn, dags. 20. maí 2014, en kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi sótt um fyrr líkt og hann greinir frá í kæru til nefndarinnar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta fyrir tímabilið janúar til apríl 2014.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar greinir kærandi frá því að hann hafi ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2014 þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar um. Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um þær greiðslur sem kærandi hefur þegið frá Reykjanesbæ frá árinu 2012. Af þeim verður ekki betur séð en að kærandi hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir alla mánuði ársins 2014. Hins vegar vekur nefndin athygli á því að yfirlit yfir greiðslur til kæranda eru óviðunandi og torráðin. Þá verður og að brýna fyrir Reykjanesbæ að virða tímafresti sem veittir eru af hálfu nefndarinnar enda hagsmunir kærenda að leyst sé úr málum svo fljótt sem verða má.
Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjanesbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hinar kærðu ákvarðanir.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvarðanir Reykjanesbæjar, dags. 24. september 2014, um synjun á umsóknum A um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann og greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar 2014 eru staðfestar.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal