Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 22/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                          

Miðvikudaginn 1. júlí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 22/2015:

 

Kæra A

á athöfnum

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 13. mars 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. mars 2015, á beiðni um endurupptöku máls vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteignar frá 19. desember 2011.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að með bréfi til Íbúðalánasjóðs, dags. 2. mars 2015, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á endurútreikningi frá 19. desember 2011 vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall. Vísaði kærandi til þess að rangar matsgerðir hefðu verið lagðar til grundvallar endurútreikningnum. Með bréfi, dags. 2. mars 2015, synjaði Íbúðalánasjóður beiðni kæranda á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir ný gögn vegna málsins.

Kærandi lagði fram kæru hjá velferðarráðuneytinu 17. mars 2015 sem framsend var úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi ráðuneytisins, dags. 7. apríl 2015. Með bréfi, dags. 9. apríl 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 20. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. apríl 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 5. maí 2015.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um 110% leiðina á sínum tíma. Tveir frádráttarliðir hefðu lækkað endanlega fjárhæð, þ.e. matsfjárhæð á hluta úr ónýtu húsi og óræktarlandskika og bifreið sem hann hafi haft á kaupleigu en ný gögn varðandi verðmæti fasteignarinnar væri að finna í skattframtali hans. Kærandi tekur fram að þessi ranga niðurstaða 110% leiðarinnar hafi haft áhrif á höfuðstólsleiðréttingu ríkisstjórnarinnar þar sem sú fjárhæð hafi komið til frádráttar. Kærandi óski því eftir leiðréttingu á hinu ranga mati Íbúðalánasjóðs frá árinu 2011 þannig að hann fái rétta höfuðstólsleiðréttingu.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður greinir frá því að kærandi hafi sótt um niðurfærslu skv. 110% leiðinni þann 30. júní 2011. Mál kæranda hafi verið afgreitt á fundi 16. desember 2011 og honum tilkynnt um niðurstöðu ákvörðunar með bréfi, dags. 19. desember 2011. Í bréfinu hafi honum verið bent á að hægt væri að skjóta niðurstöðunni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála innan þriggja mánaða. Í janúar 2012 hafi kærandi gert athugasemdir við mat fasteignasala á tilteknum atriðum en fasteignasalinn hafi staðið við mat sitt. Ákvörðun Íbúðalánasjóðs hafi því ekki verið breytt og kæranda tilkynnt um það með tölvupósti og aftur bent á úrskurðarnefndina. Ekki sé vitað til þess að kærandi hafi skotið ákvörðun frá 16. desember 2011 til úrskurðarnefndarinnar.

 

Með bréfi, dags. 2. mars 2015, hafi kærandi farið fram á að Íbúðalánasjóður leiðrétti meint mistök frá árinu 2011. Kærandi hafi ekki tekið fram í hverju mistökin séu fólgin en fullyrði í bréfinu að matsgerðir sem hafi verið lagðar til grundvallar séu stórlega gallaðar eða beinlínis rangar. Íbúðalánasjóður hafi litið á bréf kæranda sem beiðni um endurupptöku máls en þar sem hann hafi ekki lagt fram ný gögn hafi beiðni hans um endurskoðun verið hafnað, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá séu tímafrestir skv. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að endurupptaka mál kæranda vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteignar frá 19. desember 2011. Í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef annað þessara skilyrða er fyrir hendi:

1.   ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2.   íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 2. mgr. 24. gr. kemur fram að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá segir í ákvæðinu að mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Að mati nefndarinnar hefur hvorki komið fram að niðurstaða í máli kæranda frá 19. desember 2011 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né heldur að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Telur nefndin því óhjákvæmilegt að staðfesta synjun Íbúðalánasjóðs um endurupptöku þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eru ekki uppfyllt.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. mars 2015, um synjun á beiðni A um endurupptöku máls vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteignar frá 19. desember 2011 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta