Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 44/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                      

Miðvikudaginn 14. október 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 44/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

B hrl. hefur, f.h. A, með kæru, dags. 24. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 8. apríl 2015, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 6. janúar 2015, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. janúar 2015, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 8. apríl 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015 skv. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. apríl 2015. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi velferðarráðs og barst hann með bréfi, dags. 27. apríl 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 29. júlí 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 14. ágúst 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. ágúst 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 14. september 2015, sem voru sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. september 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi vísar til þess að kveðið sé á um skyldu sveitarfélaga til að veita fjárhagsaðstoð í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé fjallað um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar í III. kafla reglnanna. Samkvæmt 10. gr. reglnanna skuli við ákvörðun um fjárhagsaðstoð leggja til grundvallar grunnþörf til framfærslu, sbr. 11. gr. og draga frá henni heildartekjur, sbr. 12. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglnanna geti grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili numið allt að 174.952 krónum á mánuði. Við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar skuli allar tekjur einstaklings/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigu-/vaxtabætur, koma til frádráttar, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglnanna. Þá skuli skv. 2. mgr. 12. gr. miða við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá.

Heildartekjur kæranda hafi verið samtals 150.018 krónur og sé aðferðarfræði 10. gr. reglnanna beitt, þannig að heildartekjur séu dregnar frá grunnfjárhæð, þá standi eftir 24.934 krónur. Af því leiði að kærandi skuli, í samræmi við reglurnar, eiga rétt á þeirri fjárhæð í formi fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Ákvörðun þjónustumiðstöðvar um synjun fjárhagsaðstoðar feli því í sér að kærandi njóti ekki þeirrar fjárhagsaðstoðar sem hún eigi rétt á og því sé um ólögmæta ákvörðun að ræða.

Kærandi tekur fram að í 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sé kveðið á um að allar tekjur maka komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Það verði að telja slíka skerðingu óheimila enda í andstöðu við þá grundvallarreglu 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem feli í sér að ríkinu sé skylt að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi sem ákveðið væri á málefnalegan hátt. Slíkt skipulag verði að uppfylla skilyrði jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um að hver einstaklingur njóti jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, svo og almennra mannréttinda. Þessi sjónarmið hafi meðal annars verið staðfest í dómi Hæstaréttar 19. desember 2000, í máli nr. 125/2000.

Að öllu framanrituðu virtu sé ljóst að hin kærða ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar um að staðfesta ákvörðun þjónustumiðstöðvar sé í andstöðu við fyrrgreindar reglur um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og stjórnarskrárbundinn rétt kæranda og þar af leiðandi ólögmæt.  

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Kæranda hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð á grundvelli 2. og 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þar sem samanlagðar tekjur kæranda og eiginmanns hennar hafi verið hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til hjóna. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna.

Um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann eða maki hans geti ekki framfleytt umsækjanda. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sem fjalli um grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar, skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig skuli litið til tekna umsækjanda og maka og eigna umsækjanda. Velferðarráð hafni fullyrðingu kæranda um að fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar til einstaklinga í sambúð/hjúskap brjóti gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Samkvæmt 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Í samræmi við 21. gr. hefur Reykjavíkurborg sett sér reglur um fjárhagsaðstoð þar sem ákveðnar hafa verið grunnfjárhæðir til einstaklinga sem fái fjárhagsaðstoð með tilliti til búsetuforms þeirra. Fjárhagsaðstoð sé neyðaraðstoð og taki meðal annars tillit til þess hvort einstaklingur njóti hagræðis af því að búa með öðrum. Það sé mat Reykjavíkurborgar að hjón/sambúðaraðilar njóti hagræðis af því að halda saman heimili auk þess sem þeim er skylt að framfæra maka sinn og börn. Mat Reykjavíkurborgar á upphæð fjárhagsaðstoðar sé því að mati velferðarráðs málefnalegt og í samræmi við lög.

Ljóst sé að samanlagðar mánaðartekjur kæranda og maka hennar séu 412.880 krónur og því 150.398 krónum hærri en viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir hjón/sambúðarfólk sem sé 262.482 krónur, sbr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og staðfest synjun starfsmanna á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2015. Það verði að telja ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð né ákvæðum laga nr. 40/1991.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt. Þar kemur meðal annars fram að allar tekjur einstaklings/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigu-/vaxtabætur, komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Í 11. gr. reglnanna er kveðið á um grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar en þar kemur meðal annars fram að grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks geti numið allt að 262.482 krónum á mánuði.

Samkvæmt gögnum málsins námu tekjur kæranda, á þeim tíma sem um ræðir, 145.648 krónum á mánuði og tekjur maka hennar 267.232 krónum á mánuði. Samanlagðar tekjur kæranda og maka hennar voru því nokkuð hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð hafi ekki verið uppfyllt í málinu og kærandi hafi því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015.

Kærandi byggir kæru sína á því að skerðing vegna tekna maka, sbr. 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, sé óheimil og í andstöðu við þá grundvallarreglu 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem feli í sér að ríkinu sé skylt að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 64. gr. laganna er fjallað um starfssvið úrskurðarnefndarinnar en þar kemur meðal annars fram að nefndin fjalli um hvort samþykkt þjónusta og upphæð fjárhagsaðstoðar sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar. Að því virtu og í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er það mat úrskurðarnefndarinnar að það geti ekki falist í valdheimildum nefndarinnar að úrskurða um hvort reglur sveitarfélaganna séu í andstöðu 76. gr. stjórnarskrárinnar heldur sé það vald eftirlátið dómstólum.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 8. apríl 2015, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta