Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 402/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 402/2023

Fimmtudaginn 28. september 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. ágúst 2023, um að synja umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 24. maí 2023, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 8. júní 2023, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 9. ágúst 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 30. ágúst 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 5. september 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir kæru en af kærunni má ráða að kærandi sé ósáttur við þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gamall einstæður maður. Kærandi sé flóttamaður frá B og hafi fengið stöðu um alþjóðlega vernd þann 13. janúar 2021. Hann þiggi fjárhagsaðstoð sér til framfærslu og hafi gert það frá því hann hafi fengið stöðu um alþjóðlega vernd. Þann 24. maí 2023 hafi kærandi sótt um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 8. júní 2023, hafi kæranda verið synjað um félagslegt leiguhúsnæði þar sem skilyrði 1. tölul. e. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði haf ekki verið uppfyllt en þar sé kveðið á um að aðstæður einstaklings/hjóna/sambúðarfólks verði að vera metnar til tíu stiga eða meira. Umsókn kæranda hafi verið metin til níu stiga.

Með bréfi, dags. 12. júní 2023, hafi kærandi skotið þeirri ákvörðun miðstöðvar Reykjavíkurborgar til áfrýjunarnefndar velferðarráðs og óskað eftir endurskoðun á ákvörðun stigagjafar. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 9. ágúst 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun umsóknar um almennt félagslegt leiguhúsnæði og mat starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar á stigagjöf vegna umsóknar um almennt félagslegt leiguhúsnæði, sbr. matsblað með reglum Reykjavíkurborgar um almennt félagslegt leiguhúsnæði.“

Kærandi hafi þann 23. ágúst 2023 óskað eftir rökstuðning á ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs og rökstuðningur hafi verið sendur kæranda með bréfi, dags. 30. ágúst 2023.

Um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík gildi reglur sem samþykktar hafi verið í velferðarráði þann 13. mars 2019 og í borgarráði þann 2. maí 2019. Reglurnar hafi tekið gildi 1. júní 2019.

Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna séu sett fram tiltekin skilyrði sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Skilyrði 1. tölul. e. liðar 4. gr. reglna hafi ekki verið uppfyllt en þar sé kveðið á um að aðstæður einstaklings/hjóna/sambúðarfólks verði að vera metnar til tíu stiga eða meira.

Umsókn kæranda hafi verið metin á grundvelli framangreinds matsviðmiðs og hafi niðurstaðan verið sú að kærandi hafi verið metinn til níu stiga. Sumir þættir séu ekki háðir mati, eins og tekjur umsækjanda, en aðrir þættir séu háðir mati, svo sem húsnæðisstaða og félagslegur vandi umsækjanda. Þau atriði sem ekki eigi við í máli kæranda séu staða maka, börn og sérstakar aðstæður barna.

Stig vegna lögheimilis í Reykjavík sé veitt ef umsækjandi hafi átt lögheimili í Reykjavík í meira en 12 mánuði. Kærandi hafi fengið eitt stig undir lögheimili í Reykjavík. Stig vegna stöðu umsækjanda séu metin út frá aðstæðum umsækjanda og séu gefin núll eða tvö stig. Kærandi hafi verið metinn til tveggja stiga og falli undir matsviðmið: „Langvarandi atvinnuleysi og/eða skert starfsgeta. Málefni umsækjanda eru einnig í vinnslu á þjónustumiðstöð eða umsækjandi er í umfangsmikilli endurhæfingu hjá viðurkenndum aðilum.“ Ekki sé unnt að fá fleiri stig undir þessum lið. Stig vegna tekna séu metin út frá árstekjum umsækjanda. Kærandi hafi fengið tvö stig vegna tekna á ársgrundvelli og falli undir matsviðmið: „Árstekjur eru undir kr. 4.310.974.“ Ekki sé unnt að fá fleiri stig undir þessum lið.

Þættir er varði félagslegar aðstæður kæranda séu háðir mati. Stig fyrir húsnæðisstöðu umsækjenda séu metin út frá umfangi húsnæðisvanda og séu gefin núll, eitt, tvö eða þrjú stig. Kærandi hafi verið metinn til tveggja stiga og falli undir masviðmið: „Er með húsnæði/herbergi, skemur en þrír mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi og ekki er möguleiki á framlengingu.“ Til þess að hljóta fleiri stig vegna félagslegra aðstæðna, nánar tiltekið undir húsnæðisstöðu, þurfi umsækjandi að vera húsnæðislaus, gista hjá vinum og/eða ættingjum eða vera á áfangaheimili og hafa lokið að minnsta kosti sex mánaða samfelldri dvöl. Fram komi í greinargerð félagsráðgjafa fyrir áfrýjunarnefnd, dags. 5. júlí 2023, að leigusamningur kæranda myndi renna út þann 31. júlí 2023. Þá hafi einnig komið fram í greinargerð félagsráðgjafa að ekki væri mælt með auka stigi á húsnæðisfundi þar sem stigagjöf þótti endurspegla félagslegar aðstæður kæranda. Þess megi geta að samkvæmt upplýsingum frá félagsráðgjafa hafi kærandi endurnýjað leigusamninginn þann 6. júlí 2023 og gildi hinn endurnýjaði leigusamningur til 30. júní 2024.

Stig vegna félagslegs vanda umsækjenda séu metin út frá umfangi vanda og séu gefin núll, tvö, fjögur, eða sex stig. Félagslegur vandi kæranda hafi verið metinn til tveggja stiga og falli undir matsviðmið: „Umsækjandi glímir við félagslegan vanda sem hefur hamlað því að hann hafi sótt þá þjónustu sem í boði er.“ Til þess að hljóta fleiri stig í félagslegum vanda, þ.e. fjögur stig samkvæmt matsviðmiðum, þurfi félagslegar aðstæður að vera metnar þannig að umsækjandi glími við fjölþættan vanda sem hafi afgerandi áhrif á húsnæðisstöðu og/eða færni til að leigja á almennum markaði, þrátt fyrir stuðning félagsþjónustu eða annarra viðurkenndra aðila. Við mat á því hvort umsækjandi eigi við fjölþættan félagslegan vanda að stríða hafi þau viðmið mótast í framkvæmd að til fjölþætts félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, félagsleg færni takmörkuð og framtaksleysi. Með fjölþættum vanda sé einnig átt við að einstaklingur hafi verið að fá þjónustu frá miðstöð og einnig frá öðrum viðurkenndum þjónustuaðilum og umtalsverðar líkur séu á að hann þurfi á þeirri þjónustu að halda áfram. Ekki hafi verið talið að framangreint ætti við í tilviki kæranda.

Í þeim tilfellum þegar umsækjendur séu metnir til sex stiga séu málefni barna umsækjanda til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur eða upp hafi komið skyndileg alvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á húsnæðisstöðu þar með talið getu viðkomandi til að finna húsnæði samkvæmt mati ráðgjafa. Það eigi ekki við um stöðu kæranda og því ekki heldur unnt að veita fleiri stig hvað þennan þátt varði.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því talið að staðfesta bæri niðurstöðu miðstöðvar um níu stig samkvæmt matsviðmiðum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og þar með synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

Rétt sé að geta þess að með notkun matsblaðsins sé leitast við að gæta jafnræðis meðal umsækjenda og veita þeim stig á grundvelli atriða sem séu nánar tilgreind í matsblaðinu og stigagjöf taki mið af aðstæðum viðkomandi. Það hafi því verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að ekki væri ástæða til að breyta fyrirliggjandi stigagjöf miðstöðvar með vísan til aðstæðna kæranda og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfest synjun starfsmanna miðstöðvar á grundvelli stigagjafar, sbr. e. liður 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Með vísan til alls framanritaðs verði að telja að framangreind ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn framangreindum reglum um félagslegt leiguhúsnæði né lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði e. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a. til e. liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt e. lið 4. gr. skulu umsóknir metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal nr. 1 með reglunum. Við lok mats eru reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skal umsækjandi vera metinn að lágmarki til tíu stiga þegar um er að ræða einstakling líkt og á við í tilviki kæranda.

Í þeim þáttum matsins er varða lögheimili og stöðu umsækjanda fékk kærandi hámarksfjölda stiga sem í boði eru, eða samtals þrjú. Kærandi fékk ekkert stig vegna stöðu maka þar sem það á ekki við. Kærandi fékk tvö stig fyrir tekjur á ársgrundvelli, eða hámarksfjölda stiga sem í boði eru, þar sem tekjur hans eru undir lægsta tekjumarkinu. Í þeim lið matsins sem varðar börn fékk kærandi engin stig þar sem það á ekki við. Húsnæðisstaða kæranda var réttilega metin til tveggja stiga sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við. Sú stigagjöf fellur undir matsviðmið: „Er með húsnæði/herbergi, skemur en þrír mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi og ekki er möguleiki á framlengingu.“ Til þess að hljóta fleiri stig vegna félagslegra aðstæðna, nánar tiltekið undir húsnæðisstöðu, þarf umsækjandi að vera húsnæðislaus, gista hjá vinum og/eða ættingjum eða vera á áfangaheimili og hafa lokið að minnsta kosti sex mánaða samfelldri dvöl. Af greinargerð Reykjavíkurborgar má ráða að kærandi hafi á umsóknardegi verið með gildan leigusamning sem síðar var framlengdur. Kærandi fékk ekki stig fyrir sérstakar aðstæður barna þar sem það á ekki við. Þá fékk kærandi tvö stig fyrir félagslegan vanda sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins, sem byggja á því að um fjölþættan félagslegan vanda sé að ræða og gefa fleiri stig, eigi ekki við um aðstæður hans.

Samkvæmt framangreindu var umsókn kæranda metin til níu stiga og uppfyllti hann því ekki skilyrði e. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. ágúst 2023, um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta