Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 111/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 111/2017

Fimmtudaginn 19. október 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 2. mars 2017, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð/sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 15. júlí 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 22. nóvember 2016, á grundvelli d-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum 24. nóvember 2016 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 7. desember 2016.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, fór kærandi fram á að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Með ákvörðun í bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 29. mars 2017, var þeirri beiðni kæranda synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, dags. 2. febrúar 2017, en kæran var ekki móttekin fyrr en 2. mars 2017. Með bréfi, dags. 15. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 28. mars 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. mars 2017.

Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. júní 2017, var ákvörðun frá 29. mars 2017, um synjun á beiðni kæranda um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann, afturkölluð, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var jafnframt tilkynnt að mál hennar yrði tekið til meðferðar á ný. Með nýrri ákvörðun í bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. júlí 2017, var kæranda tilkynnt að hún ætti rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 22. ágúst 2014 til 31. desember 2016.

Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. ágúst 2017, var úrskurðarnefndinni tilkynnt um framangreinda ákvörðun frá 20. júlí 2017 og að kærandi hefði fengið greiddar sérstakar húsaleigubætur að fjárhæð 1.102.000 kr. fyrir tímabilið 22. ágúst 2014 til 31. desember 2016. Reykjavíkurborg vísaði til þess að þar með hefði verið komið til móts við umsókn kæranda frá 15. júlí 2016 og því verið leyst úr þeim ágreiningi sem væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 30. ágúst 2017, var óskað eftir afstöðu kæranda til bréfs Reykjavíkurborgar frá 29. ágúst 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 20. september 2017, þar sem fram kemur að hún krefjist þess að fá úrskurð í málinu, enda sé ákvörðun Reykjavíkurborgar enn í gildi. Kærandi hafi hagsmuni af því að fá staðfestingu æðra stjórnvalds á broti Reykjavíkurborgar, enda sé ekki enn búið að leysa úr uppgjöri aftur í tímann. Forsendur útreiknings komi hvergi fram og ekki virðist vera reiknaðir dráttarvextir eða aðrir vextir á fjárhæðina. Athugasemdir kæranda voru sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2017. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 5. október 2017, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar frá 24. nóvember 2016 á umsókn kæranda, dags. 15. júlí 2016, um greiðslu sérstakra húsaleigubóta.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Í d-lið 4. gr. reglnanna er gert að skilyrði að umsækjandi skori að lágmarki fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna sinna, þ.e. tvö stig vegna húsnæðisstöðu og tvö stig vegna félagslegs vanda eða sérstakra aðstæðna barna, sbr. matsviðmið sem fylgir reglunum. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki metin til stiga vegna húsnæðisstöðu þar sem talið var að hún væri hvorki í þörf fyrir húsnæði né að húsnæðisaðstæður hennar væru verulega erfiðar. Á þeirri forsendu var umsókn kæranda synjað.

Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi fram á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 26. janúar 2017, og vísaði þar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Þeirri kröfu var ósvarað þegar kærandi lagði inn kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. mars 2017 en var síðan synjað með ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 29. mars 2017. Sú ákvörðun var síðan afturkölluð með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 20. júlí 2017. Líkt og fram kemur í bréfi Reykjavíkurborgar frá 29. ágúst 2017 hefur borgin greitt kæranda sérstakar húsaleigubætur fyrir tímabilið 22. ágúst 2014 til 31. desember 2016. Úrskurðarnefndin lítur því svo á að Reykjavíkurborg hafi með því einnig afturkallað ákvörðun sína frá 24. nóvember 2016 á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þrátt fyrir að kæranda hafi ekki verið tilkynnt formlega um þá afturköllun, enda lýtur sú ákvörðun að hluta til að sama tímabili og hún hefur fengið greiddar bætur fyrir. Í 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldi veitt heimild til að afturkalla ákvörðun að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Að mati úrskurðarnefndarinnar var það skilyrði uppfyllt í máli kæranda.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi hagsmuni af því að fá úrskurð í málinu til að fá staðfestingu æðra stjórnvalds á broti Reykjavíkurborgar. Úrskurðarnefndin tekur fram að Reykjavíkurborg tók nýja ákvörðun í máli kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2017, þar sem fallist var á kröfu kæranda um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann, meðal annars fyrir það tímabil sem hin kærða ákvörðun lýtur að. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Þá vísar kærandi til þess að ekki sé búið að leysa úr uppgjöri aftur í tímann, til dæmis varðandi dráttarvexti eða aðra vexti á fjárhæðina. Úrskurðarnefndin bendir á að í ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 20. júlí 2017 kemur fram að kærandi geti óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og skotið afgreiðslunni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur kærandi krafist útskýringar á útreikningi fjárhæðar, dráttarvaxta og mótmælt því að hluti kröfunnar hafi fyrnst. Unnið sé að því að svara því erindi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta