Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 255/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 255/2017

Fimmtudaginn 19. október 2017

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. júlí 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 13. janúar 2010. Umsókn kæranda var metin til sex stiga og var hún sett á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Kærandi hefur enn ekki fengið úthlutað húsnæði og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 3. ágúst 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. ágúst 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. október 2017, var óskað eftir upplýsingum um hvort umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið endurmetin á tímabilinu janúar 2010 til febrúar 2016 og þá hvernig stigagjöf var háttað á því tímabili. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvort kærandi hafi á framangreindu tímabili verið upplýst um stöðu umsóknar hennar. Með svarbréfi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 17. október 2017, var greint frá því að hvorki gögn né upplýsingar hafi fundist hjá fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins um framangreind atriði.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Hafnarfirði í sjö ár. Hún hafi ítrekað reynt að fá tíma hjá félagsfræðingi til að reyna að finna skammtímalausn á hennar málum með vísan til 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Kærandi vísar einnig til 45. gr. laganna og greinir frá aðstæðum sínum. Kærandi tekur fram að Hafnarfjarðarbær hafi ekki enn komið með tillögu um skammtímalausn þar til langtímalausn finnist á hennar húsnæðisvanda. Kærandi fer fram á að fá húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ eða að sveitarfélagið finni annað húsnæði fyrir hana þar sem hún hafi ekki efni á því að leigja á almennum markaði.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að við mat á umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði sé farið eftir ákveðnu matskerfi og hverjum umsækjanda um leiguíbúð reiknuð stig á tíu stiga kvarða, sbr. 5. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ. Tekið er fram að umsækjendur með sex stig eða fleiri séu skráðir á biðlista. Umsókn kæranda hafi verið metin til sex stiga og því sett á biðlista en þá hafi kærandi leigt íbúð á frjálsum markaði og verið talin í öruggu húsnæði. Umsóknir séu endurmetnar reglulega þar sem aðstæður umsækjenda kunni að breytast, bæði hvað varðar tekjur og fjölskylduhagi. Umsókn kæranda hafi verið endurmetin í mars 2016 og þá til þriggja stiga, í september 2016 til átta stiga og nú síðast til níu stiga í júlí 2017.

Hafnarfjarðarbær tekur fram að í eigu sveitarfélagsins séu 245 félagslegar leiguíbúðir en nú séu rúmlega 200 einstaklingar á biðlista eftir íbúð. Þegar íbúðir komi til úthlutunar séu umsóknir lagðar fram á sérstökum teymisfundi starfsmanna Fjölskylduþjónustunnar. Þar séu tilnefndir þeir umsækjendur sem taldir séu í brýnustu þörf og í forgangi. Við forgangsröðun í stigagjöf séu nokkur atriði höfð til viðmiðunar, svo sem tekjur umsækjanda, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður. Séu aðstæður tveggja eða fleiri sambærilegar sé litið til þess hve lengi umsækjandi hafi verið á biðlista. Hafnarfjarðarbær bendir á að þar sem umsóknir séu talsvert fleiri en þær íbúðir sem til úthlutunar komi sé ekki unnt að tilnefna aðra en þá sem hafi flest stig, þ.e. yfirleitt níu eða tíu stig. Þar sem húsnæðisaðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til níu stiga fyrr en í júlí 2017 hafi ekki komið til þess að kærandi hafi verið tilnefnd þegar íbúð hafi komið til úthlutunar. Fram að þeim tíma hafi kærandi verið talin í öruggu húsnæði og ekki í brýnni húsnæðisþörf.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á umsókn kæranda frá janúar 2010 um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi hefur enn ekki fengið úthlutað húsnæði og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 45. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í 1. mgr. 5. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að við mat á umsóknum sé farið eftir ákveðnu matskerfi og hverjum umsækjanda um leiguíbúð reiknuð stig á tíu stiga kvarða. Umsækjandi með sex stig eða fleiri sé skráður á biðlista en umsækjandi með færri stig uppfylli ekki skilyrði til að vera á biðlista. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglnanna skal hafa tekjur umsækjanda, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður til viðmiðunar við forgangsröðun. Í 6. gr. reglnanna kemur fram að starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar meti umsóknir á afgreiðslufundi í húsnæðisteymi og taki ákvörðun um úthlutun í umboði fjölskylduráðs. Úthlutun skuli taka mið af því húsnæði sem í boði sé, þörfum umsækjenda og stigagjöf.

Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Hafnarfjarðarbæjar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Ljóst er að kærandi hefur ekki enn fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði, rúmum sjö árum eftir að umsókn þar að lútandi barst sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær hefur vísað til þess að biðlisti sé eftir íbúðum og að kærandi hafi verið sett á biðlista þegar hún sótti um íbúð í janúar 2010 en hafi ekki verið talin í brýnni húsnæðisþörf fyrr en í júlí 2017. Úrskurðarnefnd óskaði eftir gögnum þar að lútandi frá Hafnarfjarðarbæ en samkvæmt svari sveitarfélagsins hafa hvorki gögn né upplýsingar fundist um framangreind atriði. Engin gögn liggja því fyrir um að umsókn kæranda hafi verið endurmetin á tímabilinu frá 2010 til 2016 eða að hún hafi ekki verið í brýnni húsnæðisþörf á þeim tíma, en fyrir liggur að hún var þá á biðlista. Úrskurðarnefndin getur fallist á að húsnæðisskortur valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans og skyldur. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og gerðar séu ráðstafanir til að leysa húsnæðisvanda hennar eins fljótt og unnt er.

Á grundvelli þess að sveitarfélagið hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Hafnarfjarðarbæjar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Hafnarfjarðarbæ að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um úthlutun húsnæðis svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta