Mál nr. 288/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 288/2017
Fimmtudaginn 19. október 2017
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 4. ágúst 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurbogar, dags. 3. maí 2017, á umsókn hennar um sérstakan húsnæðisstuðning.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um sérstakan húsnæðisstuðning hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 28. febrúar 2017. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. mars 2017, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 3. maí 2017 og staðfesti synjunina.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 29. ágúst 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. ágúst 2017, var greinargerð Reykjavíkurborgar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. september 2017, og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. september 2017. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 29. september 2017, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. október 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með tölvupósti 10. október 2017 óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari upplýsingum frá Reykjavíkurborg um þær forsendur sem lágu til grundvallar við útreikning á húsnæðiskostnaði kæranda. Umbeðnar upplýsingar bárust 17. október 2017.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún sé langt undir viðmiðunarupphæðum ríkisstjórnarinnar um húsnæðisbætur og hún nái ekki einu sinni upp í neðri frítekjumörk fyrir tvo einstaklinga á heimili. Kærandi tekur fram að hún sé með þrjú börn á sínu framfæri og greiðslubyrði vegna námslána, auk þess hafi hún ekki fengið vinnu í tengslum við sína menntun.
Kærandi vísar til þess að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem setji félagsleg skilyrði fyrir sérstökum húsnæðisstuðningi en að hennar mati ætti sveitarfélagið að endurskoða reglurnar og búa borgurum sínum betra líf. Með skilyrði um félagslega þætti sé Reykjavíkurborg að gefa í skyn að einstaklingur hafi jafnvel meira á milli handanna ef viðkomandi þiggi ekki félagslegan stuðning, sem sé alls ekki raunin í hennar tilfelli. Kærandi bendir á að hún hafi reynt að fá félagslegan stuðning frá Reykjavíkurborg vegna barna hennar allt frá árinu 2015 en hún sé enn á biðlista eftir úrræði. Með vísan til framangreinds óski kærandi eftir sérstökum húsnæðisstuðningi frá Reykjavíkurborg, afturvirkt frá umsóknardegi. Til vara óski kærandi eftir því að Reykjavíkurborg útvegi henni starf við hæfi þannig að hún muni ekki þurfa á sérstökum húsnæðisstuðningi að halda.
Kærandi gerir athugasemd við útreikning Reykjavíkurborgar á húsnæðisstöðu sinni og tekur fram að hún geti sýnt fram á að hún greiði 180.000 kr. í húsaleigu á mánuði en ekki 130.000 kr. líkt og sé tilgreint í leigusamningnum. Samningurinn sé einungis til eins árs í senn og hún megi búast við hækkun á leigufjárhæð við hverja endurnýjun. Kærandi ítrekar athugasemdir sínar vegna mats Reykjavíkurborgar á félagslegum aðstæðum og telur að það sé lagt of mikið huglægt mat á þær. Þá bendir kærandi á að í mati Reykjavíkurborgar sé hvergi komið inn á framfærslubyrði vegna annarra þátta en húsnæðiskostnaðar en það sé ekki eini kostnaðurinn í föstum útgjöldum sem hægt sé að tengja við framfærslubyrði. Einnig sé ekki lagt mat á möguleika til tekjuöflunar, sem hægt sé að tengja við félagslegar aðstæður, enda geti kærandi ekki sótt vinnu utan dagvistunartíma barna hennar. Því sé ljóst að Reykjavíkurborg fari ekki yfir alla þá þætti sem fram komi í 1. gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sé að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. þarf staða umsækjanda að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum. Matsviðmiðin séu þríþætt, þ.e. staða umsækjanda, húsnæðisstaða og félagslegar aðstæður. Staða umsækjanda hafi ekki verið metin til stiga en hún sé í 80% starfi. Húsnæðisstaða kæranda hafi verið metin til eins stigs en húsnæðiskostnaður hennar sé 25,7% af tekjum heimilisins. Félagslegar aðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til stiga þar sem aðstæður fjölskyldunnar séu taldar betri en getið sé um í matsviðmiðunum og ljóst að kærandi hafi ekki fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar á undanförnum 12 mánuðum. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna.
Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laganna.
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að við afgreiðslu umsókna sé litið til formlegra skjala, þar með talið þinglýsts leigusamnings og þeirra upplýsinga sem þar komi fram. Samkvæmt fyrirliggjandi húsaleigusamningi sé leigufjárhæð kæranda 130.000 kr. en að hennar sögn greiði hún 180.000 kr. í húsaleigu. Reykjavíkurborg bendir á að sé sú fjárhæð ekki rétt sé nauðsynlegt að leiðrétta það þannig að slíkt komi fram í formlegum skjölum sem lögð séu til grundvallar við töku ákvörðunar og endurspegli þá leigufjárhæð sem kærandi greiði. Ef kærandi geri nýjan leigusamning geti hún sótt aftur um sérstakan húsnæðisstuðning hjá þjónustumiðstöð B og verði umsókn hennar þá tekin til greina og horft til nýrra upplýsinga. Reykjavíkurborg ítrekar að samkvæmt 4. tölul. 3. gr. reglna sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning skuli staða umsækjanda vera metin að lágmarki til sex stiga. Þar af að lágmarki til tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum, en kærandi hafi ekki fengið stig fyrir þann lið.
Í svari Reykjavíkurborgar vegna fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um þær forsendur sem lágu til grundvallar við útreikning á húsnæðiskostnaði kæranda kemur fram að mistök hefðu verið gerð varðandi útreikninginn en stigagjöfin væri í samræmi við framangreindar reglur. Hið rétta væri að húsnæðiskostnaður kæranda næmi 22,1% af tekjum heimilisins.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væru ekki uppfyllt.
Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur og samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna um framkvæmd stuðnings samkvæmt 2. og 3. mgr. ásamt viðmiðunarfjárhæðum.
Í 6. gr. leiðbeinandi reglna ráðherra frá 30. desember 2016 kemur fram að mat á félagslegum aðstæðum umsækjenda fari að meginstefnu eftir sömu sjónarmiðum og þegar önnur aðstoð sé veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Æskilegt sé að fylgja skráðum matsviðmiðum sem kvarði tiltekin atriði í matinu með stigum. Til viðmiðunar megi setja að umsækjandi þurfi að fá sex stig að lágmarki til að fá sérstakan húsnæðisstuðning. Þá er að finna dæmi um matsviðmið í fylgiskjali 2 með leiðbeiningunum.
Í 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning kemur fram að sérstakur húsnæðisstuðningur sé ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 3. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1. til 6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 4. tölul. þarf staða umsækjanda að vera metin til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum.
Í fyrsta lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna stöðu umsækjanda; þar segir:
0 stig Staða umsækjanda er önnur en getið er hér að neðan
2 stig Örorkulífeyrisþegi með 75% örorkumat
2 stig Ellilífeyrisþegi
2 stig Framfærsla hjá þjónustumiðstöð vegna langvarandi atvinnuleysis eða óvinnufærni
Í öðrum lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna húsnæðisstöðu umsækjanda; þar segir:
0 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er minni en 20% af tekjum heimilisins
1 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 20% af tekjum heimilisins
2 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er verulega íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 30% af tekjum heimilisins
2 stig Óöruggt húsnæði, þ.e. gistir hjá vinum og/eða ættingjum
4 stig Gistir í neyðarathvarfi eða á gistiheimili
4 stig Heilsuspillandi húsnæði samkvæmt mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða húsnæði er sannanlega óíbúðarhæft af öðrum ástæðum og veruleg vandkvæði eru bundin við að finna nýtt húsnæði
Í þriðja lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna félagslegra aðstæðna umsækjanda; þar segir:
0 stig Aðstæður umsækjanda eru betri en getið er hér að neðan
2 stig Umsækjandi glímir við félagslegan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum
4 stig Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu þjónustumiðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum.
4 stig Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði
4 stig Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa
Í gögnum málsins liggur fyrir mat á aðstæðum kæranda. Samkvæmt því var kærandi ekki metin til stiga vegna stöðu sinnar þar sem hún væri í 80% starfi. Húsnæðisstaða kæranda var metin til eins stigs þar sem húsnæðiskostnaður væri [22,1%] af tekjum heimilisins. Þá var kærandi ekki metin til stiga vegna félagslegra aðstæðna þar sem talið var að aðstæður hennar væru betri en matsviðmiðin tilgreina. Samkvæmt framangreindu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna.
Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við stigagjöf vegna stöðu og húsnæðisstöðu kæranda, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi ekki við um aðstæður hennar. Kærandi hefur gert athugasemd við mat Reykjavíkurborgar á félagslegum aðstæðum hennar og vísað til þess að hún hafi reynt að fá félagslegan stuðning frá sveitarfélaginu en án árangurs. Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að kærandi fengi fullt hús stiga vegna félagslegra aðstæðna myndi hún ekki ná sex stigum, líkt og gert er að skilyrði í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 3. maí 2017, um synjun á umsókn A, um sérstakan húsnæðisstuðning er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson