Mál nr. 58/2015
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 4. nóvember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 58/2015:
Kæra A
á ákvörðun
Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með kæru, dags. 8. október 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, dags. 1. september 2015, á umsókn hans um styrk/lán vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um styrk/lán vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu með umsókn, dags. 27. ágúst 2015. Með bréfi félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, dags. 1. september 2015, var umsókn kæranda synjað með vísan til 25. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 9. október 2015. Með bréfi, dags. 12. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni 16. október 2015 og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Málsástæður kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi sótt um styrk eða lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu vegna húsnæðis sem hann hafi tekið á leigu í byrjun ágústmánaðar 2015. Hann hafi þurft að leggja fram tryggingu að fjárhæð 475.000 krónur sem hann hafi ekki átt til en fengið að láni hjá kunningja sínum og þurfi að greiða til baka. Kærandi bendir á að hann fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og sé í hlutastarfi en hann hafi ekki tök á því að greiða skuldina til baka nema með því að fá lán hjá sveitarfélaginu.
III. Sjónarmið Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu
Í greinargerð sveitarfélagsins kemur fram að vegna umsóknar kæranda hafi verið óskað eftir staðfestu afriti af síðasta skattframtali hans ásamt upplýsingum um allar tekjur í umsóknarmánuðinum sem og síðustu tveggja mánaða á undan líkt og kveðið væri á um í 8. gr. reglna félagsþjónustunnar um fjárhagsaðstoð. Einnig hafi verið óskað eftir húsaleigusamningi, sbr. 25. gr. reglnanna, en horft hafi verið framhjá því að samningurinn væri ekki þinglýstur þar sem fyrri leigjendur hafi ekki verið búnir að afskrá sig. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem tekjur hans væru vel yfir grunnfjárhæð félagsþjónustunnar, sbr. 11. og 25. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu frá 1. desember 2011, með síðari breytinum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort sveitarfélaginu hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk/lán vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 25. gr. reglna Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu um fjárhagsaðstoð er kveðið á um styrk eða lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu; þar segir:
Heimilt er að veita þeim sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð í mánuðinum sem sótt er um, og í mánuðinum á undan, lán eða styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Þinglýstur húsaleigusamningur skal liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skal við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði. Aðstoð á grundvelli þessarar greinar er veitt að hámarki einu sinni á ári, hámarksupphæð er 300.000 kr.
Umsókn kæranda um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu var synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu.
Í 11. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð er kveðið á um grunnfjárhæð framfærslustyrks. Þar kemur fram að grunnfjárhæð einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili geti numið allt að 140.865 krónum á mánuði. Í 10. gr. reglnanna segir að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnþörf til framfærslu, sbr. 11. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Fram kemur í 1. mgr. 13. gr. að fjárhagsaðstoð sé alla jafna greidd út um mánaðarmót og teljist fyrirframgreidd. Allar tekjur umsækjanda og maka ef við eigi, í mánuðinum á undan séu taldar með við mat á fjárþörf. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Með tekjum sé meðal annars átt við atvinnutekjur umsækjanda og maka, allar skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins nema umönnunarbætur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur og leigutekjur, sbr. 2. mgr. 13. gr.
Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda og ljóst er að þær eru töluvert yfir framangreindri grunnfjárhæð. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 25. gr. framangreindra reglna.
Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Synjun Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, dags. 1. september 2015, á umsókn A um styrk/lán vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal