Mál nr. 49/2015
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 25. nóvember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 49/2015:
Kæra A
á ákvörðun
Kópavogsbæjar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
B hefur f.h. A, með kæru, dags. 27. ágúst 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 25. ágúst 2015, um synjun á umsókn hennar um greiðslu húsaleigubóta.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn móttekinni 14. júlí 2015 sótti kærandi um greiðslu húsaleigubóta hjá Kópavogsbæ. Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 15. júlí 2015, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda og bárust þau sveitarfélaginu 1. ágúst 2015. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2015, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að lögheimili hennar væri í Kópavogi en hið leigða húsnæði í Reykjavík, sbr. 4. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 27. ágúst 2015. Með bréfi, dags. 10. september 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 30. september 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. október 2015, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi tekur fram að hún eigi rétt á húsaleigubótum frá Kópavogsbæ þrátt fyrir að leigja húsnæði í Reykjavík þar sem hún sé námsmaður, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997. Ekki skipti máli hvort um námsgarða, heimavist eða leiguíbúð á almennum leigumarkaði sé að ræða, enda sé ekki að finna slíkar afmarkanir í lögum um húsaleigubætur.
III. Sjónarmið Kópavogsbæjar
Í greinargerð sveitarfélagsins er vísað til þess að umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta hafi verið synjað þar sem hún hafi ekki uppfyllt það skilyrði að eiga lögheimili á þeim stað sem hún leigi íbúð. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 sé heimildarákvæði og í framkvæmd hafi sveitarfélagið ekki greitt húsaleigubætur á grundvelli ákvæðisins nema sérstök rök standi til þess, svo sem ef um langar vegalengdir sé að ræða og því nauðsynlegt fyrir viðkomandi námsmann að leigja húsnæði utan lögheimilissveitarfélags.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um húsaleigubætur skulu sveitarfélög greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir sveitarfélaga að jafnaði afgreiðslu umsókna. Í 4. gr. laganna er fjallað um rétt til húsaleigubóta. Þar segir í 1. mgr. að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili. Í 2. mgr. er síðan kveðið á um undanþágu frá þeirri reglu, en þar segir að dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur geti viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem námsmaður á lögheimili óháð aðsetri. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.
Kópavogsbær hefur vísað til þess að ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 sé heimildarákvæði og í framkvæmd hafi sveitarfélagið ekki greitt húsaleigubætur á grundvelli ákvæðisins nema sérstök rök standi til þess, svo sem ef um langar vegalengdir sé að ræða og því nauðsynlegt fyrir viðkomandi námsmann að leigja húsnæði utan lögheimilissveitarfélags. Úrskurðarnefndin tekur undir mat Kópavogsbæjar og bendir á að meginreglan er sú að leigjendur skulu eiga lögheimili í því íbúðarhúsnæði sem þeir eru búsettir í, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur og 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur er undanþáguákvæði sem ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Úrskurðarnefndin telur að málefnalegt sé að líta til þess hversu langa vegalengd viðkomandi námsmaður þurfi að fara við mat á því hvort réttur til greiðslu húsaleigubóta á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laganna er til staðar. Kærandi stundar nám við C í Reykjavík, nágrannasveitarfélagi Kópavogs, og því ekki um að ræða langa vegalengd fyrir hana í skólann. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi verið heimilt að synja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta og verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 25. ágúst 2015, um synjun á umsókn A um greiðslu húsaleigubóta er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal