Mál nr. 54/2015
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 9. desember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 54/2015:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með kæru, dags. 29. september 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 23. september 2015, á umsókn um akstur fyrir fatlaða.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að með umsókn, dags. 4. september 2015, sótti eiginmaður kæranda um ferðaþjónustu fyrir fatlaða dóttur þeirra, 80 ferðir á mánuði í 12 mánuði, til að sækja fjölbrautaskóla í B. Umsókninni var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 17. september 2015, á þeirri forsendu að samþykktar ferðir giltu einungis innan höfuðborgarsvæðisins, sbr. 10. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 23. september 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um 80 ferðir á mánuði í 12 mánuði skv. 10. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðra.“
Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 23. september 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 29. september 2015. Með bréfi, dags. 5. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 15. október 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 21. október 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að dóttir hennar sé fjölfötluð með CP-fjórlömun og þurfi á stuðningi að halda við allar athafnir daglegs lífs. Hún stundi nám á starfsbraut C í B þar sem fjölskyldan hafi verið búsett þar til í byrjun september 2015. Dóttir hennar þurfi að komast alla eða flesta virka daga frá heimili sínu í Reykjavík í skólann og aftur til baka. Því hafi verið sótt um akstursþjónustu hjá akstursþjónustu fatlaðra sem Strætó bs. reki. Umsókn kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að B væri utan þjónustusvæðis akstursþjónustunnar. Kærandi telur að ekki megi takmarka rétt dóttur sinnar með þessum hætti en Strætó bs. sé með almenningssamgöngur til B daglega. Dóttir kæranda eigi rétt á almenningssamgöngum jafnt og aðrir þjóðfélagsþegnar á Íslandi.
Kærandi vísar til þess að markmið laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks sé meðal annars að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi og við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jafnframt komi fram í lögunum að fatlað fólk skuli eiga rétt á almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga en almenningssamgöngur séu hluti af almennri þjónustu sveitarfélaga. Þá komi einnig fram að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks er að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
Dóttir kæranda hafi fengið samþykkta akstursþjónustu innan þjónustusvæðis Strætó bs. en kærandi telur að um óheimila takmörkun sé að ræða. Til vara fer kærandi fram á að bifreiðarnar, sem sinni almenningssamgöngum milli sveitarfélaganna, séu með búnað sem geri fötluðum í hjólastól kleift að ferðast með þeim.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum og fötlun dóttur kæranda. Hún stundi nám á starfsbraut fyrir fatlaða nemendur í C þar sem hún hafi ekki enn fengið skólavist á höfuðborgarsvæðinu eftir flutning fjölskyldunnar til Reykjavíkur. Þá sé hún ekki komin með dagúrræði í Reykjavík eða nágrenni.
Í 35. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks komi fram að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu og markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setji sér svo nánari reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í samræmi við 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 hafi Reykjavíkurborg sett sér reglur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks en sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Sveitarfélög hafi því almennt ákveðið svigrúm og forræði til að meta sjálf, miðað við aðstæður, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í 2. mgr. 10. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík komi fram að þjónustusvæði ferðaþjónustunnar sé Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. C í B sé því utan þjónustusvæðis ferðaþjónustunnar.
Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri kæranda um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli 10. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík og staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar. Það verði að telja ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 35. gr. laga nr. 59/1992, né öðrum ákvæðum þeirra laga.
Reykjavíkurborg bendir á að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi lagt til að dóttir kæranda nýti skólapláss sitt í B til lok árs 2015, en unnið verði að því að finna skólavist við hæfi í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir vorönn 2016. Þá hafi ráðuneytið lýst sig reiðubúið til að greiða fyrir þann mismun sem til falli vegna aksturs ferðaþjónustu fatlaðra til og frá skóla, í samvinnu við Reykjavíkurborg.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn um akstur fyrir fatlaða dóttur kæranda.
Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum, nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu.
Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðra til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur einnig fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega.
Samkvæmt gögnum málsins hefur dóttir kæranda fengið samþykkta ferðaþjónustu hjá Reykjavíkurborg í samræmi við 2. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík. Ágreiningur máls þessa lýtur hins vegar að synjun Reykjavíkurborgar á ferðaþjónustu fyrir dóttur kæranda þannig að hún geti sótt C í B. Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi lagt til að dóttir kæranda nýti skólapláss sitt í B til lok árs 2015, en unnið verði að því að finna skólavist við hæfi í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir vorönn 2016. Þá hafi ráðuneytið lýst sig reiðubúið til að greiða fyrir þann mismun sem til falli vegna aksturs ferðaþjónustu fatlaðra til og frá skóla, í samvinnu við Reykjavíkurborg. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er litið svo á að með þessu hafi verið fallist á þær kröfur kæranda sem kæran lýtur að. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal