Mál nr. 162/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 162/2020
Fimmtudaginn 15. október 2020
A
gegn
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 1. apríl 2020, kærði A, ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. apríl 2020, vegna greiðslu húsnæðisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur húsnæðisbóta 1. apríl 2020 og óskaði samhliða eftir greiðslum húsnæðisbóta aftur í tímann frá 1. janúar 2020. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. apríl 2020, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hann greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 1. apríl 2020. Með bréfi, dags. 2. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð með tölvupósti til kæranda 30. apríl 2020 og símtali 25. júní 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júlí 2020, var beiðni úrskurðarnefndarinnar ítrekuð á ný og kæranda greint frá því að bærust umbeðin gögn ekki innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins mætti hann búast við því að kærunni yrði vísað frá úrskurðarnefndinni. Umbeðin gögn bárust ekki. Með erindi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 20. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort fyrir lægi ákvörðun í máli kæranda. Svar barst 24. ágúst 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. ágúst 2020, var óskað eftir greinargerð stofnunarinnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 3. september 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar fer kærandi fram á að fá greiddar húsnæðisbætur fyrir janúar, febrúar og mars 2020 með vísan til þess að áminning frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi farið fram hjá honum. Kærandi hafi staðið í því að fá nýjan leigusamning frá leigusala en hann hafi ekki verið til taks sökum anna.
III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi fyrst lagt inn rafræna umsókn um húsnæðisbætur þann 16. janúar 2018 og hafi fengið greiddar húsnæðisbætur vegna hennar þar til umsókn hans hafi verið frestað og síðar synjað þar sem skilyrði um þinglýstan leigusamning samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur hafi ekki verið lengur uppfyllt. Áður en umsókn kæranda hafi verið synjað hafi hann í tvígang fengið sent bréf frá HMS, annars vegar tilkynningu, dags. 2. desember 2019, þar sem fram hafi komið að þinglýsti leigusamningurinn hans væri að renna út og hins vegar frestunarbréf, dags. 6. janúar 2020, þar sem hann hafði ekki látið þinglýsa nýjum leigusamningi. Þar sem engin viðbrögð hafi borist af hálfu kæranda, þrátt fyrir framangreind bréf, hafi umsókn hans um húsnæðisbætur verið synjað þann 28. janúar 2020. Kærandi hafi sótt um að nýju með rafrænni umsókn þann 1. apríl 2020 og umsóknin hafi verið samþykkt frá og með umsóknarmánuði.
Lög nr. 75/2016 um húsnæðisbætur gildi um greiðslu húsnæðisbóta til leigjenda vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Kærandi geri kröfu um að HMS greiði honum húsnæðisbætur frá 1. janúar til 31. mars 2020, þrátt fyrir að hafa ekki verið með samþykkta umsókn um húsnæðisbætur á því tímabili. Kærandi beri því við að áminningar um vöntun á þinglýstum leigusamningi hafi farið fram hjá honum en samkvæmt tölvukerfi húsnæðisbóta megi sjá að kærandi hafi ekki opnað rafrænu bréfin á ,Mínum síðum“ á vefsíðu stofnunarinnar.
Í d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 komi fram að það sé gert að skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða. Kærandi hafi fengið greiddar húsnæðisbætur á árunum 2018 og 2019 en á því tímabili hafi hann verið aðili að tímabundnum leigusamningi til eins árs í senn. Áður en leigusamningur kæranda hafi runnið út vegna ársins 2019 hafi honum verið send tilkynning þar sem fram komi ,,að til að eiga áframhaldandi rétt á húsnæðisbótum vegna núverandi leiguhúsnæðis (B) verða samningsaðilar að gera með sér nýjan leigusamning og þinglýsa honum“. Þar sem kærandi hafi ekki brugðist við framangreindu bréfi hafi umsókn hans verið frestað og síðar synjað, sbr. ofangreint. Kæranda hafi í öllum tilvikum verið send bréf þess efnis í gegnum ,,Mínar síður“ á vefsíðu HMS, auk þess sem synjunarbréfið hafi verið póstlagt á lögheimili kæranda þann 28. janúar 2020. Þá hafi framangreindum bréfum jafnframt verið fylgt eftir með tölvupóststilkynningum á skráð netfang kæranda samkvæmt umsókn.
HMS bendir á að það sé á ábyrgð kæranda að bregðast við innan tilskilins frests þegar stofnunin óski eftir nauðsynlegum upplýsingum og gögnum frá honum. Þrátt fyrir að kærandi beri því við að tilkynningar frá HMS hafi farið fram hjá honum hafi hann verið vel upplýstur um að öll samskipti færu fram með rafrænum hætti, enda hafi honum verið tilkynnt um það í sjálfu umsóknarferlinu. Ætla megi að kærandi hafi verið meðvitaður um að hann þyrfti að endurnýja tímabundna leigusamninginn sinn ef hann ætlaði sér áframhaldandi leigu, enda hafi hann í tvígang gert tímabundna leigusamninga sem hann hafi þurft að þinglýsa svo að hann fengi áfram greiddar húsnæðisbætur. Þá megi einnig gera ráð fyrir því að kærandi hafi verið meðvitaður um þegar mánaðarlegar greiðslur húsnæðisbóta hættu að berast inn á reikninginn hans og hefði hann því hæglega getað haft samband við HMS til að grennslast fyrir um frestun á greiðslum og upplýst stofnunina þá um tafirnar við að gerð nýs leigusamnings og óskað eftir viðbótarfresti.
Eins og áður hafi komið fram geri kærandi kröfu um afturvirkar greiðslur húsnæðisbóta. Um greiðslu húsnæðisbóta fari eftir ákvæðum VI. kafla laga um húsnæðisbætur, en þar segir í 2. mgr. 21. gr. laganna:
Húsnæðisbætur koma til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hefur verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skulu þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt er að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann [...]
Samkvæmt ofangreindu ákvæði sé HMS óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Það sé afstaða HMS að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um húsnæðisbætur á því tímabili sem hann geri kröfu um að fá greiddar húsnæðisbætur, enda hafi kærandi ekki verið með samþykkta umsókn á því tímabili eða verið aðili að þinglýstum leigusamningi.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 29. apríl 2020 þar sem samþykkt var að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Kærandi hefur óskað eftir greiðslu húsnæðisbóta frá og með 1. janúar 2020.
Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.
Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 1. apríl 2020 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Með umsókn sinni lagði kærandi fram tímabundinn húsaleigusamning frá 1. janúar til 31. desember 2020, en samningurinn var móttekinn til þinglýsingar 6. mars 2020 og innfærður 10. mars 2020. Kærandi heldur því fram í kæru að fyrri áminningar hafi farið fram hjá honum og honum hafi gengið illa að fá nýjan leigusamning frá leigusala vegna anna. Því beri honum að fá greiddar húsnæðisbætur frá 1. janúar 2020. Af gögnum sem HMS hefur lagt fram hjá úrskurðarnefndinni má sjá að kæranda var þann 2. desember 2019 send tilkynning í tölvupósti um að þinglýstur leigusamningur væri að renna út á næstu 30 dögum og innan þeirra tímamarka yrði hann að leggja fram nýjan þinglýstan samning. Þann 6. janúar 2020 var kæranda sendur tölvupóstur um að umsókn hans hefði verið frestað þar sem gögn vantaði. Þann 28. janúar var kæranda síðan send tilkynning í tölvupósti um að ákvörðun hefði verið tekin í máli hans og bréf um hana væri að finna á „Mínum síðum.“ Allar tilkynningarnar bera með sér að hafa verið sendar á það netfang sem kærandi gefur upp í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá hefur komið fram að HMS sendi einnig umrædda ákvörðun frá 28. janúar 2020 í almennum pósti á lögheimili kæranda. Í ákvörðuninni sjálfri var tilgreint að umsókn kæranda um húsnæðisbætur frá 16. janúar 2018 hefði verið hafnað þar sem leigusamningi hefði ekki verið þinglýst. Var þar upplýst um kæruheimild og kærufrest. Af hálfu HMS hefur komið fram að kærandi hafi verið upplýstur um það í rafrænu umsóknarferli að öll samskipti myndu fara fram með rafrænum hætti.
Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Að því virtu er ákvörðun um að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með apríl 2020 staðfest.
Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn beiðni til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurupptöku ákvörðunar frá 28. janúar 2020 á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að aðili máls eigi rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Af ákvæði þessu leiðir að aðili máls getur átt lögvarinn rétt til þess að mál hans verði tekið til meðferðar á ný ef framangreind skilyrði eru fyrir hendi.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. apríl 2020, um greiðslu húsnæðisbóta til handa A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson