Mál nr. 522/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 522/2024
Fimmtudaginn 5. desember 2024
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 19. október 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 2. febrúar 2022, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var samþykkt á biðlista með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 1. mars 2022.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. október 2024. Með bréfi, dags. 22. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 5. nóvember 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2024. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda samdægurs og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2024. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 13. nóvember 2024 og voru þær kynntar umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. nóvember 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er farið fram á að kærandi fái úthlutað félagslegu húsnæði hið fyrsta á vegum félagsmálastofnunnar á stór Reykjavíkursvæðinu, enda löngu komið að henni. Samkvæmt félagsráðgjöfum á Suðurmiðstöð hafi kærandi aðeins verið á biðlista frá árinu 2022 en það sé alls ekki rétt heldur sé það frá árinu 2019. Kærandi hafi fyrst sótt um fjárhagsaðstoð árið 2019 hjá félagsþjónustunni í Grafarvogi og þá hafi hún jafnframt látið vita að hún væri húsnæðislaus. Á einverjum stað/tíma í kerfinu, líklega 2022, hafi kærandi verið sett yfir á annan biðlista fyrir fólk með miklar og sértækar þarfir en félagsráðgjafarnir vilji ekki viðurkenna að hún hafi verið á biðlista frá árinu 2019. Móðir kæranda hafi fylgst með öllum málum hennar frá upphafi, verið henni innan handar og hjálpað eins vel og hún geti. Kærandi hafi þurft að mæla götur borgarinnar í allan þennan tíma í allskonar hræðilegum aðstæðum, vetur sem sumar. Að vísu hafi kærandi getað fengið inni annað slagið á Konukoti þegar þar sé opið og einnig Skjólinu inn á milli. Annars hafi kærandi sofið í bílakjöllurum og á öðrum stöðum. Skjólið sé lokað um helgar og bara ákveðinn opnunartími yfir daginn aðra daga. Það að fara frá Konukoti og t.d. inn á Skjól kosti það að draga á eftir sér innkaupakerru með því dóti sem kærandi eigi. Kærandi hafi fengið að finna fyrir því að vera hent út af Konukoti klukkan 10 að morgni hvernig sem hafi viðrað. Hún hafi fárveikst af alvarlegri lungnabólgu þrisvar sinnum á stuttum tíma og í þrígang hafi móðir kæranda verið kölluð upp á bráðadeild Landspítalans frá C þar sem hún sé búsett, enda hafi verið um mjög alvarlegt ástand að ræða. Kærandi hafi verið meðvitundarlaus og allt hafi litið mjög illa út en sem betur fer hafi hún komist aftur til meðvitundar. Kærandi hafi verið fíkill í mörg ár og hafi verið mjög hætt komin undir það síðasta, enda farin að sprauta sig.
Fyrir þremur mánuðum síðan hafi kærandi verið handtekin og færð upp á Hólmsheiði í þriggja mánaða afplánun fyrir ýmis uppsöfnuð mál. Eftir þessa þrjá mánuði sé kærandi orðin edrú og hún hafi sjálf óskað eftir að fara í framhaldinu á Krýsuvík í sex mánaða prógram. Þar ætti kærandi að fá alla þá aðstoð sem hún hafi ekki áður fengið, svo sem á Vogi/Vík eða Hlaðgerðakoti. Að verða handtekin hafi verið það besta sem hafi getað komið fyrir kæranda á þessum tímapunki. Nú sé svo komið að þegar kærandi losni af Krýsuvík, sex mánuðum eftir 17. október 2024, verði hreinlega að verða búið að finna henni félagslega íbúð. Annars sé voðinn vís og líf hennar í hættu. Kærandi þurfi það öryggi eitt að eignast heimili því ef kærandi lendi aftur á götunni sé mikil hætta á að hún fari í sama farið.
Tekið er fram að félagsráðgjafar kæranda þverneiti fyrir það að kærandi hafi farið á biðlista árið 2019. Fyrir stuttu hafi móðir kæranda fengið símtal frá félagsráðgjafa þar sem fram hafi komið að biðlistinn væri ekki endilega aðalatriðið heldur þörfin á úthlutun húsnæðis. Þörf kæranda sé mikil og það sé mikilvægt að hún eignist þak yfir höfuðið þegar hún komi úr meðferðinni á Krýsuvík.
Í samskiptum við félagsráðgjafa hafi komið fram að kærandi þyrfti að vera edrú í sex mánuði til þess að fá félagslegt húsnæði. Nú sé kærandi búin að vera edrú í þrjá mánuði og þurfi aðeins þrjá mánuði af Krýsuvíkurdvölinni í viðbót til að ná sex mánuðum. Kærandi spyrji hvort þetta loforð verði þá ekki efnt að þessum þremur mánuðum liðnum. Það sé mjög mikilvægt að kærandi geti gengið að húsnæði vísu þegar vist hennar á Krýsuvík ljúki.
Í svari kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar er gerð athugasemd við að hvergi komi fram að á þessum sex mánuðum sem hún sé á Krýsuvík verði unnið að því að finna henni íbúð. Heilir sex mánuðir án nokkurrar niðurstöðu í þeim málum sé ansi lélegt. Farið sé fram á að á meðan kærandi sé á Krýsuvík verði allt gert til að það loforð sem áður hafi verið greint frá verði efnt og að húsnæði standi til boða þegar hún útskrifist af Krýsuvík. Heilir sex mánuðir sé ágætis tími fyrir félagsþjónustuna að gangast við því máli. Ef það gangi ekki eftir beri félagsþjónustan ábyrgð á því ef kærandi lendi aftur á götunni. Þá sé mikil hætta á að allt verði unnið til einskis og að allt fari í sama farið aftur. Ef félagsþjónustan vilji virkilega aðstoða sé rétti tíminn til þess núna.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul einhleyp kona. Hún hafi alist upp í C ásamt foreldrum sínum en móðir hennar búi þar enn. Mikil óregla hafi verið á heimili kæranda þegar hún hafi verið að alast upp en faðir hennar hafi átt við áfengisvandamál að stríða og að sögn kæranda hafi hann verið ofbeldisfullur. Foreldrar kæranda hafi skilið þegar hún hafi verið sex ára. Kæranda hafi gengið illa í skóla en hún hafi hætt í grunnskóla í 10. bekk vegna eineltis. Í kjölfarið hafi kærandi farið að vinna í fiski en hún eigi mjög stopula vinnusögu þar sem hún hafi veikst í baki. Árið 2001 hafi kærandi greinst með hryggskekkju og gigt í hrygg. Þá sé hún einnig með brjósklos eftir að hafa lent í þremur umferðarslysum. Kærandi sé greind með áfallastreituröskun og ofsakvíða. Þá sé hún með frestunaráráttu sem valdi því að hún eigi erfitt með að gera ákveðna hluti. Kærandi hafi orðið fyrir frelsissviptingu í nóvember 2021 og aftur í ágúst 2022. Kærandi hafi verið meira og minna heimilislaus frá árinu 2019. Hún hafi sótt fyrst um fjárhagsaðstoð til framfærslu í október 2019. Á þeim tíma hafi hún leigt íbúð á almennum leigumarkaði. Það hafi engin vinnsla verið í máli kæranda frá desember 2019 til febrúar 2021. Þann 19. febrúar 2021 hafi kærandi skrifað undir leigusamning hjá Betra Líf og sótt um lán hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar vegna tryggingar á húsaleigu fyrir framangreint húsnæði. Þann 22. ágúst 2021 hafi kærandi flutt lögheimili sitt til C. Þann 30. janúar 2022 hafi kærandi flutt lögheimili sitt aftur til Reykjavíkur í D Reykjavík.
Kærandi hafi fyrst sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 2. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 1. mars 2022, hafi umsókn kæranda verið samþykkt og umsóknin hafi verið metin til 11 stiga. Kærandi hafi endurnýjað umrædda umsókn þann 23. janúar 2023. Með bréfi, dags. 13. apríl 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að endurmat á umsókn hennar hefði ekki leitt til breytinga á stigagjöf. Vegna vímuefnanotkunar kæranda hafi hún nýtt sér Konukot (neyðarskýli fyrir heimilislausar konur í Reykjavík) og Skjólið (opið hús fyrir konur sem glími við heimilisleysi) reglulega vegna heimilisleysis síðan í byrjun ágúst 2022. Félagsráðgjafi Vesturmiðstöðvar hafi hitt kæranda á Skjólinu þann 24. janúar 2023. Miðað við stöðu kæranda á þeim tíma hafi félagsráðgjafi hennar ráðlagt að sækja um félagslegt leiguhúsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir þar sem hún myndi fá stuðning VoR-teymisins (Vettvangs og ráðgjafateymi). Þar sem ekki sé hægt að eiga tvær húsnæðisumsóknir á sama tíma í húsnæðisgrunni Reykjavíkurborgar hafi umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði verið sett í stöðuna hætt við/dregin til baka. Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir þann 2. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2023, hafi umsókn kæranda verið samþykkt og umsóknin metin til 12 stiga. Með bréfi, dags. 4. janúar 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að búið væri að endurmeta umsókn hennar um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og að umsókn hennar væri nú metin til átta stiga.
Kærandi hafi sótt um stuðning frá VoR- teyminu þann 2. febrúar 2023. Þjónusta VoRteymisins hafi verið samþykkt þann 31. janúar 2024. Með bréfi, dags. 25. september 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að búið væri að endurmeta umsókn hennar um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og að umsókn hennar væri nú metin til níu stiga. Breytingin úr átta stigum í níu stig sé vegna þess að hún hafi fengið samþykkta þjónustu frá VoR- teymi og hlotið eitt auka stig fyrir það. Kærandi hafi hlotið fangelsisdóm og afplánað hann á Hólmsheiði. Kærandi hafi lokið þeirri afplánun þann 13. október 2024 og sé nú í áfengis- og vímuefnameðferð á Krýsuvík.
Kærandi hafi kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna vinnslu umsóknar sinnar um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umboðsmaður Alþingis hafi sent erindi, dags. 18. júlí 2024, til Reykjavíkurborgar vegna framangreindrar kvörtunar sem Reykjavíkurborg hafi svarað þann 25. júlí 2024. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2024, hafi umboðsmaður Alþingis tilkynnt að hann hefði lokið máli kæranda vegna framangreindrar kvörtunar. Með bréfi, dags. 19. október 2024, hafi kærandi kært vinnslu umsóknar sinnar hjá Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna óhóflegs dráttar á málshraða, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019.
Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram skipting félagslegs leiguhúsnæðis í fjóra flokka, þ.e. almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Um framangreinda flokka húsnæðis sé fjallað í sérköflum reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en mismunandi skilyrði eigi við um hvern flokk húsnæðis.
Frekari skilgreiningu á almennu félagslegu leiguhúsnæði sé að finna í 2. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði sé átt við hverja þá íbúð í eigu Félagsbústaða hf. sem ekki sé sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra, húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt falli undir skilgreininguna húsnæði sem Reykjavíkurborg leigi til einstaklinga þar sem umsýsla sé á vegum Félagsbústaða hf. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis teljist einnig áfangahúsnæði. Sérstaklega sé fjallað um almennt félagslegt leiguhúsnæði í II. kafla reglnanna.
Frekari skilgreiningu á húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir sé að finna í 3. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi að húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir sé íbúðarhúsnæði sem gert hafi verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir þann hóp sem teljist vera heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Um sé að ræða húsnæði sem sé ætlað þeim sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum alvarlegs vímuefnavanda og/eða geðrænna erfiðleika og staða viðkomandi hamli því að hann geti búið í almennu félagslegu leiguhúsnæði og þurfi því á sértækri þjónustu að halda. Sérstaklega sé fjallað um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir í IV. kafla reglnanna.
Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma. Í 19. gr. reglnanna komi fram að miðstöðvar Reykjavíkurborgar leggi faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafi verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá miðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis byggi á gögnum sem liggi fyrir á úthlutunardegi og beri að uppfæra öll gögn miðað við stöðu umsækjanda á þeim tíma. Einnig beri eftir atvikum að framkvæma endurmat samkvæmt matsviðmiðum. Umsækjanda skuli tilkynnt skriflega ef endurmat leiði til breytinga á stigagjöf. Úthlutunarteymi almenns félagslegs leiguhúsnæðis fundi og úthluti húsnæði að jafnaði einu sinni í viku.
Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé vikið að málshraða og þar komi fram að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þá komi fram í 3. mgr. 9. gr. að þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því og skuli þá upplýst um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í 4. mgr. 9. gr. laganna komi fram að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.
Reykjavíkurborg taki fram að samþykki á umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi því þegar viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað húsnæði, enda hafi hann verið settur á biðlista eftir því. Það að sveitarfélagið hafi ekki veitt kæranda húsnæði innan ákveðins tímafrests heldur forgangsraði umsækjendum með hliðsjón af aðstæðum þeirra og framboði húsnæðis feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis feli hins vegar í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 8. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og í þeim tilfellum sé því um að ræða að aftur verði tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu.
Reykjavíkurborg bendi á að jafnvel þótt sveitarfélagið hafi viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði felist ekki í þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita beri kæranda umrætt húsnæði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða um viðmiðunartímafresti í þessu sambandi, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir húsnæði og ekki sé um að ræða fortakslausan rétt til að fá úthlutað húsnæði strax. Í þessu samhengi sé vakin athygli á því að kærandi hafi sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði með umsókn þann 2. febrúar 2022. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt og henni tilkynnt um það með bréfi þann 1. mars 2022. Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir þann 2. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2023, hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Að mati velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sé ekki unnt að telja að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Tekið skuli fram að ekki sé hægt að vera með tvær virkar umsóknir í húsnæðisgrunni Reykjavíkurborgar en upphafleg umsókn um almennt félagslegt húsnæði hafi verið lögð fram þann 2. febrúar 2022. Umsókn um félagslegt húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir hafi verið lögð fram þann 2. febrúar 2023. Ekki liggi fyrir í málaskrá velferðarsviðs að kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði áður en hins vegar liggi fyrir að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð í október 2019. Í þessu samhengi beri að taka fram að kærandi sé í meðferð og ef það leiði til breytinga í lífi kæranda sé unnt að skoða á ný hvort hún sæki um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Umsókn kæranda sé metin til níu stiga samkvæmt matsviðmiðum varðandi húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir (fylgiskjal 3 með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði).
Í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga komi fram að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.
Af orðalagi ákvæðisins leiði að einstaklingar sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til að umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði sé samþykkt, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir slíku húsnæði. Með hliðsjón af framangreindu sé því hafnað að biðtími kæranda eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993. Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum sé falin samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laganna. Hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé í þessum málum ráðist aðallega af ákvörðun hvers sveitarfélags.
Í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar sé sveitarfélögum tryggður sjálfstjórnarréttur og í honum felst meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Stjórnarskráin leggi ekki ríkari eða víðtækari skyldur á herðar sveitarfélögum í þessum efnum heldur en mælt sé fyrir um í fyrrnefndum sérlögum. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt, setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna, þar á meðal um félagslegt leiguhúsnæði. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Því geti einstaklingar ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.
Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ekki unnt að fallast á að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggi að umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði.
Það sé mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ljóst að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ákvæðum annarra laga.
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að unnið sé að því að finna kæranda félagslegt leiguhúsnæði. Reykjavíkurborg tryggi félagslegt leiguhúsnæði eftir því sem kostur er en um takmörkuð gæði sé að ræða. Þá sé rétt er að taka fram að kæranda hafi ekki verið lofað því að henni stæði til boða félagslegt leiguhúsnæði þegar meðferð á Krýsuvík ljúki eins og fram komi í tölvupósti frá félagsráðgjafa, dags. 25. september 2024.
IV. Niðurstaða
Kærð er afgreiðsla Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Samkvæmt gögnum málsins er umsókn kæranda frá 2. febrúar 2022 og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 1. mars 2022. Umsóknin var endurnýjuð 23. janúar 2023 og þann 2. febrúar 2023 sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Sú umsókn var samþykkt 9. febrúar 2023. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.
Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.
Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Þá segir að húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir sé íbúðarhúsnæði sem gert hafi verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir þann hóp sem teljist vera heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Um sé að ræða húsnæði sem sé ætlað þeim sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum alvarlegs vímuefnavanda og/eða geðrænna erfiðleika og staða viðkomandi hamli því að hann geti búið í almennu félagslegu leiguhúsnæði og þurfi því á sértækri þjónustu að halda.
Í VI. kafla reglnanna er kveðið á um forgangsröðun og úthlutun. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að umsóknum sé raðað í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Í 3. mgr. 17. gr. kemur fram að við lok mats samkvæmt viðeigandi matsviðmiði séu reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Niðurstaða mats sé höfð til hliðsjónar við forgangsröðun til úthlutunar í húsnæði. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. skal taka mið af þjónustuþörf umsækjanda við mat á því hvaða húsnæði henti umsækjanda við forgangsröðun umsókna um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Við það mat sé stuðst við mats- og þarfagreiningarlista velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglnanna fer úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem skipuð eru með sérstöku erindisbréfi. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggja faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafa verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 19. gr. kemur fram að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 30. gr. reglnanna að ráðgjafi skuli endurmeta aðstæður umsækjanda á meðan beðið sé úthlutunar á húsnæði og veita félagslega ráðgjöf ef þurfa þyki.
Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.
Líkt og að framan greinir er umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði frá 2. febrúar 2022 og var hún samþykkt á biðlista 1. mars 2022. Ekki liggja fyrir gögn um að kærandi hafi lagt inn slíka umsókn á árinu 2019 og fyrir liggur að hún var ekki með lögheimili í Reykjavík á tímabilinu 22. ágúst 2021 til 30. janúar 2022. Samkvæmt því hefur kærandi nú verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í 33 mánuði. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að af orðalagi 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 leiði að einstaklingar sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til samþykktar á umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir slíku húsnæði. Með hliðsjón af því hafni Reykjavíkurborg að biðtími kæranda eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993. Að öðru leyti hefur Reykjavíkurborg ekki gefið skýringar á þeirri töf sem hefur orðið á afgreiðslu máls kæranda.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi verið tilnefnd til úthlutunar húsnæðis á biðtíma. Þá bera gögn málsins ekki með sér að það hafi verið unnið sérstaklega í húsnæðismálum kæranda á framangreindum biðtíma. Að því virtu og á grundvelli þess að Reykjavíkurborg hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að hraða afgreiðslu málsins og veita kæranda samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun viðeigandi húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um úthlutun húsnæðis svo fljótt sem auðið er.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir