Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 410/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 410/2019

Þriðjudaginn 14. janúar 2020

A

gegn

Mosfellsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. október 2019, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Mosfellsbæjar á umsókn hans um notendastýrða persónulega aðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvupósti 4. október 2018 til starfsmanns Mosfellsbæjar sótti réttindagæslumaður um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) fyrir kæranda. Kærandi hefur vísað til þess að umsóknin hafi ekki enn verið tekin til meðferðar og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 9. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Mosfellsbæjar vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð 28. október 2019. Greinargerð Mosfellsbæjar, dags. 30. október 2019, barst 6. nóvember 2019 og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu þann dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 14. nóvember 2019 og voru þær sendar Mosfellsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um NPA þjónustu hafi ekki enn verið tekin til meðferðar tæplega ári eftir umsóknardag. Kærandi sé búsettur í íbúð sem sé tengd íbúðakjarna og njóti því þjónustu. Hann hafi hins vegar óskað þess að búa við meira frelsi og fá þjónustu eftir hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf, markmiðum laga nr. 38/2028 og 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem samkvæmt frumvarpi laganna liggi til grundvallar 8. og 9. gr. þeirra á þann veg að ekki sé hægt að skilyrða og binda rétt til þjónustu við það að fólk búi í tiltekinni búsetu. Af þeim sökum hafi kærandi sótt um NPA.

Kærandi vísar til þess að í tölvupósti frá 19. júní 2019 hafi því verið svarað að umsóknum um NPA, sem hafi borist eftir gildistöku nýrra laga, yrði svarað eftir að nýjar reglur Mosfellsbæjar um NPA tækju gildi. Kærandi telji hins vegar að efnislegur réttur til aðstoðarinnar hafi myndast við gildistöku laga nr. 38/2018 og á grundvelli þeirra beri sveitarfélaginu að taka umsóknina sérstaklega til meðferðar, á einstaklingsgrunni, og bjóða önnur úrræði, svo sem NPA samning samkvæmt eldri reglum sveitarfélagsins eða notendasamning samkvæmt 10. gr. laganna, á meðan beðið sé almennari afgreiðslu á nýjum reglum. Ekki verði séð að unnið hafi verið markvisst í máli kæranda.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Mosfellsbæjar er vísað til þess að ekki sé um efnislega meðferð að ræða í samræmi við almennar réttaröryggisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, VII. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, reglugerð nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð og kafla 1.6 í Handbók félagsmálaráðuneytisins um NPA. Það sé alls óvíst á hvaða efnislegum gögnum meðferðin byggist þar eð kærandi hafi ekki verið beðinn um að skila gögnum eða heimild fyrir heildstætt mat á þjónustuþörf sinni og hafi ekki verið kallaður til samráðs eða fundar um óskir sínar þar sem gætt hafi verið viðeigandi aðlögunar til að tryggja réttláta og jafna málsmeðferð. Ljóst sé að grundvöllur þess að mál sé lagt á borð fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar sé að það hafi verið faglega unnið í samræmi við lög og reglur og hugað hafi verið að öllum almennum réttaröryggisreglum áður en til ákvörðunar komi. Til að stjórnvaldið geti tekið ákvörðun um félagsleg réttindi verði það að hafa lokið einstaklingsbundnu mati á þörfum. Hér sé um að ræða slík veigamikil stjórnarskrárbundin réttindi, með enn frekara tilliti til markmiða og meginreglna laga nr. 38/2018, að stjórnvaldið verði óhjákvæmilega að hlíta meginreglunni um skyldubundið mat áður en til ákvörðunar komi og veita efnislega meðferð í samræmi við almennar réttaröryggisreglur stjórnsýsluréttarins. Með vísan til framangreinds geri kærandi því enn kröfu til þess að umsóknin verði tekin til efnislegrar meðferðar í samræmi við gildandi lög og reglur án frekari tafa. Þá geri kærandi alvarlegar athugasemdir við þann farveg sem lagður sé til í greinargerð Mosfellsbæjar.

III.  Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar kemur fram að sveitarfélagið vilji bregðast við kærunni á þann hátt að tilkynna að áætlað sé að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs fimmtudaginn 31. október. Meðferð á trúnaðarmálafundi sé eingöngu tillaga sem sé lögð fyrir fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar sem taki ákvörðun um þjónustuna. Réttindagæslumanni, fyrir hönd kæranda, hafi einnig verið tilkynnt um það.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Mosfellsbæjar á umsókn kæranda um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) frá 4. október 2018 á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kærandi hefur vísað til þess að umsóknin hafi ekki enn verið tekin til meðferðar og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 30. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um almennar reglur um málsmeðferð. Þar segir í 1. mgr. að farið skuli að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögunum nema ríkari kröfur séu gerðar í þeim. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ákvörðun um þjónustu byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og ákvörðun skal tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur. Um meðferð umsókna skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sé ekki kveðið á um vandaðri málsmeðferð í lögunum, sbr. ákvæði 2. mgr. 31. gr. Í 3. mgr. 31. gr. kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig veita megi þjónustu í samræmi við óskir hans. Teymið skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og það skuli vera byggt á viðurkenndum og samræmdum matsaðferðum.

Í 33. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um rannsóknarskyldu en þar segir að það stjórnvald sem taki ákvörðun um þjónustu við fatlaðan einstakling skuli tryggja að hún sé studd nægjanlegum gögnum áður en ákvörðunin sé tekin. Í því skyni skuli sveitarfélag leiðbeina umsækjendum um hvaða gögn skuli leggja fram eða, eftir atvikum, afla sjálft gagna hjá öðrum opinberum aðilum að fenginni heimild umsækjanda. Þá segir í 1. mgr. 34. gr. að ákvörðun um að veita þjónustu skuli taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónustan sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði.

Við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hafi dregist verður að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk framangreindra lagaákvæða. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Það liggur fyrir að kærandi lagði inn umsókn um NPA 4. október 2018. Í greinargerð Mosfellsbæjar til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna neina skýringu á þeirri töf sem hefur orðið á afgreiðslu umsóknarinnar. Einungis er vísað til þess að sveitarfélagið vilji bregðast við kærunni á þann hátt að tilkynna að áætlað sé að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs fimmtudaginn 31. október. Ekki liggur fyrir hvort umsóknin hafi verið afgreidd. Í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstsamskipti á milli réttindagæslumanns kæranda og starfsmanns sveitarfélagsins frá júní 2019. Þar er óskað skriflegra svara við því hver væri ástæða þess að umsókn kæranda væri ekki tekin til efnislegrar meðferðar og hvenær mætti eiga von á afgreiðslu hennar. Í svarinu kemur fram að umsóknum um NPA, sem hafi borist eftir gildistöku laga nr. 38/2018, yrði svarað eftir að nýjar reglur sveitarfélagsins um NPA tækju gildi. Þær reglur væru í meginatriðum tilbúnar en þyrftu fyrst að fara til umsagnar hjá notendaráði fatlaðs fólks í sveitarfélaginu.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við framangreinda málsmeðferð Mosfellsbæjar. Sveitarfélaginu bar að taka efnislega ákvörðun um synjun eða samþykki umsóknar kæranda á grundvelli gildandi reglna eins fljótt og unnt var, sbr. áðurnefnda 34. gr. laga nr. 38/2018 og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er réttlætanlegt að bíða með afgreiðslu umsóknar með vísan til þess að nýrra reglna sé að vænta. Beinir úrskurðarnefndin því til sveitarfélagsins að haga málsmeðferð sinni vegna umsókna einstaklinga framvegis í samræmi við framangreind sjónarmið.

Á grundvelli þess að Mosfellsbær hefur ekki lagt fram skýringu á þeirri töf sem hefur orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka fyrir umsókn  kæranda um NPA svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Mosfellsbæjar í máli A var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Mosfellsbæ að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka fyrir umsókn hans um NPA svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta