Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 161/2011

Miðvikudaginn 24. október 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 161/2011:

 

 

Beiðni A og B

um endurupptöku máls

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, og B, til heimilis að C, hér eftir nefnd kærendur, hafa með erindi, dags. 16. febrúar 2012, óskað eftir endurupptöku á máli úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála nr. 161/2011, A gegn Íbúðalánasjóði frá 11. janúar 2012.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Annar kærenda kærði ákvörðun um synjun á endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíldu á fasteigninni að C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

 

Skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C var 20.650.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 24.000.000 kr. samkvæmt mati löggilts fasteignasala frá fasteignasölunni D sem fram fór þann 15. september 2011 og var endurákvörðun kærða byggð á því mati. Áhvílandi á íbúðinni voru 30.305.476 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi er einnig eigandi fasteignarinnar að E, sem metin er á 708.000 kr. Kærendur byggja kröfu sína um endurupptöku málsins á því að þau hafi ekki verið heima þann 15. september 2011 þegar fasteignasali hafi samkvæmt fyrirliggjandi verðmati átt að hafa skoðað fasteignina.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með kæru, dags. 24. október 2011, skaut annar kærenda til úrskurðarnefndarinnar synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 5. október 2011, á umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum. Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála miðvikudaginn 11. janúar 2012 var kveðinn upp úrskurður í málinu og var ákvörðun Íbúðalánasjóðs staðfest. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2012, óskuðu kærendur eftir endurupptöku málsins. Með bréfi, dags. 1. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði og bárust þær með bréfi, dags. 6. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

 

III. Sjónarmið kærenda

 

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að kærendur hafi kært ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar þar sem þau hafi talið verðmat fasteignarinnar hærra en eðlilegt gæti talist. Þau hafi einnig haft samband við fasteignasala þann sem hafi skoðað fasteignina. Að sögn kærenda hafi fasteignasalinn sagt mat fasteignarinnar hafa verið hærra en í öðrum málum og hann hafi bent þeim á aðra fasteignasölu óskuðu þau eftir nýju verðmati. Síðar hafi kærendur séð dagsetningu verðmatsins sem sé frá 15. september 2011, en þá hafi þau hvorugt verið heima. Annað þeirra hafi verið úti á sjó allan september og hitt þeirra að keyra ferðamenn. Það hafi enginn maður komið að meta fasteignina né hafi nokkur beðið um það. Kærendur telja því að um gamalt mat með nýja dagsetningu sé að ræða. Kærendur gera kröfu um að miðað verði við verðmat fasteignasala, dags. 25. nóvember 2011, sem þau hafi sjálf aflað.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 6. mars 2012 segir að sjóðurinn hafi borið staðhæfingu kærenda undir fasteignasalann og vísar í hjálagt tölvubréf sem hafi verið svar hans. Með vísan til bréfsins telji sjóðurinn ekki tilefni til að taka upp verðmatið enda hafi þarna einhver misskilningur verið á ferðinni.

 

Í tölvubréfi frá 5. mars 2012 segir fasteignasalinn hafa farið að C og hitt annan kærandann sem hafi farið vel og rækilega í gegnum alla eignina með honum, jafnt að innan sem utan. Hann hafi svo komið til fasteignasalans síðar og þeir farið yfir matið í sameiningu og rætt lengi um markaðinn almennt. Kærandanum ætti því að vera vel kunnugt um að fasteignasalinn hafi skoðað fasteignina hans. Hann hafi getað sýnt kærandanum sambærilegar eignir í F þar sem verð hafi verið ívið lægra en á hans eign þar sem þær eignir hafi ýmist verið minni, byggðar úr timbri eða skemur komnar en hans eign.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því skv. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

 

Kærendur byggja kröfu sína um endurupptöku málsins á því að þau hafi ekki verið heima þann 15. september 2011 þegar fasteignasali hafi samkvæmt fyrirliggjandi verðmati átt að hafa skoðað fasteignina. Þessu mótmælir umræddur fasteignasali sem hefur lýst samskiptum sínum við annan kærenda þegar fasteignin var skoðuð þann dag. Kærendur hafa ekki gert sérstakar athugasemdir við það sem fram kemur í tölvubréfi fasteignasalans frá 5. mars 2012. Þá hafa kærendur ekki lagt fram gögn eða annað sem styður kröfu þeirra um endurupptöku málsins.

 

Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að draga í efa að fasteignasali hafi skoðað fasteign kærenda. Það er mat úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála að úrskurður í málinu frá 11. janúar 2012 hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku málsins ekki uppfyllt. Þá verður ekki talið að málið verði endurupptekið á öðrum grundvelli. Kröfu kærenda um endurupptöku málsins verður því hafnað.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kröfu A, og B, um endurupptöku máls úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála nr. 161/2011, A gegn Íbúðalánasjóði frá 11. janúar 2012, er hafnað.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta