Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 324/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 324/2023

Fimmtudaginn 17. ágúst 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 8. febrúar 2023, um að synja umsókn hennar um aukningu á beingreiðslusamningi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er með þjónustu frá Reykjavíkurborg í formi beingreiðslusamnings. Með umsókn, dags. 8. janúar 2023, óskaði kærandi eftir aukningu á þeim samningi í 369 klukkustundir á mánuði. Umsókn kæranda var samþykkt að hluta, eða samtals 248 klukkustundir á mánuði, með bréfi velferðarsviðs, dags. 19. janúar 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá ákvörðun 8. febrúar 2023 með vísan til 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 20. mars 2023. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júní 2023. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júlí 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. júlí 2023, var óskað eftir gögnum frá Reykjavíkurborg vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 8. ágúst 2023.

 

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tekur kærandi fram að synjun áfrýjunarnefndar velferðarráðs á auknum tímafjölda inn í beingreiðslusamning hennar vegna þverrandi hreyfifærni af völdum MS-sjúkdóms sé merkileg niðurstaða í ljósi þess að hún hafi ítrekað sótt um notendastýrða persónulega aðstoð frá árinu 2019. Þó skilji kærandi vel að í gildandi reglum um beingreiðslusamninga sé hámarksfjöldi tíma 248 stundir á mánuði sem séu 8,2 stundir á sólarhring. Kærandi velti því fyrir sér hvað hún eigi að gera hinar 16,8 stundirnar. Lífsgæði kæranda séu því miður mjög takmörkuð vegna fötlunar og hún þurfi þá að sofa tæpar 17 klukkustundir á sólarhring þegar hún fái ekki þjónustu.

Það sé óskemmtileg staðan á meðan líkami hennar gefi sig að horfa með öfundaraugum á fatlaða vini og kunningja með NPA sem geti gert mun meira en hún þar sem samningurinn geri ráð fyrir miklu meiri þjónustu en hámarkstímafjöldi í reglum um beingreiðslusamninga. Ekki svo að skilja að þau öll séu vel að því komin en kærandi vildi óska að hún væri ein þeirra því það sé það sem hún þarfnist.

Hreyfigeta kæranda samkvæmt stuðningsþjónustumati sé þar ágætlega metin og í kaflanum um „líkamlega aðstoð“, sem sé metið af ráðgjafa í málefnum fatlaðra, komi fram að hún þurfi fulla líkamlega aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Velferðarstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2030 sem hafi verið útgefin sé ekki í samræmi við niðurstöðu áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Þar segi orðrétt: „Reykjavík fyrir okkur öll. Velferðarstefna Reykjavíkurborgar er rammi utan um metnaðarfulla velferðarþjónustu sem hefur það að markmiði að auka lífsgæði og stuðla að því að allir Reykvíkingar eigi kost á að lifa með reisn.“

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 8. febrúar 2023, rökstudd 20. mars 2023, um að synja umsókn kæranda um aukningu á beingreiðslusamningi.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var rökstudd með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 20. mars 2023, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 29. júní 2023. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Svar barst ekki.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Þá virðist jafnframt ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi leggi inn nýja umsókn hjá Reykjavíkurborg.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta