Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 1/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

     

Miðvikudaginn 23. október 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 1/2013:

  

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 2. janúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Kópavogsbæjar, dags. 5. september 2012, á beiðni hennar um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð. Synjunin byggðist á því að kærandi félli ekki að reglum Kópavogbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem hún var ekki talin eiga við alvarlegan fjárhagsvanda að etja. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að í beiðni kæranda um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð hafi falist beiðni um endurupptöku þriggja ákvarðana Kópavogsbæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir júní, júlí og ágúst 2012 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin enn fremur að líta verði á að í synjun Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð hafi falist synjun á beiðni um endurupptöku.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi lagði stund á nám við Háskóla Íslands skólaárið 2011–2012. Á því tímabili átti kærandi rétt á framfærslu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi var atvinnulaus sumarið 2012 og sótti því um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ með umsókn, dags. 1. júní 2012, fyrir mánuðina júní, júlí og ágúst 2012. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var samþykkt en þar sem kærandi var í leiguhúsnæði án þinglýsts leigusamnings þegar hún sótti um átti hún einungis rétt á 0,8 framfærslustyrk samkvæmt 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Með kaupsamningi, dags. 19. júní 2012, festi kærandi kaup á fasteigninni B. Í kjölfarið fór kærandi fram á fulla afturvirka fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ, en engin umsókn liggur fyrir í gögnum málsins.

Umsókn kæranda var lögð fyrir teymisfund hjá velferðarsviði Kópavogs, dags. 5. september 2012, sem samþykkti svohljóðandi bókun:

„Synjað að veita fulla afturvirka fjárhagsaðstoð skv. 16. gr. þar sem umsækjandi fellur ekki að reglum.“

Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogs með bréfi, dags. 18. september 2012. Félagsmálaráð Kópavogs tók málið fyrir á fundi sínum þann 2. október 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

„Félagsmálaráð staðfestir bókun teymisfundar.“

Niðurstaða félagsmálaráðs Kópavogsbæjar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 3. október 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 2. janúar 2013. Með bréfi, dags. 4. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um afturvirka fjárhagsaðstoð. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð velferðarsviðs Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 17. janúar 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. janúar 2013, var bréf velferðarsviðs Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda og móður kæranda með bréfi, dags. 30. janúar 2013. Með símtali, dags. 16. ágúst 2013, var af hálfu úrskurðarnefndarinnar óskað eftir umsókn kæranda um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð. Með tölvupósti, dags. 16. ágúst 2013, barst nefndinni greinargerð sem lögð var fyrir teymisfund, dags. 5. september 2012, ásamt áfrýjun kæranda sem lögð var fyrir félagsmálaráð Kópavogs, dags. 18. september 2012. Með pósti, dags. 22. ágúst 2013, bárust nefndinni upphaflegar umsóknir kæranda um fjárhagsaðstoð. Með tölvupósti, dags. 23. ágúst 2013, var af hálfu úrskurðarnefndarinnar óskað eftir skýringum á atvikum málsins og ítrekuð ósk um umsókn eða gögn sem styddu umsókn kæranda um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2013, bárust nefndinni almennar dagnótur með samskiptum kæranda og félagsráðgjafa. Úrskurðarnefndinni barst hins vegar ekki umsókn kæranda um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé námsmaður og hafi enga vinnu fengið sumarið 2012 þrátt fyrir margar umsóknir. Kveðst kærandi hafa fengið 80% fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ eða 113.000 kr. á mánuði, frá 1. júní 2012, þar sem hún hafi verið án þinglýsts leigusamnings. Að sögn kæranda festi hún kaup á fasteigninni B, ásamt móðursystur sinni, dags. 24. júní 2012, og hafi hún verið þinglýstur eigandi hennar að 65% hluta. Til kaupa á fasteigninni kveðst kærandi hafa fengið 7.000.000 kr. lán frá Landsbankanum og 6.000.000 kr. lán frá móður sinni. Í ágúst hafi henni verið bent á að hún ætti rétt á fullri fjárhagsaðstoð og því hafi hún farið fram á afturvirka leiðréttingu. Á þeim tímapunkti hafi ágústmánuður verið ógreiddur eins og fram komi í bréfi frá teymisfundi, dags. 5. september 2012. Samt sem áður hafi ágústmánuður ekki verið tekinn með í umsókn kæranda. Þar sem hægt sé að fá fjárhagsaðstoð greidda tvo mánuði aftur í tímann, fari kærandi fram á að fá leiðréttan sinn hlut í málinu. Telur kærandi sig eiga rétt á 100% fjárhagsaðstoð frá 24. júní 2012 til 31. ágúst 2012, frá Kópavogsbæ.

 

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í athugasemdum vegna kærunnar er vísað í reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sem settar hafi verið á grundvelli 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Markmið reglnanna sé að styrkja íbúa til sjálfshjálpar og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið úr málum sínum sjálf. Kærandi hafi átti rétt á 0,8 framfærslustyrk þar sem hún hafi verið í leiguhúsnæði án þinglýsts leigusamnings og atvinnulaus eftir að skóla lauk vorið 2012. Kærandi hafi því fengið 0,8 framfærslustyrk á grundvelli 16. gr. reglna Kópavogsbæjar fyrir júní, júlí og ágúst 2012. Kærandi hafi gengið frá kaupum á íbúðarhúsnæði í lok júní og hafi því farið fram á leiðréttingu á framfærslustyrk, fyrir júlí og ágúst 2012. Til íbúðarkaupanna hafi kærandi reitt fram 13.000.000 kr. sem ekki hafi verið í formi lánafyrirgreiðslu. Því hafi það verið mat teymisfundar ráðgjafa- og íbúðadeildar, sem staðfest hafi verið á fundi félagsmálaráðs Kópavogs, að ekki gæti hafa verið um alvarlegan fjárhagsvanda að ræða hjá kæranda vegna íbúðarkaupanna né heldur gæti hún ekki hafa ráðið fram úr málum sínum sjálf. Forsendur fyrir fjárhagsaðstoðinni hafi því breyst þar sem ekki hafi verið upplýst við umsókn um fjárhagsaðstoð að kærandi hefði aðgang að framangreindri fjárhæð og að til hafi staðið að fjárfesta í fasteign. Jafnframt hafi fjárhagslegt öryggi kæranda ekki verið talið ótryggt, sbr. 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð, en meginmarkmið reglnanna sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi einstaklinga. Til þess að um afturvirka fjárhagsaðstoð geti verið að ræða þurfi að liggja fyrir rökstuddar ástæður sem réttlæti slíka aðstoð, auk þess sem skilyrðum fjárhagsaðstoðar þurfi að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um, sbr. 11. gr. reglna Kópavogsbæjar. Í máli kæranda hafi hvorki þau skilyrði né rökstuddar ástæður þótt vera fyrir hendi þar sem fjárhagslegt svigrúm kæranda hafi verið töluvert í ljósi fasteignakaupanna.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar frá 30. desember 2003, með síðari breytingum, síðast 24. maí 2012. Í máli þessu er ágreiningur um greiðslu fjárhagsaðstoðar.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ fyrir júní, júlí og ágúst 2012. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var samþykkt en þar sem kærandi var í leiguhúsnæði án þinglýsts leigusamnings þegar hún sótti um átti hún einungis rétt á 0,8 framfærslustyrk samkvæmt 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Með kaupsamningi, dags. 19. júní 2012, festi kærandi kaup á 65% hluta fasteignar að B. Í kjölfarið fór kærandi fram á fulla afturvirka fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ, en engin beiðni þar að lútandi liggur fyrir í gögnum málsins. Beiðni kæranda var synjað með þeim rökum að kærandi félli ekki að reglum þar sem hvorki gæti hafa verið um alvarlegan fjárhagsvanda að ræða hjá kæranda vegna íbúðarkaupanna né gæti hún ekki hafa ráðið fram úr málum sínum sjálf.  

Úrskurðarnefndin tekur fram að ákvörðun um greiðslu fjárhagsaðstoðar er stjórnvaldsákvörðun og felur í sér samþykki sveitarfélagsins á því að greiða fjárhagsaðstoð fyrir það tímabil sem sótt er um, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júní, júlí og ágúst 2012 og voru umsóknir hennar samþykktar hjá Kópavogsbæ. Kærandi óskaði síðar eftir leiðréttingu þar sem hún taldi sig hafa átt rétt á hærri greiðslum. Af gögnum málsins má ráða að Kópavogsbær hafi afgreitt erindi kæranda sem beiðni um afturvirka fjárhagsaðstoð á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð, en þar segir að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en tvo mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Kærandi lagði hins vegar fram umsóknir um fjárhagsaðstoð fyrir júní, júlí og ágúst 2012 í hverjum mánuði og fékk greiðslur þegar bótaréttur hennar hafði verið staðreyndur. Verður því ekki litið svo á að um hafi verið að ræða beiðni um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að í beiðni kæranda um fulla afturvirka fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ hafi falist beiðni um endurupptöku ákvarðana um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir júní, júlí og ágúst 2012 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin enn fremur að líta verði svo á að í synjun Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um leiðréttingu hafi falist synjun á beiðni um endurupptöku. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að tryggja að beiðnir sem sveitarfélaginu berast verði rannsakaðar til hlítar svo standa megi rétt að afgreiðslu þeirra.

Vegna tilvísunar Kópavogsbæjar til 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að samkvæmt ákvæðinu er ekki skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en tvo mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir hins vegar að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Ákvæði 3. mgr. 21. gr. laganna kveður því á um rýmri rétt en fram kemur í reglum Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Ákvæði 3. mgr. 21. gr. laganna var nýmæli með lögum nr. 34/1997, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í athugasemdum sem fylgdi frumvarpi að baki lögunum sagði að ekki yrði gert ráð fyrir því að reglur sveitarfélaga kvæðu á um greiðslur aftur í tímann og sérstök tímamörk í því sambandi. Var ástæðan sú að með því væri verið að leggja til að almennar reglur kröfuréttar sættu vissum takmörkunum. Slíkar takmarkanir á almennum lögum í landinu yrðu einungis settar með lögum, en reglur sveitarfélaga gætu ekki þrengt almennan rétt sem í landslögum fælist. Beinir úrskurðarnefndin þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að reglur sveitarfélagsins verði endurskoðaðar með þetta í huga.

Þá bendir úrskurðarnefndin á að í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið skýrt á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda. Ákvarðanir sveitarfélagsins í málinu voru kynntar kæranda með bréfum, dags. 5. september 2012 og 3. október 2012. Ákvörðununum fylgdi ekki rökstuðningur sem fullnægir skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga og bar sveitarfélaginu því að leiðbeina aðila máls um heimild til eftirfarandi rökstuðnings. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að tryggja að fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga sé fylgt þegar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins eru ekki rökstuddar.

Enn fremur telur úrskurðarnefndin rétt að gera athugasemdir við að sveitarfélagið hafi ekki afhent úrskurðarnefndinni öll gögn málsins þegar þeirra var óskað með bréfi, dags. 4. janúar 2013. Með bréfi sveitarfélagsins til nefndarinnar, dags. 17. janúar 2013, var hvorki að finna beiðni kæranda um leiðréttingu né gögn sem sýndu fram á hvenær og með hvaða hætti kærandi lagði þá beiðni fram. Þá bárust nefndinni hvorki upphaflegar umsóknir kæranda um fjárhagsaðstoð né greinargerð sem lögð var fyrir teymisfund, þann 5. september 2012, fyrr en sérstaklega var óskað eftir þeim. Úrskurðarnefndinni barst aldrei beiðni kæranda um leiðréttingu. Úrskurðarnefndin tekur fram að á grundvelli kærusambands milli sveitarfélagsins og úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ber sveitarfélaginu skylda til að veita nefndinni öll gögn sem byggt var á við töku hinnar kærðu ákvörðunar og nauðsynlegar upplýsingar þegar ákvörðun sveitarfélagsins er kærð til úrskurðarnefndarinnar. Þess er óskað að gætt sé að því að framangreindri skyldu verði framvegis fullnægt með réttum hætti. Að auki vekur úrskurðarnefndin sérstaklega athygli á ákvæði 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er tóku gildi þann 1. janúar 2013, en þar segir að við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna ber stjórnvöldum, og öðrum sem lögin taka til, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins. Beinir úrskurðarnefndin þeim tilmælum til sveitarfélagsins að gætt sé að framangreindu ákvæði þegar umsóknir um þjónustu eða aðstoð berast sveitarfélaginu.

Um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára er fjallað í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Við því mati verður ekki hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 16. gr. reglnanna er kveðið á um upphæð fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 1. mgr. að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðist við grunnfjárhæð 142.020 kr. Nánari útlistun á framfærslugrunninum er eftirfarandi:

  • Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 1,0 eða kr. 142.020.-
  • Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa hjá öðrum og deila sannanlega kostnaði af húsnæði er 0,5 eða kr. 71.010.-
  • Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem leigja húsnæði án þinglýsts leigusamnings og sannanlega sýna fram á húsnæðiskostnað sem og þeirra sem ekki hafa aðgang að húsnæði er 0,8 eða kr. 113.616.-
  • Framfærslugrunnur hjóna og fólks í sambúð er 1,6 eða kr. 227.232.- 

Í 3. málsl. 3. mgr. 16. gr. reglnanna segir að með rekstri eigin heimilis sé átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning um húsnæðið, enda sé viðkomandi ekki í félagslegu húsnæði. Þegar kærandi óskaði eftir fjárhagsaðstoð í júní 2012 var hún í leiguhúsnæði án þinglýsts leigusamnings. Samkvæmt reglunum var framfærslugrunnur hennar því 0,8 eða 113.616 kr. Með kaupsamningi, dags. 19. júní 2012, festi kærandi kaup á 65% hluta fasteignar og varð þinglýstur eigandi hennar þann 24. júní 2012. Fór kærandi því fram á leiðréttingu þannig að henni yrði veitt fjárhagsaðstoð miðað við framfærslugrunn 1,0 eða 142.020 kr. þar sem hún hafi sannanlega rekið eigið heimili frá og með 24. júní 2012. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hefur kærandi búið í fasteigninni frá 6. mars 2012 og varð þinglýstur eigandi 65% hluta fasteignarinnar þann 24. júní 2012. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi búið í eigin húsnæði frá 24. júní 2012 og verði því að telja að hún hafi sannanlega rekið eigið heimili frá þeim tíma, sbr. 1. lið 1. mgr. 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð.

Samkvæmt 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er fjárhagsaðstoð veitt þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eiga lögheimili í Kópavogi í þeim tilgangi að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi. Er fjárhagsaðstoð veitt í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa ónægar tekjur sér til framfærslu og geta ekki séð sér og sínum farboða, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 18. gr. reglnanna segir að allar tekjur einstaklings í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinum á undan komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Með tekjum sé átt við allar skattskyldar tekjur einstaklings/maka, svo sem atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, mæðra- og feðralaun og framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt 62. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Í 19. gr. er síðan fjallað um eignir umsækjanda. Þar segir að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans búi í eða hafi nýlega selt eignir sínar skuli umsækjanda að jafnaði vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þótt tekjur viðkomandi séu undir viðmiðunarmörkum.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda fékk hún 6.000.000 kr. að láni frá móður sinni og 7.000.000 kr. lán frá Landsbankanum til kaupa á fasteign í júní 2012, sbr. fyrirliggjandi kaupnótu skuldabréfs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir í málinu hvort sú fjárhæð sem kærandi kveðst hafa fengið að láni frá móður sinni teljist til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. 7. gr. A laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð, sem komi til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Liggur þannig ekki fyrir hvort umrædd fjárhæð skuli koma til frádráttar við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Verður þannig að telja að mál þetta hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Kópavogsbæ að taka umsókn kæranda til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 3. október 2012, um synjun á beiðni A, um endurupptöku ákvarðana um fjárhagsaðstoð fyrir júní, júlí og ágúst 2012 er felld úr gildi og málið sent aftur til sveitarfélagsins til löglegrar meðferðar.

  

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta