Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 250/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 250/2021

Fimmtudaginn 19. ágúst 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 28. apríl 2021, um synjun á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. apríl 2021, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 21. apríl 2021, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 28. apríl 2021 og staðfesti synjunina.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. maí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 14. júlí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júlí 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé ein með þrjú börn, tveggja, tíu og sautján ára. Elsta barnið eigi hún með öðrum manni. Kærandi hafi verið sett í þá aðstöðu af barnsföður sínum að flytja inn á foreldra hans síðastliðið sumar. Þau hafi ætlað að taka saman en það hafi ekki gengið. Kærandi og börn hennar hafi verið skilin eftir hjá foreldrum barnsföðurins þar sem hún hafi ekki haft annað val. Kærandi hafi sótt um íbúð hjá félagsþjónustunni en henni hafi verið synjað tvisvar vegna þess að hún hafi ekki verið með lögheimili í Reykjavík í tólf mánuði en nú séu þegar komnir níu mánuðir. Kærandi sé fædd í Reykjavík og hafi búið nánast öll sín barnsár þar. Kærandi þurfi að fara út af heimilinu þegar barnsfaðir hennar sé með börnin og skilja eftir elsta barnið vegna þess að hún hafi ekki tök á að hafa hann með og hafi þetta mikil áhrif á hana og börnin þar sem þau eigi ekki heimili. Kærandi glími líka við andleg veikindi og kvíða sem hafi valdið henni og börnunum mikilli vanlíðan og álagi. Kærandi viti til þess að undanþága hafi verið gerð frá skilyrðinu um tólf mánaða lögheimili. Nú sé svo komið að foreldrar barnsföður kæranda séu að fara að selja og muni hún og börnin hennar því lenda á götunni og vera skráð á götunni. Kærandi hafi ekki efni á að leigja á almennum markaði. Kæranda finnist allavega að það ætti að hugsa um velferð barna hennar því að hún setji þau ávallt í fyrsta sæti. Kærandi geti bara ekki orðið meir og óski eftir því að eitthvað verði gert fyrir sig og börnin, allavega að þau fái fast heimili þar sem þeim muni líða vel. Kærandi hafi verið þolinmóð og beðið róleg eftir að umsókn hennar yrði tekin til greina sem hafi ekki tekist fram að þessu. Kærandi óttist að lenda á götunni þar sem hún hafi lítið bakland sín megin þótt fólk reyni að hjálpa. Kærandi sé öryrki og hafi bara ekkert annað að leita en til úrskurðarnefndar til að vita hvort hægt sé að hjálpa henni og börnum hennar. Kærandi geti skilað inn læknisvottorði frá lækni sínum. Kærandi voni að þessi kæra verði tekin til skoðunar og að hún og börn hennar fái einhvern stað svo að þeim fari að líða betur. Það sé ekki boðlegt að eiga ekki heimili þegar fólk sé sett í slæmar aðstæður eins og hún og börn hennar hafi verið sett í. Kærandi hafi búið í Reykjavík síðan í júní 2020 en hafi ekki fært lögheimili til Reykjavíkur strax þar sem hún hafi haldið að Hafnarfjarðarbær myndi aðstoða hana með húsnæði, en þar hafi hún búið áður en hún flutti til Reykjavíkur. Kærandi voni að hún fái aðstoð þar sem úrskurðarnefnd sé síðasti staðurinn sem hún geti leitað til.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi verið skráð með lögheimili í Reykjavík frá 4. september 2020 en áður hafi hún búið í Hafnarfirði, eða þar til íbúð sem hún hafi leigt hafi verið seld. Síðast hafi hún verið með skráð lögheimili í Reykjavík frá 26. apríl 2000 til 15. janúar 2001.

Kærandi hafi sótt um félagslega leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg en hún hafi fengið synjun þar sem hún hafi ekki haft lögheimili í Reykjavík síðustu tólf mánuði, sbr. a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Samkvæmt a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði skuli umsækjandi eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og síðustu tólf mánuði áður en umsókn berst. Í 5. gr. reglnanna sé fjallað um undanþágur frá skilyrði um lögheimili og tekjuviðmið. Þar segi að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 4. gr. um lögheimili í tveimur tilvikum. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. sé heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindu skilyrði ef umsækjandi hafi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en hafi flutt tímabundið, að hámarki til tveggja ára, úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Í b-lið 1. mgr. 5. gr. segi að veita megi undanþágu ef umsækjandi eða barn hans undir 18 ára aldri eigi við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilningi laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hafi þurft að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu.

Kærandi hafi einungis verið með skráð lögheimili í Reykjavík frá september 2020, en áður frá 26. apríl 2000 til 15. janúar 2001. Þar af leiðandi eigi a-liður 1. mgr. 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði ekki við. Þá eigi b-liður 1. mgr. 5. gr. reglnanna ekki við þar sem hvorki umsækjandi né börn hennar eigi við alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilningi laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun þjónustumiðstöðvar um almennt félagslegt leiguhúsnæði þar sem skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi ekki verið uppfyllt og að undanþágur þær er fjallað sé um í a- og b-liðum 1. mgr. 5. gr. reglnanna eigi ekki við um aðstæður kæranda.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini megi telja það ljóst vera að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 64. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði skal umsækjandi vera orðinn 18 ára á umsóknardegi og eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og síðustu 12 mánuði áður en umsókn berst. Í 5. gr. kemur fram að heimilt sé að gera undanþágu frá skilyrði um lögheimili í tveimur tilvikum. Í a-lið 5. gr. kemur fram að heimilt sé að gera undanþágu ef umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið, að hámarki til tveggja ára, úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Í b-lið 5. gr. kemur fram að heimilt sé að gera undanþágu ef umsækjandi eða barn hans undir 18 ára aldri eigi við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilningi laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hefur þurft að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu.   

Samkvæmt framansögðu og gögnum málsins má sjá að kærandi uppfyllir ekki skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Þá er ljóst að undanþágur a- og b-liða 5. gr. reglnanna eiga ekki við um kæranda. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 28. apríl 2021, um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta