Mál nr. 421/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 412/2016
Fimmtudaginn 23. febrúar 2017
A
gegn
Mosfellsbæ
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 12. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Mosfellsbæjar, dags. 14. september 2016, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.
I. Málavextir og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 29. júní 2016, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Mosfellsbæ til að lækka reikninga vegna matarsendinga. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar, dags. 14. september 2016, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. október 2016. Með bréfi, dags. 25. október 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Mosfellsbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Mosfellsbæjar barst með bréfi, dags. 7. nóvember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. nóvember 2016, var bréf Mosfellsbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi áður fengið greiddan fæðiskostnað í formi frekari liðveislu, sbr. 25. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Kærandi bendir á að ákvörðun um að hætta greiðslu fæðiskostnaðar sé íþyngjandi og um hana gildi reglur stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið hafi ekki rannsakað stöðu hennar nægjanlega en hún hafi enn jafn mikla þörf fyrir frekari liðveislu, enda hafi færni hennar ekki aukist. Kærandi tekur fram að frekari liðveisla sé ekki metin út frá félagslegum aðstæðum heldur færni einstaklingsins til að framkvæma ákveðnar athafnir og réttur til þeirrar þjónustu sé lögbundinn.
III. Sjónarmið Mosfellsbæjar
Í greinargerð Mosfellsbæjar kemur fram að árið 2012 hafi verið samþykkt að veita kæranda frekari liðveislu með einstaklingssamningi vegna fötlunar hennar og sérstakra aðstæðna. Ekki hafi verið unnt að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð þar sem umsóknin samræmdist ekki reglum sveitarfélagsins um hana. Með samningnum hafi kærandi fengið greiddar 30.000 kr. á mánuði vegna matarkostnaðar og 5.000 kr. á mánuði vegna aksturs til kaupa á þeirri þjónustu. Kærandi hafi notið þjónustunnar fram í apríl 2014. Sérstök sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun um frekari liðveislu þar sem börn kæranda, þá á 15. og 18. ári, hafi þá búið hjá föður sínum og verið í reglulegum heimsóknum hjá kæranda. Þau séu nú uppkomin.
Í júní 2016 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð hjá Mosfellsbæ til að lækka reikninga vegna matarsendinga. Kærandi hafi í umsókn sinni vísað til þess að hún hafi áður fengið samþykkta fjárhagsaðstoð. Sveitarfélagið bendir á að umsóknir um fjárhagsaðstoð fari eftir reglum um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ. Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem tekjur hennar væru yfir kvarðamörkum reglna um fjárhagsaðstoð.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um synjun Mosfellsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 9. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ er kveðið á um upphæðir fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 1. mgr. að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðist við grunnfjárhæð 162.000 kr. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannarlega reki eigið heimili sé 1,0 eða 165.000 kr. Með rekstri eigin heimilis sé átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggi fram þinglýstan húsaleigusamning því til staðfestingar. Þá segir í 2. mgr. 9. gr. reglnanna að upphæð fjárhagsaðstoðar sé óháð því hvort barn eða börn búi á heimilinu. Í 10. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur umsækjanda/maka, í þeim mánuði sem sótt sé um og mánuðinn á undan, komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Með tekjum sé átt við allar innlendar og erlendar tekjur einstaklings/maka sem ekki séu sérstaklega til framfærslu barna, það er atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, mæðra- og feðralaun o.s.frv. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá.
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2016 með umsókn, dags. 29. júní 2016 og bar því að miða við tekjur kæranda í júní og júlí 2016. Miðað við fyrirliggjandi gögn voru meðaltekjur kæranda framangreinda mánuði 227.763 kr. Samkvæmt 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ skulu allar tekjur kæranda/maka koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Tekjur kæranda voru hærri en upphæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 9. gr. reglnanna og átti hún því ekki rétt á fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2016. Úrskurðarnefndin tekur fram að ekkert í umsókn kæranda bendi til þess að hún hafi verið að sækja um aðstoð á öðrum grunni en samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ.
Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 14. september 2016, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson