Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 523/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 523/2023

Þriðjudaginn 12. desember 2023

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á árinu 2022. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. júní 2023, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2022 þar sem fram kom að hún hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 94.988 kr., auk upplýsinga um með hvaða hætti hinar ofgreiddu bætur yrðu innheimtar. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. september 2023, var kærandi minnt á skuldina og með bréfi, dags. 29. október 2023, fékk hún senda lokaviðvörun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. október 2023. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. nóvember 2023, var óskað eftir gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust samdægurs. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2023, var óskað eftir upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um birtingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hafa þann 13. júní 2023 fengið bréf þess efnis að hún hefði fengið greiddar of háar húsnæðisbætur á árinu 2022. Ástæðan fyrir því að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé að frá 18 ára aldri sonar hennar reiknist hans tekjur og eignir með við mat á fjárhæð húsnæðisbóta. Þar sé um að ræða sparifé sonar hennar sem hann sé að leggja fyrir vegna skólagöngu. Það sé glórulaust að ætla syni kæranda að axla ábyrgð á móti henni þegar hann sé að reyna að vinna sér í haginn fyrir betri framtíð. Kærandi bendi á að ekki sé tekið tillit til skuldastöðu hennar, hún eigi ekkert, bara skuldir og því sé grátlegt að útreikningar byggi á sparifé sonarins. Hægt sé að sjá skuldastöðu á skattaskýrslu.

Að mati kæranda beri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar enga ábyrgð, útreikningar séu á vegum stofnunarinnar og ef þeir séu rangir bitni það á húsnæðisbótaþega. Húsaleiga hafi hækkað og aðrar bætur sem fylgi því að eiga barn undir 18 ára aldri séu allar úr sögunni. Kærandi sitji því uppi með að búa við rýrari kost og skuld frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þau séu bara tvö og búi ekki í vellystingum, sonurinn sé í skóla. Það sé glatað að ætla honum að auka við sig hlutastarfi til þess eins að borga skuldir. Kærandi vilji helst hlífa honum við það eins og mögulegt sé, enda sé hann ekki með stóreignir í sparifé.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. júní 2023, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 29. október 2023. Fyrir liggur að bæði í áminningarbréfi frá 29. september 2023 og lokaviðvörunarbréfi frá 29. október 2023 var tiltekið að heimilt væri að kæra þær ákvarðanir til úrskurðarnefndar velferðarmála og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfanna. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við þá framkvæmd stofnunarinnar, enda getur slíkur texti í áminningarbréfum verið villandi. Hin kæranlega ákvörðun í málinu er lokauppgjörið sem fram kemur í bréfi frá 13. júní 2023 og miðast kærufrestur við þá dagsetningu. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni en einnig áður en áðurnefnd áminningarbréf bárust kæranda.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var kærandi í rafrænum samskiptum við stofnunina í gegnum „Mínar síður“ og bréfið frá 13. júní 2023 var lesið mánuði síðar, eða 13. júlí 2023. Þá hafði kæranda við upphaf umsóknarferlis og í móttökustaðfestingu umsóknar verið leiðbeint um það að samskipti yrðu eftirleiðis rafræn. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Svar barst ekki.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta