Mál nr. 67/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 67/2024
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 6. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. ágúst 2023, um að synja umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 24. maí 2023, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 8. júní 2023, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 9. ágúst 2023.
Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 28. september 2023, sbr. mál nr. 402/2023, var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði staðfest.
Kærandi lagði fram nýja kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 6. febrúar 2024 vegna ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. ágúst 2023. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2024, var óskað eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um hvort fyrir lægi önnur ákvörðun sem tengdist húsnæðismálum kæranda. Svar barst samdægurs þess efnis að svo væri ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar er ekki að finna sérstakan rökstuðning fyrir kæru en af kærunni má ráða að kærandi sé ósáttur við þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. ágúst 2023, um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.
Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 28. september 2023, sbr. mál nr. 402/2023, var sú ákvörðun Reykjavíkurborgar staðfest.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um húsnæðismál er fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í ljósi þess að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur þegar úrskurðað um þá ákvörðun sem kærandi lagði fram er það mat nefndarinnar að mál hans sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir